149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. atvinnuveganefnd hefur ærið hlutverk við að fara yfir þetta mál, kalla til sérfræðinga og vega og meta hvort hér sé nógu langt gengið. Hv. þingmaður kom inn á gjaldtökuna. Við höfum fylgst með laxeldi hjá nágrönnum okkar í Noregi og Færeyjum en auðvitað er fiskeldi víða um heim. Það er mjög mikilvægt að við lærum af þeim þjóðum. Ég horfði á þáttaröð í færeyska sjónvarpinu fyrr í vetur sem bar yfirskriftina Undir fiskinum. Þar var farið yfir mengun og erfiðleika sem bæði eru í Færeyjum og Noregi og reynt hefur verið að vinna bug á. Ég tel afar mikilvægt að við horfum til þeirra og lærum af þeim og að þegar við stígum stór skref í þeirri atvinnugrein sjáum við til þess að hún verði sjálfbær, það sé samfélagslega mikilvægið.

Það er náttúrlega alveg klárt að það skiptir máli fyrir heilu landshlutana að efla atvinnu en það þarf líka að vera efnahagslega gott fyrir samfélagið og ríkissjóð og síðan má umhverfið ekki bíða skaða. Atvinnuveganefnd bíður því stórt verkefni næstu daga.

Leyfin hafa nánast verið ókeypis hér á landi en í Noregi eru þau boðin út og þar renna stórar upphæðir í ríkissjóð vegna þess að fiskeldisfyrirtækin telja mjög ábatasamt og eftirsóknarvert að bjóða í þau. Eins og ég segi hafa leyfin nánast verið ókeypis hér og það sem er verið að huga að núna er alls ekki það sama og þeir eru að gera í Noregi. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann, sem jafnframt er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hvort hann telji ekki að við ættum að líta til Noregs hvað þetta varðar.