149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann á þann veg að hann telji að leggja þurfi meira í rannsóknir en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef ég hef ekki skilið hann rétt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það eftirlit sem talað er um í frumvarpinu sé nógu skýrt afmarkað og hvort það sé nægilegt til að grípa inn í áður en skaði verður sem ekki er hægt að taka til baka eða hefur keðjuverkandi áhrif á aðra þætti.

Hv. þingmaður talaði um mikinn ávinning fyrir byggðirnar í því að það kæmu verðmæt störf og því um líkt. Nú hafa leyfin verði nánast ókeypis á Íslandi. Eitthvað er verið að tala um að taka svo og svo mikið gjald fyrir og mér skilst að frumvarp um það sé í samráðsgáttinni núna. Væri ekki heppilegra og meiri ávinningur fyrir samfélagið ef við myndum bjóða leyfin út og horfa til Noregs hvað það varðar og ávinnings fyrir ríkissjóð? Hv. þingmaður talaði um að kallað væri eftir meiri velferðarþjónustu o.s.frv. í tengslum við kjarasamninga. Ættum við ekki að fara þá leið sem gefið hefur mest í ríkissjóði í nágrannalöndunum?