149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum stjórnarfrumvarp um fiskeldi borið fram af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og fleiri sem hér hafa talað er ég nýkominn heim eftir að hafa dvalið síðustu viku með öðrum nefndarmönnum í hv. atvinnuveganefnd í Björgvin í Noregi til að sækja ráðstefnu um sjávarútvegsmál og fiskeldi og kynnast sjónarmiðum Norðmanna frá ýmsum hliðum. Ferðin var hin gagnlegasta og þakka ég meðnefndarmönnum og þá sér í lagi formanni hv. nefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir örugga forystu um leið og ég þakka hv. forsætisnefnd fyrir að heimila förina. Ég tel að meginsjónarmiðin í þessu máli séu þau að við bjóðum fiskeldi velkomið sem nýja og vaxandi atvinnugrein. Hún skapar atvinnu og tekjur og styrkir byggðarlög úti á landi. Mikilvægt er að unnið sé náið með heimamönnum á hverjum stað.

Herra forseti. Fiskeldi hefur að ýmsu leyti sömu einkenni og stóriðja. Hún nýtir auðlindir náttúrunnar og hefur í för með sér mengandi áhrif á umhverfi sitt. Í því efni kemur ekki til greina, að minni hyggju, að veita neinn afslátt af kröfum um mengunarvarnir. Mengunin á sér margar hliðar. Fyrst er auðvitað að geta hættu á erfðamengun villtra laxastofna. Þar verður að búa örugglega um hnúta til að verja villta laxastofna í íslenskum ám sem þróast hafa og lagað sig að aðstæðum frá lokum ísaldar. Ég leyfi mér að nefna í því samhengi, herra forseti, að ég sakna þess að í greinargerð með frumvarpinu sýnist mér ekki fjallað um ályktun erfðanefndar landbúnaðarins sem hefur sent frá sér ákveðin, reyndar mjög hnitmiðuð, varnaðarorð í þessu sambandi. Þetta var árið 2017 en að þessu munum við vafalaust koma mun nánar í fyrsta lagi í störfum hv. atvinnuveganefndar og síðan hér í 2. umr. Önnur mengun sem stafar af þessari atvinnustarfsemi er til að mynda úrgangur sem fellur til botns í opnum sjókvíum. Það eru eiturefni til að vinna á laxalús þar sem hún er fyrir hendi, mikið vandamál í Noregi eins og menn þekkja, og lyf vegna sjúkdóma, t.d. í nýrum laxfiskanna.

Í frumvarpinu eru ýmis álitaefni sem þarf að fjalla mjög ítarlega um í hv. atvinnuveganefnd. Eins og fleiri ræðumenn vil ég geta áhættumatsins. Það er á frumstigi í fræðilegu tilliti að því er best verður séð. Það er meira að segja svo að talan 4%, sem oft verður fyrir þegar menn fara ofan í þessi mál, sýnist ekki hafin yfir gagnrýni í ljósi þess að upplýsingar um flakk laxa milli áa, þ.e. villtra laxa, og að hve miklu leyti þeir taka þátt í hrygningu með öðrum stofnum getur haft áhrif á það hver þessi tala er. Þó að þessi tala sé talin góð og gild, til að mynda í Noregi, þegar kemur að áhættumati gæti reynst nauðsynlegt, í ljósi þessa þáttar og fleiri sem bent er á í mjög gagnlegum umsögnum sem þegar liggja fyrir um málið á samráðsgátt stjórnvalda, að endurmeta þá tölu miðað við íslenskar aðstæður.

Herra forseti. Reyndar er ekki að sjá að áhættumatið hafi fengið þá vísindalegu rýni enn sem komið er sem nauðsynleg er. Ég verð eins og aðrir hv. þingmenn sömuleiðis að lýsa efasemdum um hinn stjórnskipulega þátt, ef það er rétta orðið, í sambandi við ákvörðun um áhættumatið. Sérstaklega vil ég lýsa efasemdum um fyrirhugaðan samráðsvettvang og samskipti hans og Hafrannsóknastofnunar sem sýnast að sumu leyti geta ógnað sjálfstæði þeirrar ágætu stofnunar í vísindalegu tilliti. Þau ákvæði þurfa mjög nákvæmrar skoðunar við. Þá vil ég einnig geta ákvæða frumvarpsins um úthlutun eldissvæða, ekki síst þeirra ákvæða sem er að finna í 3. gr. frumvarpsins sem sýnast að ýmsu leyti óljós, t.d. um mat á hvað teljist vera hagstæðasta tilboð, eins og það heitir, við úthlutun eldissvæða. Um stjórnsýsluákvæði frumvarpsins vil ég segja að stjórnsýsla eins og hún birtist atvinnugreininni á að vera einföld og skilvirk eftir því sem nokkur kostur er. Auðvitað koma margar stofnanir að málinu. Það verður því ekki komist hjá því að stjórnsýslan feli í sér aðkomu fleiri aðila. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel að hv. atvinnuveganefnd verði að kanna hvort Fiskistofa ætti ekki að eiga meiri hlut að eftirliti með atvinnugreininni en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það er sjálfstætt markmið að búa þannig um hnúta, til að mynda við leyfisveitingar og kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja um umhverfistryggingar, að ríkissjóður sé sem best varinn fyrir hugsanlegum skaðabótakröfum, t.d. vegna umhverfistjóns og tjóns á eigum annarra aðila.

Herra forseti. Gildandi lög um fiskeldi eru nr. 71/2008. Í lögum nr. 49/2014 er mælt svo fyrir, í bráðabirgðaákvæði sem merkt er IV, að lögin um fiskeldi sæti endurskoðun í heild sinni. Ég verð að viðurkenna að við yfirferð á málinu, þ.e. yfirlestur á frumvarpinu og með því kynna mér þær fjölmörgu og ágætu umsagnir sem liggja fyrir, varð mér alloft hugsað til þessa ákvæðis. Ég hef spurt mig hvort ekki væri rétt að senda frumvarpið aftur í ráðuneytið með það fyrir augum að lagt verði fram frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um fiskeldi frekar en þann bútasaum sem við höfum hér fyrir augum.

Herra forseti. Að öllu samanlögðu vil ég segja: Við skulum taka þessari atvinnugrein vel. Við skulum búa vel að henni og við skulum gera það í góðu samstarfi við heimamenn í byggðunum þar sem reksturinn fer fram. En við veitum enga afslætti frá kröfum um mengunarvarnir með það fyrir augum að verja villta laxastofna og lífríki og náttúru landsins að öðru leyti. Við veitum heldur ekki afslætti frá skattlagningu í greininni miðað við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar og þá einkanlega þau sem við viljum helst bera okkur saman við.