149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

búvörulög.

646. mál
[15:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1092, mál nr. 646. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verðjöfnunargjöld). Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Megintilgangur þess er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt sem skrifað var undir þann 11. janúar 2019. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 19. febrúar 2016 og var undirritað með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðslu um málið lauk þann 4. mars sl. meðal sauðfjárbænda og var samkomulagið samþykkt með 68% greiddra atkvæða. Markmið þess er m.a. að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, að auka frelsi sauðfjárbænda og að auðveldara verði að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar. Áhersla er lögð á að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum eða nýrri starfsemi með sérstökum aðlögunarsamningum. Eru þessar breytingar, sem leiða af fyrrgreindu samkomulagi, í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem kveður á um að brugðist verði við vanda sauðfjárbænda til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að gengið verði til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar og með þeim breytingum sem lagðar eru til með þessu frumvarpi er enn fremur leitast við að bæta starfsskilyrði greinarinnar og auka jafnvægi á markaði og þar með koma í veg fyrir lækkun afurðaverðs.

Þær breytingar sem lagðar eru til vegna þessa samkomulags eru í 2., 3., 4., og 7. gr. frumvarpsins. Lagðar eru til breytingar á 38. gr. búvörulaga sem kveður á um markað með greiðslumark og er meginefni þeirra breytinga að viðskipti með greiðslumark fari eingöngu fram í gegnum sérstakan markað og að ríkið innleysi það greiðslumark sem selst ekki á slíkum markaði og falli það í kjölfarið niður. Einnig eru lagðar til breytingar á 39. gr. laganna þar sem kveðið er á um ásetningshlutfall vegna beingreiðslna þess efnis að ráðherra kveði á um ásetningshlutfall í reglugerð en hlutfallið geti þó aldrei verið minna en 0,5. Þá er lagt til að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar verði greiddar fyrir framleitt kindakjöt sem ætlað er til innanlandsmarkaðar og að miðað verði við svokallaða innanlandsvog sem skilgreinir áætlaða þörf og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti. Að lokum er lagt til að sett verði nýtt bráðabirgðaákvæði. Ákvæðið snýr að aðlögunarsamningum sem gefa bændum sem það vilja kost á því að hætta eða draga úr sauðfjárbúskap og reyna fyrir sér í nýrri starfsemi en halda greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í þrjú til fjögur ár. Aðlögunarsamningar eru því liður í því að koma á betra markaðsjafnvægi

Einnig er með 1. gr. frumvarpsins bætt við skýringum á hugtökum sem koma fram í búvörusamningum en eru ekki skilgreind í lögunum og í 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við orðalag samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016.

Virðulegi forseti. Að lokum er lagt til að felld verði brott heimild til verðjöfnunar samkvæmt 85. gr. A búvörulaga til samræmis við ákvörðun ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í desember 2015 um að afnema útflutningsbætur. Útflutningsbætur hafa ekki verið veittar á Íslandi síðan um og eftir árið 1990 og hefur ákvörðunin því takmörkuð áhrif hér á landi, en í kjölfar ráðherrafundarins hefur það verið haft til skoðunar hvort verðjöfnunargjöld þau sem kveðið er á um í núgildandi 85. gr. A teljist til útflutningsbóta. Í Noregi hafa verðjöfnunargjöld verið flokkuð með útflutningsbótum að einhverju leyti og hafa norsk stjórnvöld tilkynnt að þau verði afnumin fyrir árið 2020.

Samkvæmt gildandi lögum er ráðherra heimilt að greiða verðjöfnun við útflutning vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Verðjöfnunin er mismunur á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar. Greiðslur miðast við heimildir fjárlaga hverju sinni en á árinu 2019 nema framlög til verðjöfnunar 2,5 milljónum og því ljóst að um óverulega upphæð er að ræða. Verðjöfnun hefur þannig einna helst verið nýtt við útflutning á sælgæti sem inniheldur t.d. mjólkurduft, en einungis tvö til þrjú fyrirtæki hafa nýtt sér þá heimild undanfarin ár. Þar sem óverulegir fjármunir eru til verðjöfnunar, sem og gerðar hafa verið ráðstafanir til að lækka mjólkurduft til matvælaframleiðslu hér á landi, er það metið svo að óþarft sé mæla fyrir um verðjöfnunargjöld í ákvæðum búvörulaga. Endurgreiðsla þessi krefst mikillar vinnu tollyfirvalda, ráðuneytis og ekki síður umsóknaraðila til að uppfylla skilyrði til endurgreiðslu fyrir lága upphæð sem ætluð er til þess á fjárlögum.

Líkt og hefur verið rakið er meginmarkmið frumvarpsins fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem skrifað var undir 11. janúar sl. og samþykkt í atkvæðagreiðslu sauðfjárbænda þann 4. mars eins og ég gat um áðan. Tilætluð áhrif þeirra breytinga á starfsumhverfi sauðfjárbænda sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þannig að stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum. Í samkomulaginu er kveðið á um breytingar sem krefjast breytinga á gildandi búvörulögum og af því leiðir að því verður ekki breytt nema með setningu laga.

Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins hljóta þannig að teljast sérstaklega sauðfjárbændum til hagsbóta og neytendum þar sem breytingarnar stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.