149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[16:47]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þennan þingfund. Nú var það svo að málið var sett á dagskrá í síðustu viku á meðan atvinnuveganefnd var, eins og áður hefur komið fram, í Björgvin í Noregi að kynna sér sögu og núverandi fyrirkomulag fiskeldis þar í landi. Eðli málsins samkvæmt fannst okkur sumum nefndarmönnum það miður vegna þess að ég a.m.k. hafði mikinn áhuga á því að koma þeirri þekkingu í sem mestum og bestum mæli hingað inn í þingið, enda vænti ég þess að það sé heili tilgangurinn með slíkum nefndarferðum. Það er því ánægjulegt að forseti hafi tekið tillit til þessarar gagnrýni nefndarmanna og sett þennan þingfund á dagskrá í dag og fáum við nefndarmenn tækifæri til að taka þátt í 1. umr. þessa frumvarps um áhættumat fiskeldis sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur hér fram.

Ferðin var vel heppnuð eins og aðrir nefndarmenn hafa komið inn á. Hún var áhugaverð og ég get með sanni sagt að við fengum að heyra langflestar hliðar málsins hvað varðar fiskeldi á vandaðan vísindalegan hátt. Ég þakka fyrir þá ferð og það tækifæri.

Ég ætla að byrja á því að tala svolítið út frá stefnu okkar Pírata í þeim málum sem varða fiskeldi og svo fer ég aðeins inn á eigin afstöðu og reyni að tvinna það saman, þó þannig að skýrt sé hvað kemur frá þeirri sem hér stendur, hverjar niðurstöður mínar eftir ferðina eru og hvað eru upplýsingar sem ég aflaði mér í henni, og svo hvar Píratar standa gagnvart fiskeldi.

Í stefnu Pírata um umhverfismál og eins í stefnu Pírata um vernd hafsins er eitt af grundvallarlögmálum svokölluð varúðarregla. Ég ætla að rekja í hverju varúðarreglan felst.

Eitt af grundvallarlögmálum áhættustýringar er svokölluð varúðarregla. Má útskýra hana sem svo að framkvæmd eða stefna getur valdið almenningi eða umhverfinu tjóni og þá sé skortur á vísindalegri fullvissu um slíkt tjón ekki nóg til þess að farið sé í fyrirbyggjandi aðgerðir. Með öðrum orðum, sé einhver vafi á áhrifum af aðgerð er ekki lagt úr höfn fyrr en fullvisst er að hægt sé að koma í veg fyrir neikvæð áhrif þeirrar aðgerðar.

Öll stefnumarkandi vinna Pírata í umhverfis- og auðlindamálum byggir á þeirri grundvallarreglu. Segir m.a. í umhverfisstefnu Pírata, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu byggja á varúðarreglunni og greiðslureglunni við allar ákvarðanir sem varða náttúru Íslands.“

Einnig segir í stefnu Pírata um vernd hafsins, aftur með leyfi forseta:

„Starfsemi sem getur ógnað lífríki og líffræðilegum fjölbreytileika hafsins skal háð umhverfismati þar sem náttúran fær að njóta vafans.“

Það er ljóst að núverandi fyrirkomulag á fiskeldi í opnum sjókvíum uppfyllir enn ekki skilyrði varúðarreglunnar. Skiptir þá engu hvort vanti upp á löggjöf, reglugerð frá ráðherra, eftirlit frá stofnunum ríkisins eða bara frumkvæðisaðgerðir fyrirtækja sem stunda fiskeldi á Íslandi, á meðan þessi regla er ekki uppfyllt er ótækt að okkar mati að réttlæta fiskeldi í opnum sjókvíum á Íslandi. Hættan á erfðamengun við villtan fisk er of mikil og afleiðingarnar of dýrkeyptar. Ef eldislax blandast við villtan lax mun það hafa áhrif á lífríkið. Slíkt þarf hvorki að gerast oft né í miklum mæli til þess að hafa varanleg áhrif á umhverfið og það orðspor sem laxveiðar á Íslandi hafa byggt upp undanfarna áratugi.

Þess vegna tek ég undir orð annarra nefndarmanna um að ekki megi veita neinn afslátt á umhverfisþáttum er varða fiskeldi.

