149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

siglingavernd.

642. mál
[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004. Frumvarpið inniheldur tillögur að breytingum á lögum um siglingavernd sem ætlað er að efla varnaðaráhrif og skilvirkni ákvæða laganna með því annars vegar að mæla fyrir um heimild Samgöngustofu til að beita eftirlitsskylda aðila dagsektum uppfylli þeir ekki skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laganna og hins vegar að mæla fyrir um refsingu við brotum á banni við að fara í heimildarleysi inn á haftasvæði siglingaverndar.

Með breytingunum sem gerðar voru á lögum um siglingavernd í júní á síðasta ári var lögfest sú regla að einstaklingi væri óheimilt að fara inn á haftasvæði siglingaverndar án þess að hafa til þess viðeigandi heimildir. Meginmarkmiðið var að draga úr tilraunum til innbrota á haftasvæði siglingaverndar og í skip. Hins vegar gerði umhverfis- og samgöngunefnd athugasemdir við þann refsiramma sem lagður var til vegna slíkra brota í því frumvarpi sem varð að lögum. Ráðuneytið hefur nú, að höfðu samráði við Útlendingastofnun, ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra, endurskoðað tillögu sína að refsiramma vegna aðgangsbrota inn á haftasvæði siglingaverndar og er hér því einungis lagt til að refsiramminn sé í samræmi við þann refsiramma sem nú þegar er kveðið á um vegna annarra brota á ákvæðum laganna.

Það liggur ljóst fyrir að í því felst ógn við öryggi, sérstaklega hvað varðar siglingavernd, þegar óviðkomandi aðilar komast inn á haftasvæði. Það er því afar brýnt að tekið sé á slíkum brotum með skýrum hætti í löggjöf okkar og skýrt sé kveðið á um refsinæmi þeirra. Ljóst er að sé um enn alvarlegri brot að ræða kemur jafnframt til beitingar almennra hegningarlaga og getur því verið um þyngri refsingu að ræða á grundvelli þeirra laga. Þetta kemur ágætlega fram, virðulegur forseti, í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að efla úrræði Samgöngustofu til að knýja á um að farið sé að lögum um siglingavernd og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra. Af þessu tilefni er í frumvarpi þessu lagt til að stofnuninni séu færðar heimildir til að grípa til dagsekta gagnvart eftirlitsskyldum aðilum. Dagsektir eru markviss leið til að knýja á um fylgni við lögin og gera stofnuninni þannig betur kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu. Tillagan kemur til ekki síst vegna athugasemda sem gerðar hafa verið af ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, varðandi úrræðaleysi stofnunarinnar samkvæmt lögunum gagnvart eftirlitsskyldum aðilum.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að að þessari umræðu lokinni verði meðferð þess og umfjöllun vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðan til 2. umr.