149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:33]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það er rétt að byrja á að fagna því að við skulum núna vera að takast á við að afgreiða frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er nokkuð í land með að við afgreiðum frumvarpið og á hv. atvinnuveganefnd eftir að fara höndum um það.

Hér eru mjög miklir hagsmunir í húfi. Um það verður ekki deilt að gríðarleg tækifæri geta verið fólgin í fiskeldi, hvort heldur í landeldi eða sjókvíaeldi. Það er mjög mikilvægt þegar við byggjum upp nýja atvinnugrein, þó að hún standi kannski á gömlum merg, kannski ekki svo hér á Íslandi, að það sé gert í sátt, að tekið sé tillit til allra hagsmuna, ekki síst náttúrunnar sjálfrar. Við horfum til þess þegar við nýtum auðlindir okkar, í þessu tilfelli það sem býr í hafinu og gefur okkur tækifæri til að stunda fiskeldi í sjó, hvernig okkur hefur tekist til við að nýta auðlindir hafsins með stjórn fiskveiða, þ.e. allt er byggt á eins góðri þekkingu og við getum aflað okkur á hverjum tíma, byggt á vísindalegum rannsóknum.

Við þurfum að byggja upp fiskeldið, ég held að langflestir séu sammála um það. Við viljum stuðla að uppgangi fiskeldis en ég er einn af þeim sem hafa viljað fara hægt í sakirnar. Ég hef talið nauðsynlegt að við færum varlega og að við byggðum allar okkar aðgerðir og öll okkar skref á sem bestri mögulegri þekkingu. Hér er auðvitað um að ræða samspil atvinnulífsins og náttúruverndar. Ég hef áður haldið því fram í þessum stól að náttúruvernd sé líka efnahagslegt mál, að það séu efnahagsleg verðmæti fólgin í því að tryggja vernd náttúrunnar.

Fyrir hálfri öld var okkur Íslendingum ekki mjög tamt að ræða um náttúruvernd. „Náttúruvernd er nýtt hugtak, nýtt viðfangsefni, ný staðreynd, sem þjóð okkar þarf að horfast í augu við,“ sagði Birgir heitinn Kjaran, þingmaður okkar Sjálfstæðismanna í umræðum hér í efri deild, þá um frumvarp til náttúrulaga árið 1971.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég fá að vitna í þessa ræðu Birgis heitins Kjarans vegna þess að ég held að við getum ýmislegt lært af þeim framsýna manni. Hann sagði í ræðu 1971 orðrétt:

„Það þarf tíma til þess að kynna alþjóð náttúruverndarsjónarmiðin, gera henni ljóst, að náttúruvernd er engin spjátrungsleg sérvizka búin til á skrifpúltum lífsfirrtra lærdómsofvita með aðstoð tölvunnar, né heldur rómantískt hugsjónaskvaldur, heldur bláköld hagsmunastaðreynd veruleikans. Okkar kynslóð og sú næsta mun gegna og þurfa að gegna róttækum aðgerðum í náttúruverndarmálum. En komandi kynslóð mun ekki gera það, ef við svo búið verður látið standa, sem er í dag, og fram kann að vinda án þess að nokkuð sé staldrað við og hugað af alvöru og einurð að þessum þýðingarmiklu málum.“

Mér varð hugsað til þessara orða Birgis heitins Kjarans þegar ég var að lesa frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskeldi vegna þess að við þurfum að geta borið gæfu til þess að byggja upp þessa nýju atvinnugrein, nýta þau ótrúlegu tækifæri sem fólgin eru í fiskeldi í sátt við náttúruna. Fiskeldi og náttúruvernd geta farið ágætlega saman. Þegar ég fer yfir það frumvarp sem hér liggur frammi sýnist mér að farin sé sáttaleið í þeim efnum, að reynt sé að koma til móts við ólík sjónarmið, annars vegar þeirra sem vilja stunda fiskeldi og sjá tækifærin í fiskeldinu og hins vegar þeirra sem standa vilja vörð um náttúruna og standa vörð um hinn villta, ótrúlega magnaða íslenska laxastofn.

Þegar ég ræði um fiskeldi er ég fyrst og fremst að tala um sjókvíaeldi sem byggist á grunni vísindalegrar þekkingar og er því ekki ógn heldur tækifæri til atvinnuuppbyggingar og þá ekki síst á landsvæðum sem mörg hver hafa átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum og í rauninni áratugum. Þetta er ekki áhættulaus starfsemi. Því hafa aðrar þjóðir fengið að kynnast. Hugsanleg erfðablöndun getur brotið niður náttúrulega laxastofna í íslenskum ám, laxasjúkdómar og laxalús og sjúkdómar geta magnast með óafturkræfum, skelfilegum afleiðingum fyrir náttúruna og um leið er mikilvægum stoðum kippt undan búgrein á Íslandi.

