149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp um breytingu á lögum um fiskeldi sem nú er komið fram. Því ber að fagna. Það er mjög gott að við höfum það í höndum og ég hlakka til að takast á við verkefnið í atvinnuveganefnd. Ég tel að við séum orðin nokkuð upplýst um málið eftir ferð okkar til Noregs og eins umfjöllunina í fyrra. Það skiptir gríðarlega miklu máli því að þetta er stórt mál og kemur til með að efla atvinnulíf hér á landi og styrkja það í sessi. Við þurfum að hafa fleiri körfur undir eggin og þessi atvinnugrein er einn liður í því að bæta við flóruna.

Eins og kom fram í ferð okkar til Noregs er þetta stærsta greinin á eftir olíuiðnaðinum þar. Þeim hefur tekist, í þessari 50 ára sögu fiskeldis, með sínum áherslum og áskorunum, að byggja þetta þannig upp að þeir horfa fram á enn meiri vöxt. Þeir horfa til þess að fimmfalda eldið, upp í 5 milljónir tonna. Það er stefna stjórnvalda. Það er kannski spurning hvort þeir geti náð því á þeim hraða sem þeir eru á núna.

Með frumvarpinu getum við sagt að við séum að leggja út í frekari stefnubreytingar og stefnumörkun í þessum málum sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það umhverfi sem fiskeldið hefur verið í síðustu ár og síðustu misseri hefur verið allt of viðkvæmt. Þeir aðilar sem hafa ætlað að fara út í þetta hafa ekki getað fótað sig eins og uppákoman í haust sýnir, þegar þessu var hreinlega kippt út. Við björguðum því á síðustu stundu. Við verðum að móta ákveðinn farveg og ákveðna umgjörð sem fólk getur sætt sig við, bæði þeir sem eru að hugsa um umhverfið og þeir sem eru í atvinnuuppbyggingu — og ekki síst samfélögin sem standa í kringum þessa atvinnugrein.

Árið 2004 var stigið stórt skref í þessum málum þegar við ákváðum að hafa þessa atvinnugrein á vissum svæðum. Þá horfðum við til Vestfjarða, hluta af Austfjörðum og Eyjafjarðar. Það held ég að hafi verið stórt skref sem aðrar þjóðir hafa ekki stigið. En við erum ákveðin í því og erum ekkert að reyna að hverfa frá því. Við viljum horfa til umhverfisverndar og mikilvægi þeirra þátta er gríðarlegt. Ég held að það verði meginstefið við vinnu á þessu frumvarpi að horfa á umhverfismálin.

Það eru tvö stjórntæki sem við getum notað í því sambandi: áhættumat og burðarþolsmat. Talandi um burðarþolsmat held ég að við getum horft til Noregs í því sambandi, til þessarar „umferðarljósastýringar“. Við þurfum að fara mjög varlega og lífríki sjávar skiptir gríðarlega miklu máli. Þá held ég að burðarþolsmat sé mikilvægt og við þurfum að vakta lífræna álagið á þeim svæðum, eins og stendur í frumvarpinu, að það verði vaktað mjög vel og brugðist við þegar sýnt þyki að ekki fari sem áætlað er. Síðan er það áhættumatið. Það er það sem ég vildi helst horfa til, að móta þurfi það enn betur. Áhættumatið er stjórntæki sem hefur verið notað en er kannski svolítið á bernskustigi. Við þurfum að horfa til þess að um verði að ræða öflugt tæki. Þá þurfum við líka að koma fram með mótvægisaðgerðir, og það er reyndar nefnt í 1. gr. að við tökum tillit til mótvægisaðgerða. En þetta er kannski nokkuð loðið og þarf að skilgreina betur í gegnum frumvarpið. Áhættumatið snýr að erfðablöndun við villta laxinn. Hún er alveg þekkt, erfðablöndun er staðreynd. Lax sleppur úr eldinu og þar með er hætta á erfðablöndun í ánum við villta stofninn. Hvað getum við gert til að sporna við því? Jú, við getum komið sterkt inn með mótvægisaðgerðir. Við getum kannski líkt þessu við að það er hættulegt að keyra bíl. Við getum velt bílnum og ef við keyrum of hratt getur það valdið slysum. En í staðinn fyrir að banna fólki að keyra bíl setjum við alls konar reglur. Við erum með öryggisbelti, það má ekki keyra fullur, við höfum takmarkanir á hraða og annað slíkt. Við getum horft á mótvægisaðgerðir sem slíkar reglur sem við þurfum að setja til að lágmarka þá hættu sem eldi í sjókvíum getur skapað fyrir villta stofninn. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli.

Það kemur fram í frumvarpinu að ráðherra staðfesti áhættumat erfðablöndunar að fenginni tillögu Hafrannsóknastofnunar og að tillagan verði bindandi fyrir ráðherra. Það held ég að setji Hafró kannski í svolítið viðkvæma stöðu og kannski ekki endilega ásættanlega stöðu sem vísindastofnun — að hún hafi þetta pólitíska vald eða þetta stjórnsýsluvald. Vísindamenn stofnunarinnar þurfa að vinna á þeim grundvelli að þeir séu metnir sem vísindamenn en séu ekki í pólitískri stefnumótun. Þetta er málefni sem við þurfum að fjalla frekar um í nefndinni en ég nefni þetta hérna. Þetta skiptir máli og það skiptir líka máli að þetta verði unnið þannig að tryggt verði að mótvægisaðgerðir verði metnar inn í þetta áhættumat, að útkoman verði sú að við getum farið eftir því.

Ég held að það sé kannski hægt að setja upp ákveðnar sviðsmyndir. sem er vinsælt að tala um í ýmsum málefnum. Það er hægt að setja upp ýmsar sviðsmyndir hvað áhættumat snertir — og þá að teknu tilliti til þessara mótvægisaðgerða. Við getum í því sambandi horft mjög til Noregs. Þeir eru með þessa vöktun — umferðarljósastýringu, vöktun á sleppingu stærri seiða í kvíar. Þetta eru allt atriði sem skipta gríðarlega miklu máli og ætti frekar að horfa til til að styrkja áhættumatið. Það er mikilvægt að Hafrannsóknastofnun hafi ástæðu til að taka tillit til þessara mótvægisaðgerða í útreikningum sínum.

Ég ætla kannski frekar að fjalla um ferð atvinnuveganefndar til Noregs. Hún var mjög góð og aðrir hv. þingmenn hafa gert henni skil hérna. Ég fagna því að frumvarpið hafi verið lagt fram og að við séum full af vilja til að koma því áfram í atvinnuveganefnd. Ég vil nefna nokkur atriði sem við þurfum að horfa til. Við þurfum sérstaklega að hafa umhverfissjónarmiðin að leiðarljósi í gegnum okkar ákvarðanatöku. Við erum að tala um villta laxastofninn hér við land og lífríki sjávar. Þetta er matvælaiðnaður sem er mjög viðkvæmur. Ef eitthvað gerist er hann fljótur að falla niður. Á markaði er matvara mjög viðkvæm fyrir öllum slíkum áherslum og ég held að það verði enn frekar í framtíðinni, að við horfum frekar til þessara þátta þegar við kaupum okkur vöru eða annað slíkt.

Að því sögðu hlakka ég til að takast á við þetta verkefni í atvinnuveganefnd.