149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:07]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Þetta er rammalöggjöf fyrir fiskeldi á Íslandi sem lengi hefur verið kallað eftir, bæði af þeim sem stunda fiskeldi og sömuleiðis þeim sem vilja sjá stífari umgjörð í kringum fiskeldisgeirann, einkum þegar kemur að umhverfismálum og gjaldtöku.

Við erum að ræða breytingar á löggjöf atvinnugreinar sem líklegt er að verði áberandi atvinnugrein á Íslandi. Við erum líka að ræða löggjöf atvinnugreinar sem vitað er að hefur í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, rétt eins og í allri annarri matvælaframleiðslu. Það er staðreynd sem engin ástæða er til að draga fjöður yfir.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði til breytingar á sömu löggjöf síðasta vor en þá gafst því miður ekki tími til að klára málið þar sem það kom seint fram. Þá var kallað eftir nokkrum breytingum frá tillögum hæstv. ráðherra, breytingum sem ég var að vona að við myndum sjá í þessari löggjöf.

Ég verð að viðurkenna að miðað við hversu litlar breytingar hafa orðið frá því síðasta vor átta ég mig ekki alveg á ástæðu þess að framlagning þessa máls hefur dregist jafn mikið og raun ber vitni en upprunalega var gert ráð fyrir að þetta mál kæmi til umræðu í þinginu fyrir jól.

Herra forseti. Ég fagna því þó að við erum að ræða þessa mikilvægu löggjöf. En ég sakna þess að sjá ekki samhliða stefnu og framtíðarsýn stjórnvalda birtast í frumvarpinu. Hvernig viljum við að þróun fiskeldis verði á Íslandi, samanber áætlanir Norðmanna um að fimmfalda eldi sitt á næstu áratugum?

Við erum vissulega búin að ramma greinina inn að því leyti til að lokað hefur verið fyrir fiskeldi annars staðar en á Austfjörðum, Vestfjörðum og í Eyjafirði. En hvernig sjáum við þróun fiskeldis á Íslandi til framtíðar? Hversu mikið magn viljum við sjá ræktað? Hvað er ásættanlegt varðandi umhverfisáhrif og hvaða leiðir við viljum fara til að takmarka þau?

Okkur ber að umgangast þessa dýrmætu auðlind okkar af virðingu. Þar held ég að fari saman hagsmunir allra. Í mínum huga þýðir það ekki að engin nýting megi eiga sér stað heldur þurfum við að horfa til sjálfbærni, eins og svo oft áður. Ég hef áður í ræðustól notað líkinguna við þriggja fóta stólinn í tengslum við sjálfbærni en okkur ber að horfa til allra þátta, þ.e. umhverfislegra, samfélagslegra og efnahagslegra, í þessari umfjöllun eins og annarri. Ef hallar á einn fótinn, einn þáttinn, falla hinir nefnilega.

Sjókvíaeldi hefur verið mjög umdeilt í umræðunni á Íslandi. Það sama má segja um önnur lönd þar sem fiskeldi hefur byggst upp, eins og til að mynda í nágrannalöndum okkar, Noregi, Bretlandi og Færeyjum. Nágrannaþjóðir okkar hafa farið þá leið að gera strangar kröfur til fiskeldis hvað varðar umhverfismál og ekki síst eftirlit. Sömuleiðis eru til að mynda í Noregi nokkuð skýrir hvatar til nýsköpunar, rannsókna og mótvægisaðgerða.