Í Noregi hefur fiskeldi verið stundað í hálfa öld og á þeim tíma hafa Norðmenn gert gríðarmikil mistök sem þjóðin hefur lært af. Niðurstaða þess lærdóms birtist í gríðarströngum öryggiskröfum, eftirfylgni, viðurlögum og skýrri ábyrgð hlutaðeigandi.

Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kom inn á það áðan að í Noregi hefur almenningur góðan aðgang að upplýsingum um fiskeldi þarlendis. Þar er upplýsingagjöf til almennings í samhengi eldis til fyrirmyndar og eitthvað sem ég tel að við Íslendingar eigum klárlega að innleiða og taka til eftirbreytni.

Nú kem ég meira inn á eigin afstöðu sem ég hef byggt í kjölfar heimsóknarinnar til Björgvinjar í Noregi með hv. atvinnuveganefnd Alþingis.

Eins og ég sagði í byrjun komu gríðarmörg atriði fram og ánægjulegt frá því að segja að við fengum yfirgripsmikla og vandaða kynningu á langflestum hliðum málsins. Við heyrðum frá fræðimönnum, atvinnurekendum, öðrum hagsmunaaðilum og frá leikmönnum einnig um afstöðu þeirra til fiskeldis í hafi. Jafnvel þó að um sé að ræða að mínu mati spennandi atvinnusköpunartækifæri, og auðvitað vill svo til að við búum á eyju þar sem það er raunverulega nokkuð rakið að vera með slíkt eldi vegna landfræðilegra aðstæðna, þá vakna á sama tíma upp stórar og alvarlegar spurningar í kringum atvinnugreinina sem nauðsynlegt er að leysa hratt og vel úr ef sá atvinnuvegur á að geta nýst okkur sem þjóð og til þess að almenn sátt geti verið um málið. Enn sem komið er er staðan því miður ekki sú. Fiskeldi er umdeilt hérlendis, eins og víðast hvar annars staðar, og það eru góðar og gildar ástæður fyrir því sem ég mun rekja á eftir.

Töluverð gagnrýni hefur komið á nálgunina í áhættumatinu og þó nokkrir þingmenn hafa komið inn á hana í þingsalnum í dag og vil ég taka undir með þeim. Hún snýr að Hafrannsóknastofnun og aðkomu hennar beggja vegna borðsins. Það er ekki alveg sanngjarnt að leggja slíka ábyrgð á herðar ríkisstofnun. Eins og hefur komið fram er svo mikilvægt að ábyrgðin liggi hjá okkur, kjörnum fulltrúum, þó að auðvitað sé ráðgjafarhlutverk vísindamanna mjög dýrmætt í allri ákvarðanatöku þingsins og hæstv. ráðherra einnig, get ég gefið mér.

Ég hef ekki tíma til að fara of mikið í gagnrýni á áhættumatið en það eru líka hlutir eins og að það sé engin líkindadreifing. Ég ætla ekki að fara út í svoleiðis tæknileg atriði, ég hef hreinlega ekki tíma til þess.

Eins og áður segir virðist ábyrgðin vera lögð á þeirra herðar í stað þess að pólitísk afstaða sé tekin um áhættumatið. Líkt og hv. þm. Inga Sæland kom inn á er sá ágalli á frumvarpinu að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar Íslands sitja beggja vegna borðsins. Þeim er falið að spyrja spurninganna og eins falið að svara þeim.

Leggja þarf meiri áherslur á varnir strax í byrjun áður en hafist er handa við fiskeldi. Í Noregi hafa þeir hálfrar aldar reynslu af iðngreininni og atvinnuveginum og þar er um að ræða svo merkilegar mótvægisaðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir að það væri algjört glapræði af okkur sem þjóð sem er að hefja þá vegferð af einhverri alvöru að nýta okkur þær ekki í sem mestu magni. Þar má nefna hluti eins og ljósastýringu og stærri möskva.

Norðmenn vakta árnar allan ársins hring, alla vega á meðan hætta er á sleppitilfellum. Verði sleppitilfelli er lögbundið hlutverk fiskeldisfyrirtækjanna sjálfra að tilkynna um slík tilvik og geri þau það ekki eru viðurlögin gríðarlega háar sektir. Við heyrðum einmitt af einu tilfelli þar sem ekki var tilkynnt en vísindamennirnir geta náttúrlega um leið rakið í gegnum genagreiningu hvaðan fiskurinn kemur sem hefur sloppið. Þarna var fyrirtæki sem sá sér ekki fært að tilkynna um tilfellið og var sektað, fékk það háa sekt að fyrirtækið fór svo gott sem á hausinn.

