149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

úrskurðarnefndir á sviði neytendamála.

649. mál
[16:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um úrskurðarnefndir á sviði neytendamála. Með frumvarpinu eru lögð fram heildarlög um lausn deilumála neytenda utan dómstóla. Markmið frumvarpsins er að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð utan dómstóla til að leysa ágreining við seljendur. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/11 frá 21. maí 2013, um lausn deilumála neytenda utan dómstóla, og reglugerð nr. 524/2013, um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð, auk framkvæmdarreglugerðar hennar.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um gæða- og viðurkenningarkerfi fyrir úrskurðaraðila utan dómstóla. Lagt er til að úrskurðaraðilar geti sótt um og fengið viðurkenningu ráðherra uppfylli þeir gæðakröfur um skipulag og málsmeðferð. Heyri deilumál ekki undir úrskurðaraðila sem hlotið hefur viðurkenningu geta neytendur óskað eftir úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa í málinu, sem þegar er til. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að einkaréttarlegur ágreiningur eigi sér alltaf samastað hjá úrskurðaraðila utan dómstóla.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að komið verði á fót rafrænum vettvangi fyrir úrlausn deilumála utan dómstóla yfir landamæri. Neytendur á Evrópska efnahagssvæðinu eiga að geta notað rafræna vettvanginn til þess að hefja málsmeðferð hjá úrskurðaraðila utan dómstóla vegna viðskipta sem þeir hafa átt í öðru ríki.

Í frumvarpinu er auk þess kveðið á um lágmarkskröfur til málsmeðferðar viðurkenndra úrskurðaraðila og upplýsingagjöf seljenda til neytenda um hvert er hægt að leita ef ágreiningur rís. Lagt til að Neytendastofa hýsi starfsemi kærunefndarinnar og hafi eftirlit með upplýsingagjöf til neytenda. Þá er lagt til að Evrópska neytendaaðstoðin á Íslandi sjái um að starfrækja rafræna vettvanginn.

Eitt af markmiðum frumvarpsins er að tryggja skilvirkari neytendavernd með bættri fylgni við úrlausnir úrskurðaraðila. Í dag er algengt að fyrirtæki fari ekki að álitum kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa þrátt fyrir að niðurstaðan sé neytanda hagfelld. Í frumvarpinu er lagt til að úrskurðir nefndarinnar verði aðfararhæfir nema að seljendur lýsi því yfir innan 30 daga að þeir uni ekki úrskurðinum. Frumvarpið leggur til grundvallar að varðveita og styrkja kerfi frjálsra úrskurðarnefnda sem orðið hefur til á Íslandi á síðustu áratugum. Lagt er til grundvallar að stjórnvöld eigi í lengstu lög að standa utan við deilur sem aðilar geta leyst sín á milli og að deilumál verði best leyst þar sem sérþekking er fyrir hendi.

Með frumvarpinu er neytendavernd á Íslandi styrkt. Það er mikilvægur þáttur neytendaverndar að neytendur hafi aðgang að einföldum, skilvirkum og ódýrum leiðum á öllum sviðum viðskipta til að leysa deilumál við fyrirtækin.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.