Á ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum í Bergen í síðustu viku má segja að stóra umfjöllunarefnið hafi verið sjálfbærni og áhrif loftslagsbreytinga og auðvitað tækniþróun í geiranum. Í setningarræðu sinni kom Erna Solberg, forsætisráðherra Norðmanna, inn á mikilvægi sjávar og það stóra hlutverk sem sjórinn spilar í raun í lífi okkar allra. Lífið á landi kom á sínum tíma frá sjónum. Það má sannarlega segja að sjórinn hafi spilað stórt hlutverk í að gera okkur Íslendingum kleift að búa á þessu kalda landi norður í ballarhafi, í raun haldið í okkur lífi í öllum skilningi. Afurðir sjávar hafa gefið okkur svo margt, þar á meðal mat, peninga, jafnvel lækningavörur og vítamín.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum heimsótti atvinnuveganefnd þingsins Noreg í síðustu viku. Ferðin var um margt gagnleg og hittum við þar m.a. fiskeldisfólk. Við hittum fulltrúa norsku hafrannsóknastofnunarinnar, norsku fiskistofunnar, norska vísindamenn sem vinna að rannsóknum á fiskeldi og áhrifum þess, bæði umhverfislegum og samfélagslegum, sem og fulltrúa þriggja umhverfisverndarsamtaka sem hafa gagnrýnt fiskeldi í Noregi af ýmsum ástæðum.

Þá sóttum við, eins og ég nefndi áðan, ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum en þar koma aðilar í sjávarútvegi víðs vegar að og ræða það sem er efst á baugi hverju sinni. Það sem er svolítið skemmtilegt við þá ráðstefnu er að þetta er ekki sölusýning heldur ráðstefna þar sem fræðimenn og þeir sem starfa í geiranum fjalla um geirann.

Þar var m.a. rætt um fiskeldi, stöðu greinarinnar og þróun hennar. Ljóst er að sett er gríðarmikið púður og fjármagn í rannsóknir og þróun, þá sérstaklega til að finna lausnir á þeim vandamálum sem hvað helstar áhyggjur eru af, hér eins og annars staðar, þ.e. meðhöndlun laxalúsar og slysasleppingar.

Horft er til ýmissa lausna, til að mynda lúsalausna án lyfjagjafar, sem er reyndar nánast horfin í Noregi, til lokaðra kvía og sömuleiðis þess að setja seiðin stærri út í sjókvíarnar til að minnka líkur á bæði lús og sleppingum, eitthvað sem ég tel að við ættum að horfa til í löggjöf okkar.

Mikilvægt er að Íslendingar fylgist vel með þeirri þróun og tileinki sér bestu mögulegu lausnir hverju sinni, auk þess að setja aukinn kraft í eigin rannsóknir, því að við höfum sannarlega sýnt í nýsköpun í sjávarútvegi og öðrum geirum að við höfum svo margt fram að færa.

Ekki má gleyma því að þarna fara saman hagsmunir framleiðenda og hagsmunir umhverfisins en það hlýtur að vera markmið framleiðandans að forðast sjúkdóma og sníkjudýr sem og að tapa ekki verðmætum.

Þó að enn sé verið að þróa þær lausnir sem ég nefndi hér á undan lofa þær margar góðu. Við þurfum því að skoða vel hvort ástæða sé til að setja inn í löggjöfina frekari hvata til að nýta slíka tækni þegar hún verður raunhæf, auk þess sem mögulega mætti horfa til þess að þau svæði sem eftir er að burðarþolsmeta verði að einhverju leyti eyrnamerkt slíkri tækni.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Samhliða vexti greinarinnar þurfi að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið.“

Minna má á það sem kom fram í umræðum í þinginu í haust, að bæði Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun telja sér verulega þröngt sniðinn stakk þegar kemur að einmitt þeim þáttum, þ.e. rannsóknum og umsjón og eftirliti með fiskeldi, og hefði því verið gott að sjá meiri meðgjöf til þeirra stofnana en hér er gert ráð fyrir.

Þá hafa fiskeldisfyrirtækin sömuleiðis kallað eftir skilvirkara eftirliti og þess vegna er mikilvægt að eftirlitsaðilarnir séu staðsettir þar sem fiskeldið er í stað þess, eins og dæmi eru um, að það taki fulltrúa eftirlitsaðila rúma viku að koma sér á staðinn þegar eitthvað kemur upp á.

