149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um laxeldi. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir ágæta ræðu og góða yfirferð yfir ferð okkar til Noregs í síðustu viku. Eins og þar kom fram, og er óþarfi að endurtaka hér, var ferðin atvinnuveganefnd til mikils fróðleiks. Ég þakka forsætisnefnd þingsins fyrir að gera það mögulegt að fara til Noregs, sem hefur staðið til nokkuð lengi, til að kynna okkur þessi mál. Þar er náttúrlega 50 ára reynsla komin á laxeldi í sjó og það er óðs manns æði að halda áfram hér á landi án þess að kynna sér það sem þar er gert og hvernig til hefur tekist, læra af þeim mistökum sem þar hafa verið gerð og taka upp góða og vandaða siði. Ég held að það hafi komið fram, í máli þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í þessari umræðu nú og fyrr, að við þurfum virkilega að vanda okkur og leggja ákveðnar línur um vönduð vinnubrögð, og þá mun okkur farnast vel.

Það var árið 2004 sem Alþingi steig stórt skref með því að svæðisskipta strandlengju Íslands út frá því hvar stunda megi sjóeldi og hvar ekki. Sú ákvörðun hefur greinilega verið mjög framsýn á þeim tíma og þeir þingmenn sem hér stóðu þá hafa horft langt til framtíðar. Ísland er nú talið einn besti staður í heimi til að stunda laxeldi vegna tiltölulega kalds sjávar og mikils hreinleika — það dregur úr líkum á lúsafaraldri sem er mesti skaðvaldurinn í Noregi; allt þeirra „effort“ og vinna fer í að reyna að minnka skaðann af lúsinni. Við tókum þá ákvörðun árið 2004 að svæðisskipta landinu; hafa það Vestfirðina, Eyjafjörð og Austfirði þar sem laxeldið mætti vera og reyna að halda því frá verðmætustu laxveiðiám landsins svo að við getum byggt upp þessa atvinnugrein í tiltölulega mikilli sátt og samlyndi við þá sem stunda veiðar á villtum laxi í ám landsins. Þetta var upplýst ákvörðun sem tók m.a. mið af fjarlægð við laxveiðiár. Skref þetta er töluvert stærra en aðrar fiskeldisþjóðir hafa stigið og í raun aðdáunarvert og þykir bera vitni um ábyrgð og góða framtíðarsýn. Í Noregi er öll strandlengjan undir. Ef ég man rétt eru um 350 laxeldisfyrirtæki á ströndinni alveg frá norðanverðum Hammerfest og suður eftir öllum Noregi. Eins og fram kom í máli hv. þm. Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur áðan eru norsk yfirvöld farin að setja upp umferðarljós á landi til að meta hvar hægt er að bæta við eldi á laxi á næstu árum.

