149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

búvörulög.

646. mál
[15:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það er rétt að þetta byggir á samkomulagi sem á rætur í vinnu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga eins og beðið var um í samningunum í upphafi. Þetta er fyrsti samningurinn sem gerður er, vinnu varðandi nautgripahlutann er lokið í samráðshópnum en við erum ekki farin að ræðast við um útfærslu þeirrar breytingar og verið er að hefja undirbúning að viðræðum um garðyrkjuna og rammasamningsgerð. Ég vænti þess að þeir hlutar samninganna gangi hraðar fyrir sig en sauðfjársamningurinn því að þar eru erfiðleikarnir mestir.

Þeirri spurningu sem hv. þingmaður kemur með hér, virðulegur forseti, á frekar að beina til afurðastöðvanna sjálfra. Þetta eru fyrirtæki sem eru frjáls á sínum markaði og ríkisvaldið hefur í raun ekkert umboð til að segja fyrir um eða gefa fyrirmæli um hvernig þau haga starfi sínu. Ég veit hins vegar af því að afurðastöðvarnar hafa verið — ég hef rætt við þær um að þær sæki heimildir samkvæmt gildandi lögum, sem segja má að séu að einhverju leyti ófullkomin en þar til þeim er breytt eru þau hinn lagalegi farvegur sem þarf að fara eftir — að undirbúa það að sækja á um að fá að starfa saman með öðrum hætti en gert er í dag. Ég veit til þess að þær hafa í það minnsta skrifað Samkeppniseftirlitinu erindi þess efnis. Ég hef að öðru leyti ekki upplýsingar um það hvernig það mál stendur.