149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[15:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Já, ég held að frumvarpið sé löngu tímabært, þ.e. að fá einhverjar heimildir til að stýra veiðum á þessari tegund eða friðun og að meta ástæðuna til að fara með nýtingu hennar eða verndun. Mér er fullkunnugt um að það eru til lög um villta stofna og spendýr og ég er þeirrar skoðunar og hef tjáð umhverfisráðherra það, við höfum lítillega rætt þetta, að við ættum að skoða möguleikann á því að ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og umhverfisráðuneytið ræddust við um þessi mál. Það er bara hið besta mál.

Ekki var haft neitt sérstakt samráð við Náttúrufræðistofnun. Hún hefur hins vegar metið stöðu stofnsins, raunar með sama hætti og Hafrannsóknastofnun hefur gert. Ástæðan fyrir þessari afstöðu minni og flutningi á þessu máli er einfaldlega sú að innan Hafrannsóknastofnunar er öll þekkingin á því mati sem snýr að selastofninum. Umsýslan með málaflokknum er í ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og þekking undirstofnunarinnar, Hafrannsóknastofnunar, á þessu er fyrir hendi. Það eru ekki í bígerð neinar breytingar í þeim efnum og hafa ekki verið ræddar. Það er skýringin á því með hvaða hætti málið er flutt og að selir séu undir þessum lagabálki. Það má til sanns vegar færa að þeir ættu kannski heima í einhverjum öðrum bálki en lögum um lax- og silungsveiði, þó svo að selurinn hafi löngum þótt mikill skaðvaldur þeirra tveggja stofna.