Frumvarp til breytinga á fiskeldislögum ber með sér nokkrar áherslur. Það hlúir að greininni svo að hægt sé að horfa til framtíðar og eyða óvissu með því að styðja við uppbyggingu greinarinnar þar sem sjálfbær þróun er í hávegum höfð; að efla þau svæði sem Alþingi skilgreindi árið 2004 sem fiskeldissvæði ásamt því að efla þekkingu innan greinarinnar. Það má segja að Vestfirðir hafi nú þegar fengið að njóta góðs af uppbyggingu sjókvíaeldis þar sem samfélagsleg áhrif greinarinnar eru gríðarleg. Það höfum við séð og atvinnuveganefnd fór þangað á síðasta ári og kynnti sér eldi þar. Auðvitað er aðdáunarvert að sjá hvað verið er að gera og þar er beðið eftir þessum lögum til þess að menn geti farið að vinna eftir þeim og haldið áfram að efla greinina. Atvinnutækifærin hafa skapast sérstaklega fyrir ungt fólk sem á kost á að nýta sína menntun heima fyrir án þess að þurfa að flytjast á brott. Í fyrsta skipti í ár og áratugi hefur tekist að sporna gegn þeirri miklu fólksfækkun sem vestfirska samfélagið hefur orðið fyrir á undanförnum árum. Við sjáum að laxeldið er vaxtarsproti. Ég las einhvers staðar á dögunum að Samtök atvinnulífsins teldu að á næstu áratugum þyrfti 1.000 milljarða til að halda í við þá velmegun sem við búum við í dag. Það þyrfti sem sagt 1.000 nýja milljarða í kassann til að við héldum gæðum í heilbrigðisþjónustu og menntun sem við höfum í dag. Hvert ætlum við að sækja þessa peninga? Það er greinilegt að í landinu eru fá tækifæri til að auka útflutninginn meira en í laxeldi og það er einmitt þar sem við gætum náð að auka landsframleiðslu. Uppbygging hefur aukist til muna á Vestfjörðum, uppbygging á svæðum sem skilgreind hafa verið sem brothættar byggðir. Greinin á mikið inni og möguleikar til vaxtar eru miklir og þá sérstaklega þegar búið er að eyða óvissunni og skapa greininni góðan og skynsamlegan ramma. Þá verður einnig að líta til þeirrar sérstöðu sem Vestfirðir búa yfir. Það er auðveldlega hægt að koma upp seiðaeldisstöðvum og ala fiskinn í kjörstærð áður en hann er fluttur í sjókvíar. Vestfirðir hafa hreinan og kaldan sjó og eiga svæði engu lík og því er um einstakt tækifæri að ræða til að ala íslenskan fisk á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt.

Að framleiðslu lokinni hafa íslensk fiskeldisfyrirtæki í hendi sér einstaka vöru; íslenskan lax alinn við kjöraðstæður í einstöku umhverfi. Firðir landsins innihalda stóra bláa vannýtta akra og nú er kjörið tækifæri til að nýta þá með umhverfisleg sjónarmið og samfélagslegan styrk að leiðarljósi. Það kom líka fram í máli hv. þm. Ingu Sæland hér áðan að það að opna sjóeldiskvíar er einhver umhverfisvænasta matvælaframleiðsla sem völ er á í heiminum í dag. Fóðurnýting er með eindæmum góð. Fyrir hvert kíló af fóðri fæst eitt kíló af afurð. Það gerist varla annars staðar í lífríkinu. Það hefur komið í ljós að þrátt fyrir að norski laxinn sé umdeildur hér hefur hann reynst vel sem undirstaða laxeldis í Noregi og hér og víða um heiminn. Sem dæmi má nefna að Ástralir eru að byrja laxeldi í Tasmaníu og þar verður notaður norskur lax og eru fá ríki í heiminum ef nokkur sem hafa strangari höft og kröfur um innflutning dýra eða matvæla. Við erum að nýta bestu tegund af fiski sem völ er á. Það er auðvitað mikilvægt að fara varlega þegar við setjum lög um laxeldi. Áhættumatið er stór þáttur í því og þær mótvægisaðgerðir sem það inniheldur eru líka mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir erfðablöndun, að hún verði nánast útilokuð. Það er þannig með atvinnulífið, hvort sem það er laxeldi eða annað, að því fylgir alltaf ákveðin hætta og umhverfisspjöll að einhverju leyti. Ekki er hægt að gera neitt í atvinnulífinu án þess að það valdi einhverri röskun í umhverfinu. En við verðum að gæta að öllum þáttum laxeldis eins og kostur er og ekki síst áhættumatinu og að tillögur um mótvægisaðgerðir fylgi því að sjálfsögðu.