Samkvæmt greinargerð frumvarpsins er áætlaður kostnaður vegna áhrifa þess á störf ráðuneytisins og stofnana þess 85 millj. kr. árið 2020, þar af um 23 millj. kr. í stofnstærð. Árlegur kostnaður verði 62 millj. kr. frá og með árinu 2021. Árleg útgjaldaaukning að meðtalinni 90 millj. kr. aukningu á fjárþörf Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er því talin verða 152 millj. kr. frá og með árinu 2021. Í því samhengi má ekki gleyma að öðrum stofnunum eins og Umhverfisstofnun og Fiskistofu er einnig ætlað nokkuð stórt hlutverk samkvæmt löggjöfinni en ekki virðist vera gert ráð fyrir aukningu til þeirra í frumvarpinu. Þá má nefna hvort ekki væri tækifæri til að tryggja að framlög til Hafrannsóknastofnunar kæmu frekar í gegnum fjárlög en í gegnum Umhverfissjóð sjókvíaeldis og nýta þann sjóð fremur til að ýta undir nýsköpun og aðrar rannsóknir á fiskeldi á Íslandi.

Herra forseti. Norðmenn hafa búið til umfangsmikið kerfi til að halda utan um fiskeldið og áhrifin af því. Má þar sérstaklega nefna svokallað umferðarljósakerfi og gott aðgengi almennings að ýmsum skýrslum og upplýsingum. Þannig er hægt að fara inn á heimasíðu norsku fiskistofunnar og sjá þar allar upplýsingar um hverja einustu kví sem er í sjó í Noregi, t.d. hversu margir fiskar eru í kvínni, hvaða meðhöndlun fiskarnir hafa fengið, hvað þeir heita, hvort lús hafi komið upp o.s.frv. Gert er ráð fyrir því í þeirri löggjöf sem við fjöllum um að heimild verði til að birta þær upplýsingar.

Ég held að það liggi í augum uppi að mikilvægt sé að koma á sambærilegu upplýsingakerfi hér þannig að allar upplýsingar séu aðgengilegar á rauntíma, enda hefur reynslan af því í Noregi verið mjög góð.

Til gamans og til upplýsingar fyrir hv. þingheim má nefna að hafrannsóknastofnun Noregs er ein stærsta hafrannsóknastofnun í Evrópu með um 1.000 starfsmenn og 1,5 milljarða norskra króna í framlög á ári. Stofnunin vinnur rannsóknir og veitir ráðgjöf og gefur út árlegt áhættumat fyrir norskt fiskeldi til ráðherra, ráðuneytis og fiskistofu Noregs en tekur engar ákvarðanir sjálf, enda eðlilegt að ákvörðun — og það var hennar svar — um fiskeldi sé að lokum pólitísk þótt hún byggi auðvitað á vísindalegum gögnum eins og í annarri fiskveiðistjórn.

Hvað varðar áhættumatið hafa komið fram margar spurningar sem þarf að svara, svo sem um aðkomu ráðherra, en einnig hefur verið spurt hvort ekki væri eðlilegra að vinna að því að engin blöndun verði með því að taka upp ýmsar mótvægisaðgerðir til að minnka líkurnar á að það gerist. Í frumvarpinu virðist reyndar vera gert ráð fyrir því í skilgreiningu þess á áhættumati og hlýtur að mega túlka það sem svo að Hafrannsóknastofnun muni taka mögulegar mótvægisaðgerðir með inn í útreikninginn á áhættumatinu, eins og svo margir hafa kallað eftir. Ekki er skilgreint nákvæmlega hverjar slíkar mótvægisaðgerðir gætu verið en ráðherra er falið að fjalla nánar um slíkar aðgerðir í reglugerð. Þó kemur fram í greinargerð að gert sé ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun muni í niðurstöðum áhættumatsins leggja til tilteknar mótvægisaðgerðir sem hafi það að markmiði að hamla mögulegri erfðablöndun og í áhættumatinu skulu því koma fram nokkrar útgáfur af framleiðsluheimildum, allt eftir því til hvaða mótvægisaðgerða er gripið.

