149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[13:55]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að líta til reynslu Færeyinga og Norðmanna og læra af henni, draga réttar ályktanir af þeim lærdómi. Við eigum ekki að vera að reka okkur á sömu vandamál og Norðmenn og Færeyingar. Við eigum að vera búin að læra af þeim. Þess vegna er mjög gleðilegt að hv. atvinnuveganefnd skuli hafa tekið þá ákvörðun að fara í kynnisferð til Noregs til að kynnast í návígi, ef svo má segja, norsku fiskeldi. Nefndarmenn hljóta að hafa lært mikið og fengið svör við mörgum þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir til mín.

Ég ítreka að ég hygg að það sé rétt og okkur skylt og það væri óðs manns æði, við getum næstum því orðað það svo, að fara fram hér og byggja upp atvinnugrein, fiskeldi í þessu tilfelli, án þess að líta til reynslu annarra landa og draga af henni lærdóm og taka mið af því sem þar hefur gerst í öllum efnum, hvort heldur það er varðandi sjúkdóma eða hvernig leyfisgjöld eru innheimt o.s.frv.

Mér finnst aðalmálið núna að það gengur ekki að fara að byggja upp þessa atvinnugrein og nýta þau tækifæri sem vissulega eru fyrir hendi öðruvísi en að setja um það ný lög. Þess vegna er svo mikilvægt að við afgreiðum þetta frumvarp með þeim breytingum sem við getum verið sammála um fyrir vorið. Það er alveg gríðarlega mikilvægt (Forseti hringir.) fyrir fiskeldisfyrirtækin en það er líka mikilvægt fyrir veiðiréttarhafa og (Forseti hringir.) alla náttúruverndarsinna á Íslandi.