149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem er gríðarlega mikilvægt í öllu stóra samhenginu, mikilvægt fyrir þjóðarhag, mikilvægt fyrir þær byggðir sem hér heyra undir, mikilvægt fyrir náttúru landsins og hvernig við náum að stilla saman strengi í uppbyggingu á þessum atvinnurekstri með sem minnstum áhrifum gagnvart íslenskri náttúru. Sporin hræða vissulega ef horft er til reynslu fyrri ára, en segja má að þolinmæðin þrautir vinni allar. Menn hafa ekki gefist upp og nú hefur með nýjustu tækni, mikilli þekkingu sem orðið hefur til á síðustu árum og stórkostlegum framförum í öllum búnaði og öryggismálum í kringum þennan iðnað dregið verulega úr allri áhættu.

Við fjöllum hér um breytingar á lögum sem sett voru árið 2015. Ég sat í hv. atvinnuveganefnd þegar við afgreiddum þessi lög fyrir réttum fjórum árum og töldum okkur vera að setja ströngustu umgjörð sem sett hefði verið miðað við öll nágrannalönd okkar. Við tókum það sérstaklega fram í nefndinni á þeim tíma, í nefndaráliti ef ég man rétt, að þetta yrði að vera nánast lifandi plagg. Þannig held ég að umgjörðin verði að vera um þessi lög þótt nauðsynlegt sé og gríðarlega mikilvægt að atvinnugreinin, byggðirnar sem hér eiga undir og allir sem að þessu koma hafi ákveðna framtíðarsýn og kjölfestu inn í framtíðina í þessari uppbyggingu. Það eru hagsmunir allra aðila að vel sé staðið að verki.

Það eru fáar atvinnugreinar þar sem fjárfestingin er bundin í eins langan tíma og fyrirtækin og eigendurnir eiga eins mikið undir því að fjármagnið skili sér til baka og þessi atvinnugrein. Á sunnanverðum Vestfjörðum er nú búið að fjárfesta í laxeldi og á rétt síðustu árum á fjórða tug milljarða króna. Við getum sett það í samhengi við byggingu á þjóðarsjúkrahúsi við Hringbraut. Við erum að tala um upphæðir sem eru langleiðina í áttina að þeirri miklu fjárfestingu.

Frumvarpið er mjög varfærin leið í anda þess sem við höfum talað fyrir. Þar eru boðuð ný verkfæri, sem er ákveðið brautryðjendastarf á þessum vettvangi, svokallað áhættumat. Það þekkist ekki í öðrum löndum sem hafa eflt sig mjög og eru mjög stór í þessum atvinnurekstri og annars staðar er horft til framkvæmdar þess hér á landi. Það væri svo sem eftir öðru að Íslendingar tækju ákveðið frumkvæði og forystu í þessum málaflokki sem öðrum þegar kemur að nýtingu á náttúruauðlindum hafsins. Við höfum náð einhverjum besta árangri meðal þjóða í uppbyggingu og eflingu íslensks sjávarútvegs með sjálfbærum hætti þannig að til okkar er horft með fiskveiðistjórnarkerfi okkar og það fyrirkomulag sem hér hefur verið viðhaft.

Sumum finnst of langt gengið. Hér togast á hagsmunir. Öðrum finnast of miklar hömlur. Þannig er reynt að feta hér einhvern milliveg sem treystir að vegferðin verði í senn örugg og ekki með of miklum gassagangi. Ég get því engan veginn tekið undir þau sjónarmið sem hér voru nefnd áðan, að þessi atvinnugrein á Íslandi minni á eitthvert Klondike-gullævintýri. Það er bara alls ekki svo. Farið er mjög hægt og varlega. Það getum við séð ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir.

Það er líka ánægjulegt að sjá að sá árangur sem íslensk fiskeldisfyrirtæki ná nú þegar á þeim smáa skala sem þau eru enn á er eftirtektarverður og hefur leitt það af sér að afurðaverð frá Íslandi, eins og almennt er með sjávarafurðir héðan, er hærra en hjá öðrum þjóðum. Fyrirtæki á Vestfjörðum hafa til að mynda innleitt svokallaða ASC-umhverfisvottun sem er ein sú strangasta í heimi. Þau sýna ábyrgð enda eru hagsmunirnir gríðarlega miklir eins og ég kom inn á áðan.

