149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[15:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi nokkurn veginn gert grein fyrir þessu áðan í fyrra svari mínu. Það er mikilvægt að um þetta viðkvæma mál ríki mikill friður eða eins mikill friður og kostur er. Áhættumatið er einn af þeim þáttum sem munu verða mikið ræddir. Það kom mjög skýrt fram í Noregsferðinni að þarlend stofnun, þeirra Hafrannsóknastofnun, hefur auðvitað bara rannsóknarskyldu og leggur sínar tillögur fyrir ráðherra sem tekur síðan endanlega ákvörðun. Ég kom inn á það áðan hvaða skoðun ég hef á því. Hún liggur fyrir. Ég tel að pólitískar ákvarðanir, mikilvægar fyrir okkur og samfélagið, eigi að vera teknar af okkur sem erum til þess kosin.

Ég mun hins vegar skoða hvaða þýðingu þetta orðalag í frumvarpinu hefur fyrir niðurstöðu málsins og treysti því að eiga í góðu samstarfi við nefndarmenn í atvinnuveganefnd sem voru nú bara skemmtilega sammála í þessari ferð. Við ræddum þetta tiltekna mál aðeins og við munum fara yfir það með þeim aðilum atvinnulífsins sem að þessu koma og niðurstaðan mun birtast í framhaldi af því.