Nýting veiðihlunninda er gríðarlega mikilvæg í mörgum sveitum á Íslandi og í raun forsenda byggðafestu í mörgum sveitum. Það er því mikilvægt þegar við tökum skref í að byggja upp þessa nýju atvinnugrein að við horfum til þess og þeirra sjónarmiða sem einstakar sveitir, einstakir bændur, einstakir veiðiréttarhafar, sem byggja afkomu sína að stórum hluta á veiðiréttartekjum hafa, að við hlustum á sjónarmið þeirra og tökum mark á áhyggjum þeirra þannig að við séum ekki að fórna þeim hagsmunum.

Ég vonast auðvitað til þess að okkur auðnist að afgreiða þetta frumvarp, hugsanlega með einhverjum breytingum sem atvinnuveganefnd kann að leggja til og/eða aðrir þingmenn. Ég áskil mér auðvitað rétt til þess eins og aðrir þingmenn að koma með breytingartillögur þó að ég sitji ekki í atvinnuveganefnd. Ég vonast til að okkur takist að afgreiða þetta mál í mikilli sátt eða a.m.k. sæmilegri sátt. Ég held að það sé mikilvægt fyrir atvinnugreinina sem slíka, þ.e. fiskeldið, en það er líka mikilvægt fyrir veiðiréttarhafa, fyrir bændur og fyrir þá sem fengið hafa að njóta þess að standa á árbakkanum og veiða villtan, íslenskan lax. Ég vona að okkur takist að forðast að grafa skotgrafir.

Ég er nefnilega sammála því sem dr. Sigurður Guðjónsson, núverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði í ársskýrslu Veiðimálastofnunar 2014, en Sigurður var þá forstöðumaður þeirrar stofnunar. Hann skrifaði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef fiskeldi á að ná sér á strik hér á landi þarf að bæta alla umgjörð um eldið. Auka þarf rannsóknir og þróunarvinnu um leið og stefnumótun á sér stað um hvaða tegundir eru vænlegar í eldi hér á landi og hvernig eldinu verður best borgið án þess að taka of mikla áhættu með náttúruna. Eldi á landi með nýtingu jarðhita er óneitanlega kostur sem aðrar þjóðir hafa ekki.“

Ég fæ ekki betur séð en að frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé einmitt nauðsynlegt skref til að bæta hina lagalegu umgjörð um fiskeldið sem dr. Sigurður Guðjónsson kallaði eftir árið 2014 og leggi þar með grunninn að því að okkur takist að nýta tækifærin sem vissulega eru fyrir hendi án þess að fórna öðrum hagsmunum. Stefnan er a.m.k. skýr. Vilji hæstv. ráðherra liggur fyrir. Ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis eiga að byggja á ráðgjöf vísindamanna. Það má eiginlega draga frumvarpið saman með þeim hætti að ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna. Ég hygg að það sé mikilvægt.

Í grein sem hæstv. ráðherra skrifaði í Morgunblaðið og birtist nú í morgun fjallar hann um frumvarpið, efnislega þætti þess þar sem hann ítrekar að við þetta verkefni þurfum við að byggja á hinum vísindalega grunni. Við þurfum að tryggja að til verði öflug atvinnugrein, en að hún verði sjálfbær og að vernd lífríkisins verði höfð að leiðarljósi. Með þeim hætti er ég sannfærður um að ágæt sátt verði um uppbyggingu fiskeldis á Íslandi.

Hitt er annað mál að það er margt sem við vitum ekki. Okkur skortir þekkingu á ýmsum sviðum og boðað er að efla hér vísinda- og rannsóknastarf á sviði fiskeldis. Ég hygg að það sé líka mikilvægt að við einbeitum okkur að því og eigum í rauninni að heita okkur því að í framtíðinni verðum við fremst þjóða í rannsóknum og þekkingu á hegðun og umhverfi villtra laxastofna.

Hæstv. forseti. Það er staðreynd að við vitum ekki nægjanlega mikið um villta laxinn, hvernig hann hegðar sér, hvaða áhrif náttúrulegir þættir hafa og t.d. hvaða áhrif laxeldi, sjókvíaeldi hefur á villta laxastofna, þó að ég óttist hin neikvæðu áhrif alveg með sama hætti og við höfum ekki nægilegar upplýsingar um það hvaða áhrif sjókvíaeldi hefur eða kann að hafa á uppeldisstöðvar mikilvægra fiskstofna okkar Íslendinga.