Það er því í öllu tilliti gríðarlega mikilvægt að hér eigi sér stað málefnaleg umræða. Hagsmunirnir sem eru undir eru miklir í svo víðtæku samhengi. Öll lönd sem hér eru með aðstöðu til að stunda fiskeldi með einum eða öðrum hætti, við getum nefnt Skotland, Írland, Noreg, Færeyjar, jafnvel Danmörku og svo víðar um heiminn auðvitað, eru að auka við framleiðslu sína. Evrópusambandið leggur til að mynda alveg gríðarlega áherslu á þennan málaflokk. Þar er til sjóður sem heitir European Maritime and Fisheries Fund, en hann hefur frá árinu 2013 veitt um 280 milljarða íslenskra króna í styrki til fiskeldis í löndum Evrópusambandsins. Á Íslandi hafa ekki verið veittir neinir styrkir þótt vissulega hafi ekki verið gjaldtaka í samanburði við það sem er í Noregi í dag þar sem greinin er orðin þróuð. Sjálfsagt er að huga að því, og það er kannski næsta mál á dagskrá hjá hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála, að koma með það inn í þingið. Samhliða þessu hefur rannsóknaáætlunin Horizon 2020 veitt um 35 milljarða í styrki á vegum Evrópusambandsins. Samtals eru þetta á fjórða hundrað milljarðar.

Í Noregi er framleiðslan í dag um 1,3 milljónir tonna, var árið 2017 1,2 milljónir tonna. Við vorum á því ári sennilega með í kringum 10.000 tonn á Íslandi. Árið 2022 áætla Norðmenn að verða komnir upp í 1,5 milljónir tonna. Við gætum mögulega verið komin upp í 30.000 tonn eða eitthvað slíkt. Þeir ætla sem sagt að auka þarna frá 2017, á fimm árum, um 300.000 tonn á meðan við erum kannski að tala um í 20.000–30.000 tonn. Langtímamarkmið þeirra er að fara í framleiðslu á yfir 5 milljónum tonna.

Það er ekki að tilefnislausu sem svo mikil áhersla er lögð á þessa matvælaframleiðslu. Hún er mjög hagkvæm. Hún er arðsöm. Kolefnisspor þessarar matvælaframleiðslu er sennilega eitt það lægsta af allri matvælaframleiðslu sem stunduð er í heiminum þegar horft er til loftslagsmála. Að því leyti er þetta mjög hagkvæmt. Verið er að framleiða inn í heim þar sem er mjög vaxandi þörf fyrir matvælaframleiðslu með mjög hagkvæmum hætti, mjög heilbrigða og verðmæta vöru.

Við áætlum samkvæmt burðarþolsmati sem liggur fyrir að framleiða um 130.000 tonn á þeim svæðum þar sem fiskeldi hefur verið skilgreint heimilt á Íslandi, sem eru Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir. Það má vel vera að sú tala eigi eftir að raskast út frá áhættumatinu. Við höfum þegar tekið frá þessi svæði og sagt að annars staðar megi ekki stunda fiskeldi í sjó vegna nálægðar m.a. við laxveiðiár. Ég hef reyndar fulla trú á því að tækninni eigi eftir að fleygja þannig fram á næstu árum og jafnvel áratugum að sú hætta verði yfirstigin og þetta geti verið atvinnugrein sem verði stunduð miklu víðar í kringum landið. 130.000 tonn myndu þýða að við myndum tvöfalda eða jafngilda verðmæti þess að við myndum tvöfalda þorskkvótann okkar, verðmætustu fisktegundarinnar. Það er ekki eftir litlu að slægjast þegar horft er til þess. Þetta er nokkuð stöðug og örugg framleiðsla. Hún er ekki eins háð náttúrulegum sveiflum og við höfum upplifað af sjávarútvegi og upplifum til að mynda núna í uppsjávarveiðunum þar sem loðnubrestur virðist ætla að verða. Þá getum við líka horft til þess að nú þegar á þessu ári munu útflutningsverðmæti í laxeldinu sennilega vega upp jafn mikið og við verðum af í meðalloðnuvertíð og jafnvel duglega það. Það verður að skoða það allt í því samhengi.