Hér var minnst á gjaldtöku og sveitarfélögin í því sambandi. Það er líka mikilvægt að sveitarfélögin njóti góðs af laxeldinu. Fiskræktarsjóður er hugsaður til þess að þau geti sótt þangað peninga en í náinni framtíð þarf að útlista það betur. Í Noregi er það þannig að umframmagn í eldi er selt á 120.000 NOK tonnið. Það er boðið upp og við síðasta uppboð seldist tonnið á 196.000 NOK og 80% af þeirri upphæð ganga til sveitarfélaganna þar sem laxeldi er. Við þurfum að skoða hvernig við getum tryggt að sveitarfélögin fái sem jafnastar greiðslur og gjöld af laxeldinu. Laxeldi getur farið fram á einum stað, í einum firði, og slátrun á öðrum þannig að tekjur hafnarsjóðs verði ekki bara eftir á einum stað. Við þurfum því að skoða það og sveitarfélögin verða að taka ríkan þátt í samstarfi við að reyna að finna leiðir til þess að allir fái eitthvað af þeirri köku sem í boði er. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í gjaldtöku fyrir laxeldið. Ég held að við þurfum að koma þessari grein af stað og hún þarf að þróast og styrkjast. Að sjálfsögðu þarf hún að greiða fyrir ræktunina og fyrir slátrunina og gjöld til samfélagsins. Það þarf að greiða fyrir rannsóknir sem eru mjög mikilvægar og það þarf líka að greiða fyrir menntun. Í Noregi hafa laxeldisfyrirtæki tekið þátt í því að styðja við bakið á menntun eldisfræðinga og mér er kunnugt um að Fisktækniskóli Suðurnesja í Grindavík hefur tekið þátt í því ásamt norskum skólum að útbúa námsefni. Sjálfur hefur Fisktækniskólinn á Suðurnesjum útskrifað eldisfræðinga og í þeirri umræðu sem mun fara fram næstu daga um laxeldið er mikilvægt að við gleymum því ekki að laxeldi mun taka þátt í að styrkja menntun til að gera þá einstaklinga sem hæfasta sem fara að vinna í kringum laxeldið, nákvæmlega eins og skólinn gerir í kringum sjávarútveginn og það er gríðarlega mikilvægt að auka þekkinguna þar.

Í lok þessarar stuttu ræðu, sem er stutt yfirlit yfir mál sem mun örugglega verða verkefni atvinnuveganefndar í nokkurn tíma, vil ég geta þess að ég hlakka til þeirrar glímu sem þar verður um málið. Það er mikill fróðleikur sem á eftir að hellast yfir okkur, nefndarmenn á nefndasviði, næstu daga, og alveg ljóst að við munum öll leggja okkur fram um að skila góðri afurð sem Alþingi getur síðan tekið endanlega afstöðu til. Ég ítreka að ferðin til Noregs var okkur mjög til góðs. Við munum búa að því í því starfi sem er fram undan að fletta upp þeim punktum sem maður skrifaði hjá sér þar og eins í þeim lærdómi sem við fengum í Bergen. Það var líka ótrúlega gaman að vera í atvinnuveganefnd Alþingis Íslendinga og sjá að íslenskt atvinnulíf var í algjörum forgrunni á þessari ráðstefnu. Nýsköpunarfyrirtækin okkar voru með sérstakan dag á þriðjudaginn í síðustu viku þar sem þau kynntu afurðir sínar. Þar mætti fjöldi manns á 900 manna ráðstefnu sem hófst á miðvikudagsmorgni með ræðu Ernu Solberg, forsætisráðherra Danmerkur, og af fyrstu sex ræðumönnum á þeirri ráðstefnu voru fimm Íslendingar. Maður var stoltur að sjá og heyra hve framarlega Íslendingar standa og hve mikil virðing er borin fyrir sjávarútvegi okkar og nýsköpun. Sjálfur hætti ég að starfa í fiski árið 2003 og það hafa orðið algjör kynslóðaskipti í öllu sem snýr að fiskvinnslu á Íslandi. Það eru íslensk fyrirtæki, það er íslenskt hugvit sem er í fararbroddi í heiminum.