Þetta er nokkuð sem við þurfum klárlega sem þjóð að hafa inni í löggjöfinni. Fyrirtækin eru öll af vilja gerð, skilst mér, að gera frumkvæðisaðgerðir í sambandi við að koma í veg fyrir mengunarslys en það þarf að vera kýrskýrt í lagabókstaf landsins að verði einhver svona slugsaháttur, afsakið, þetta er kannski ekki fallegasta orðalagið, séu eftirmál af því. Norðmenn hafa lagt áherslu á að ábyrgðin liggi að ofboðslega miklu leyti hjá þeim sem eru í rekstrinum sjálfum, þar séu eftirmál þegar ekki er farið eftir þeim viðmiðum sem þarf að fara eftir með fyllstu gát.

Þeir vakta árnar. Verði sleppislys fer strax af stað kerfi við að hreinsa það upp. Fiskarnir eru veiddir. Við sáum myndir af því og það var mjög áhugavert að sjá að þarna fara kafarar og sækja fiskinn upp úr ánum.

Eins kom hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, inn á að sniðugt væri að hafa hvata eins og umhverfisvottunarhvata þannig að þau fyrirtæki sem standa sig vel fái að njóta þess í rekstri sínum.

Ég er því miður að falla á tíma. Það væri gaman að ræða málið meira en sem betur fer er þetta einungis 1. umr. og gott að fá að taka þátt í henni. Nú gengur málið til nefndar og vænti ég þess að það sé gríðarlega mikil vinna í nefndinni fyrir höndum. Það virðist vera nokkuð þverpólitísk sátt um alla vega að slá þetta ekki út af borðinu.

Ég legg gríðarlega áherslu á að þetta verður að gera vel og eins upp á orðspor greinarinnar sjálfrar. Það er allra hagur. Fari þetta úrskeiðis og verði slys er búið að eyðileggja svo mikið, sem er óþarfi að mínu mati. Það er hægt að gera þetta vel og við þurfum bara að gera það.

En mig langar að taka undir orð hv. þm. Ólafs Ísleifssonar á undan um að ekki væri vitlaust að frumvarpið gengi mögulega aftur til ráðuneytisins og að farið væri í heildarendurskoðun. Þetta er það stórt málefni sem tengist hagsmunum þjóðarinnar. Ég vil líta svo á að þjóðin sé stærsti hagsmunaaðilinn í málinu.

Eitt sem hefur ekki verið komið inn á og mig langaði að hafa meiri tíma til að fara út í eru dýraverndarsjónarmiðin. Sé farið inn á t.d. síðu dýraverndarsamtakanna PETA er þar ekkert sérstaklega fögur lesning um það hvernig fiskunum líður. Það eru oft hundruð þúsunda fiska í kvíum og náttúrlega reynt að takmarka pláss eftir fremsta megni. Fiskar eru hannaðir líffræðilega til að synda í stórum sjó og „navigeita“ þannig, afsakið slettuna, forseti. Þetta hentar því ekki sérstaklega vel, þeir rekast hver utan í annan og sumir verða blindir og aðrir verða heyrnarlausir. Þetta er atriði sem var bæði ekki komið nógu mikið inn á í Noregi og ekki hefur komið fram í umræðunni í þingsal í dag, eftir því sem ég veit best.

Það eru líka leiðir og lausnir í þeim efnum og alls konar ráð og dáð sem hægt er að skoða og við eigum auðvitað að vera fyrirmynd í þeim efnum líka. Bæði er það framtíðin í öllum svona geirum en svo er það líka samviska okkar sem þjóðar að taka það inn í málið og samtalið.

Nú er ég komin að lokunum. Það er eitt sem við þurfum að spyrja okkur að og ræða um. Þingmenn hafa komið inn á gjaldtöku af nýtingu auðlindarinnar og horfa Norðmenn svolítið hingað í ljósi þess að ekki er komið gjald af nýtingu auðlindarinnar í því samhengi, en það gefst ekki tími til að ræða hér.

Ég þakka fyrir umræðuna og hlakka til að vinna með þessi mál áfram með hv. atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) sem ég átti mjög ánægjulega ferð með til Noregs í síðustu viku.