Áhrifin á byggðirnar og byggðaþróun í landinu eru síðan alveg sérstakur kapítuli. Það hafa allir upplifað sem farið hafa um þessi svæði þar sem þessi atvinnugrein er að byggjast upp, og alveg sérstaklega á Vestfjörðum þar sem við erum komin hvað lengst, hversu miklar grundvallarbreytingar eru að verða í þessum samfélögum að nýju, sem við hljótum öll að gleðjast yfir, um leið og við viljum að varlega sé farið.

Um sumarið 2017 tala íbúarnir á sunnanverðum Vestfjörðum sem pallasumarið mikla, þ.e. þegar fólk fór að átta sig á því á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði að þetta væri komið til að vera, fólk þyrfti ekki að velta því lengur fyrir sér hvað það ætti að gera, hvort það ætti að fara að flytja burt, það væri eitthvað að gerast í samfélaginu sem gæfi því von um að byggðirnar væru að fara að eflast aftur. Það hefur sannarlega reynt á það. Fólk fór að dytta að húsunum sínum, görðunum sínum, auka verðmæti í eignunum sínum, sem hafa fengið nýjan verðmiða miðað við það sem áður var. Margar aðrar atvinnugreinar, afleidd störf, hafa orðið til.

Þegar ég var í sveitarstjórnarráðuneytinu skilaði Byggðastofnun skýrslu um áhrif fiskeldis eða laxeldis í sjó. Hún gerði ráð fyrir 23 störfum, beinum og afleiddum, á hver þúsund tonn. Og ef tekin eru áhrifin af því sem er í framleiðslu í dag stendur það nokkurn veginn. Það er gaman að fylgjast með því þegar maður kemur þangað og sér að fyrirtæki sem var með einn flutningabíl, ferðaðist þarna á milli og sinnti byggðinni, er nú komið með sex stóra trailer-bíla og 14–15 manns í vinnu. Sá sem hafði það að aukavinnu að kafa og botnskoða og skera úr fyrir sjávarútveginn, bátana okkar, er kominn með 15 manna fyrirtæki og báta í kringum köfunina í kringum þetta. Rafvirkinn, sem var einn á svæðinu, er kominn með fimm, sex manns í vinnu. Svo má lengi telja. Farið er að byggja fyrstu íbúðarhúsin og auka kröfurnar á okkur um að við komum samgöngunum í samt lag. Við erum að reyna að efla þær og svara því kalli. Svo eru þessi verðmæti flutt á hverjum degi austur til Seyðisfjarðar, Þorlákshafnar, Keflavíkur og Reykjavíkur. Það ánægjulega sem hefur gerst í því er að nú eru hafnar strandsiglingar þarna vestur, af því að nú eru komnar viðskiptalegar forsendur fyrir því að sigla og sækja þessi verðmæti og flytja þau sjóleiðina þannig að þau þurfi ekki að fara í bílum.

Fólk á norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum bíður eftir þessari löggjöf, bíður eftir því að hleypt verði af stað skynsamlegri, hægfara uppbyggingu á þeim svæðum líka. Væntingarnar eru búnar að vera lengi. Við þurfum að svara því kalli um leið og við reynum að rata með varfærnum hætti þann veg sem fram undan er í þessu, en við gerum það samt þannig að fyrirsjáanleikinn sé til staðar þannig að bæði íbúar á þessum svæðum og auðvitað við í þjóðarbúinu sem veltum þeim hlutum fyrir okkur, fyrirtækin sem eru að byggja upp þessa mikilvægu starfsemi, hafi einhvern fyrirsjáanleika. Það ástand sem verið hefur viðvarandi á undanförnum árum er með öllu óþolandi og er hreinlega farið að vinna gegn okkur í þessum málum og fæla mögulega fjárfesta frá. Við höfum ekki efni á því sem þjóð.