Herra forseti. Ábyrgð þingsins, löggjafans, hvað þetta mál varðar er mikil. Það er hlutverk þingsins að koma fram með stefnumótun, koma fram með lagasetningu þar sem settar eru skýrar leikreglur. Að mínu mati er mikilvægt að setja kröfur um umhverfis- og mengunaraðbúnað greinarinnar og hefur greinin sjálf kallað eftir slíku.

Sömuleiðis er farið að liggja nokkuð á að þingið ræði gjaldtöku fyrir nýtingu á auðlindum þjóðarinnar, enda ekki eðlilegt að þær séu gefnar. Ég sakna þess að við ræðum ekki samhliða frumvarp um gjaldtöku af fiskeldi. Einnig hljótum við að ræða hvort eðlilegt sé að ekki verði um gjaldtöku að ræða í þeim tilfellum þar sem burðarþolsmat hefur þegar farið fram en fiskeldi er ekki hafið, enda snýst það um nokkuð stóran hluta þess svæðis þar sem fiskeldi er mögulegt sem og þar sem eldi er þegar farið af stað. Við þurfum að skoða það sérstaklega. Eðlilegt hlýtur að vera að fiskeldisgreinin taki þátt í að greiða þann kostnað sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar.

Þá verð ég sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að nefna að ég saknaði þess að ekki væri gert ráð fyrir að sveitarfélögin fengju hlutdeild í þeirri gjaldtöku líkt og er í Noregi. Það er nokkuð sem við hljótum að þurfa að skoða líka. Sveitarfélögin þurfa að standa undir umtalsverðum kostnaði vegna t.d. uppbyggingar á hafnaraðstöðu og öðrum innviðum í tengslum við uppbyggingu greinarinnar og er því eðlilegt að komið sé til móts við þau.

Við þurfum að styðja betur við þróun, rannsóknir og nýsköpun aðferða í fiskeldi til að íslenskt fiskeldi geti vaxið og þróast eins og aðrar atvinnugreinar í landinu. Við berum hins vegar líka mikla ábyrgð gagnvart náttúru Íslands og okkur ber skylda til að stuðla að því að draga sem mest úr umhverfisáhrifum laxeldis á hvern þann hátt sem við getum. Við höfum tækifæri til að læra af nágrönnum okkar sem þegar hafa rekið sig á fjölmargt. Til að mynda er mikilvægt að við tryggjum að ef illa fer beri eldisfyrirtæki skylda til að fjarlægja öll þau mannvirki sem fiskeldinu fylgja sem og að hreinsa sjávarbotn ef þörf er á. Það mætti gera til að mynda með sama hætti og er gert í Noregi.

Herra forseti. Að því sögðu vil ég hvetja til þess að við leggjum kapp á að reyna að ná umræðunni um fiskeldið upp úr skotgröfunum og séum ekki endalaust að stilla þessu upp sem andstæðum. Lífið er ekki svart/hvítt á þann hátt að umhverfissinnar séu sjálfkrafa á móti fiskeldi eða þeir sem vilja fiskeldi sjálfkrafa umhverfissóðar. Sömuleiðis er mikilvægt að við festumst ekki í þeirri umræðu að þetta sé höfuðborg á móti landsbyggð eða landsbyggð á móti höfuðborg. Þetta er einfaldlega ekki svona einfalt.

Málið mun fara til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og er ljóst að mikil vinna bíður nefndarinnar og ýmis atriði sem þarf að skoða mun betur áður en hægt er að fara í 2. umr. Í öllu falli sé ég ekki fyrir mér að við getum sætt okkur við að þetta mál fari í gegn að óbreyttu.