149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[15:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er lagt fram, um að takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði, á allan stuðning skilinn og ætla ég svo sem ekki að fjölyrða mikið um það. Menn hafa nokkuð lengi haft áhyggjur af stofnstærðum þeirra tveggja selategunda sem hér eru, landselsins og útselsins. Stofnstærðin hefur sveiflast til, hún hefur minnkað miðað við það sem var hér á jafnvel kaldari tíma en nú er og hafa menn sett fingur á hverjar orsakirnar eru. Það eru loftslagsbreytingar og þar með breytingar í sjó, bæði á fæðu, hitastigi og öðru. Það eru þessar hjáveiðar, sem oft eru nefndar, sem er mjög lítið vitað um í raun, og svo aðrar veiðar, kannski tilraunir til að fæla seli úr ósum laxveiðiáa og/eða til að veiða þá og annað slíkt. En aðalmálið er að nú er tekið á þessu með heimild ráðherra til að takmarka veiðar eða með öðrum hætti koma í veg fyrir ónauðsynlegt seladráp.

Ég ætla ekki að fjölyrða um það heldur aðeins prjóna við það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnlaugsson ræddi um, og sem ég og margir aðrir hafa talað um, nauðsyn heildrænnar lagasetningar um villt dýr í náttúru Íslands, að það sé á einni hendi, þ.e. í einu ráðuneyti, þessi dýr önnur en fiskarnir í sjónum. Ég horfi þá til sambúðar manna og dýra í íslenskri sögu sem ég tel mjög köflótta. Þetta snýst mikið um þau dýr sem menn telja vera í samkeppni við sig vegna afráns, þ.e. örninn, refurinn, selirnir, hrafninn, hvalir og fleiri dýr, bæði fuglar og önnur dýr sem mætti nefna. Sagan hræðir, og nú er ég ekki að segja að menn séu nokkru sinni að stefna í það aftur, en við þekkjum sögu arnarins hér og refsins, þ.e. stanslausar ofsóknir á hendur þessum dýrum um langt skeið með alls konar aðferðum. Ég get nefnt þær og menn kannast eflaust við það, að bera t.d. út eitruð hræ eða nota bensín við refaveiðar. Ég gæti nefnt aðrar aðferðir sem ég kæri mig eiginlega ekki um að nefna.

Selveiðar voru stundaðar hér með einhverjum nytjum, en þær hafa horfið. Áfram er töluvert veitt af sel. Og hrafninn er kominn á válista. Hvers vegna skyldi það vera? Síðan erum við með 15 hvalategundir í sjó við Ísland sem eru umdeildar og auðvitað einnig veiðarnar á þeim. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma, heldur minnast á það sem er í raun og veru bakgrunnurinn að þessari stirðu sambúð. Til er hugmynd um að hægt sé að stjórna stærð þessara stofna með einhverjum árangri, eins og það sé eingöngu komið undir manninum hversu stórir þessir stofnar eru. Það hefur leitt til þess að menn hafa talað um að nú þurfi að takmarka þennan eða hinn hvalastofninn eða refi eða annað slíkt með því að veiða dýrin og átta sig ekki á því í hvaða mæli það er. Eiginlega er besta dæmið um það stýringin á hreindýrastofninum, sem er eðlileg að mörgu leyti vegna þess að þau eru fyrir það fyrsta matardýr og í öðru lagi eru beitarskilyrði á Íslandi þannig að ekki er hægt að vera með heilbrigðan hreindýrastofn nema þar sem hann er núna og kannski einnig á Vestfjörðum. Þar með eru leyfðar stórfelldar veiðar á þessum stofni, 4.000–5.000 dýr og yfir 1.000 sem tekin eru á hverju ári. Ef menn ætluðu að fara að stýra stofnstærðum þessara afránsdýra gætu þeir þá ímyndað sér í hvað við værum þá komin, ég tala nú ekki um hvalina, sem eru til í stofnstærðum sem telja tugþúsundir dýra. Ef menn sæju hér fyrir sér veiðar og stórfelld dráp, sem ég held ekki að nokkur heilvita maður eða hugsandi maður hefði í raun og veru áhuga á.

Það sem liggur fyrir mér er hugmyndin um að hvetja til einnar löggjafar um villt dýr á landi og sjó á Íslandi. Það er þá almenn friðun á þessa fugla og ferfætlinga og aðra og í sjó sömuleiðis og veiðar og/eða nytjar verða þá leyfðar með reglugerð. Hún byggir þá í öllum tilvikum á sérfræðiráðgjöf.

Það er þannig í náttúrunni að rándýr, ef við getum kallað þau það, eða ránfuglar, leita jafnvægis. Það geta allir munað eftir þessum orðum sem oft eru viðhöfð þegar menn eru að hneykslast á óheftum vexti einhverra svona stofna. Þegar maðurinn kom hingað í öndverðu var hér mjög heilbrigð fána. Hér voru refir og ernir og hvalir og allt í bland við allt hitt. Við sjáum þá hvernig hin raunverulega mynd er þegar maðurinn kemur svo inn og fer að koma sér fyrir. Hann verður að læra á að lifa í sátt við þessi dýr og hjálpa þessum stofnum að leita jafnvægis eftir sem áður. Allir stofnar eiga að vera sjálfbærir. Ef þeir eru í hættu þurfum við að gæta þess að koma þeim til aðstoðar. Ábyrgð okkar er mjög mikil vegna þess að sjaldgæfar hvalategundir eru til á Íslandsmiðum. Hér eru fuglar sem eru annaðhvort í útrýmingarhættu eða á válista. Hér eru landspendýr sem eru mjög sérstæð. Þá á ég við heimskautarefinn sem er t.d. útdauður í nágrannalöndum eins og Noregi. Þar er verið að reyna að koma stofninum aftur upp. Við berum ábyrgð á heimsvísu á því að þessir stofnar séu nokkurn veginn í lagi, rétt eins og við berum ábyrgð á því þegar hvítabirnir koma hingað í heimsókn og við þurfum að bregðast rétt við.

Við munum, ef svona löggjöf verður til, geta stundað náttúrunytjar, við munum halda þeim rétti okkar, stunda heilbrigðar veiðar og hjálpa stofnunum til að vera nokkurn í veginn í jafnvægi. Þá á ég við ýmiss konar fugla til matar, ég á jafnvel við hvali, eins og hrefnu, til innanlandsneyslu og ég á við hreindýrin og hugsanlega við eitt aðskotadýr sem hér er, sem heitir minkur. Það þarf hugsanlega að bregðast við með ýmsum hætti þó að það sé að mínu mati vonlaust héðan af að reyna að útrýma þeirri dýrategund á Íslandi.

Þessi stutta ræða er rétt til þess að vekja athygli á því að hér skortir á heildræna lagasetningu um villt dýr í náttúru Íslands. Tegundirnar eru tiltölulega fáar en geta verið með ansi mörgum einstaklingum. Við berum ábyrgð á því gagnvart umheiminum að meðferð og vegferð þessara dýra sé í lagi.