149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka fyrir að farið var í þessa ferð, sem vel að merkja er nokkuð sem þingmenn eiga að gera oftar. Heimild er til þess einu sinni á kjörtímabili en við eigum ekki að vera feimin við það að segja: Við ætlum að kynna okkur það sem hefur verið gert í svipuðum málum. Við erum að fara að byggja upp heila atvinnugrein eins og fiskeldi er og þá ætlum við einmitt að læra af mistökum og líka því sem vel er gert annars staðar, hvort sem það er hjá Norðmönnum eða Færeyingum, sem eru okkar bræður og systur í þessu.

Þess þá heldur var hundfúlt að upplifa að það virkaði eins og meiri hluti nefndarinnar, alla vega forseti og ríkisstjórnarflokkarnir, vissi að hugsanlega ætti að ræða þetta mál í síðustu viku meðan nefndin var í burtu. Það eru ekki boðleg vinnubrögð og hvorki fylgir því gagnsæi né er það til þess fallið að byggja upp trúnað og traust í eins mikilvægu máli og þessu. Ég horfi ekki á þetta mál sem ríkisstjórnarmál eða að stjórnarandstaðan eigi að beita sér gegn því af því að það kemur frá ríkisstjórninni. Ég horfi ekki þannig á málin, hvorki þetta mál né önnur.

Þegar við erum að byggja upp atvinnugrein sem getur haft verulega efnahagslega og samfélagslega þýðingu fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að við reynum að vanda til verks. Það fyrsta er að við reynum þá að vera svolítið saman í þessu en ekki að troða málum í gegn meðan öll atvinnuveganefnd er í burtu. Það er eins og að ræða fjárlög meðan fjárlaganefnd væri í burtu. Ég gagnrýni þetta. Ég gagnrýni forseta sérstaklega harkalega fyrir þetta og ráðherra líka fyrir að hafa ekki frestað umræðunni þangað til í dag.

En gott og vel, við erum komin hingað með þetta mikilvæga mál. Það er margt mjög áhugavert sem kemur fram í þessu máli hæstv. ráðherra. Margt vantar líka. Ég get sagt það strax að það eru náttúrlega gjaldtökumálin, hvernig auðlindagjöld og leyfisgjöld við eigum að taka. Það er til vansa að við ræðum það ekki samhliða þessu því að þannig fáum við meiri heildarmynd. Ég undirstrika að við verðum að finna gjaldaleið sem tryggir ákveðin auðlindagjöld fyrir fiskeldi í landinu, auðlindagjöld sem gætu einmitt runnið til baka á heimasvæði fiskeldisins til að byggja upp innviði. Það dugar mér ekki að sjá að það sé eingöngu verið að tryggja gjöld í Umhverfissjóð sjókvíaeldis, það þarf að skoða þetta heildstæðar. Okkur er sagt að bíða og mér finnst það snúið og mér finnst það frekar flækja málið en hitt.

Ég legg áherslu á það, ekkert ósvipað og t.d. hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir undirstrikaði, að umhverfismálin verða auðvitað mjög stór þáttur í þessu. Þau verða mjög þungur og stór partur af allri þeirri vinnu atvinnuveganefndar sem fram undan er. Ég sagði það áðan og fyrr í dag að mér finnst mikilvægt að umhverfisráðherra komi hér að. Hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur á fund nefndarinnar á morgun samkvæmt útgefinni dagskrá. Ég óska eftir því að umhverfisráðherra komi líka og ræði við okkur og segi sína hlið á málinu og kannski er hann einmitt með innlegg í málin eins og þau standa núna.

Ég vil draga það fram að ég held að þetta mál sé svolítið þverpólitískt. Ég skynja ólíkar raddir, aðeins mismunandi áherslur þvert á flokka og það er áhugavert. Mér finnst þess þá heldur áskorun fyrir okkur í þinginu að reyna að vanda okkur af því að við höfum núna einstakt tækifæri til að búa til rammalöggjöf um atvinnugrein sem er byrjuð — og það er ekki þannig að hún sé ekki byrjuð, fiskeldi er hafið á Íslandi. Þetta er einstakt tækifæri fyrir okkur Íslendinga, Alþingi Íslendinga, til að gera hlutina þannig að sem víðtækust og breiðust sátt náist. Ég held að lykillinn að því sé í gegnum umhverfismálin og að við hlustum á þær kröfur og það sem kallað er eftir. Ég held líka að fiskeldisfyrirtækin geri sér mjög vel grein fyrir því. Það á ekki að slaka á kröfum eða fara einhverjar fjallabaksleiðir heldur nálgast þetta mjög opinskátt og strax. Ég legg mikla áherslu á að greinin sjálf taki það til sín. Norski seðlabankastjórinn sagði ekki alls fyrir löngu að hann legði áherslu á að fjárfestar og fyrirtæki í Noregi tækju loftslagsmál og umhverfismál inn í allar sínar áætlanir. Það væri efnahagslega en líka siðferðilega rétt inn í framtíðina. Ég tek undir það, geri hans orð að mínum og beini þeim til fiskeldisfyrirtækjanna. Þetta er líka lykillinn að því, sem ég kem að síðar, hvernig við getum fengið sem hæst verð fyrir okkar afurðir.

Við skulum hafa í huga að það eru ekki bara Norðmenn í fiskeldi. Eins og komið hefur fram munu þeir fara árið 2050 upp í 5 milljónir tonna, eru með 1,1 milljón núna, 1,2 ef við tökum regnbogasilungseldi inn í líka. Í Chile voru þeir með 400.000, duttu niður í 100.000 af því að þeir gerðu helling af mistökum. Þeir klikkuðu, misstu laxa út og það var mikil laxalús, mjög miklir erfiðleikar þar. Laxeldi og fiskeldi er þar að rísa aftur og þeir eru komnir í, að mig minnir, um 300.000 tonn og þeirra stefna er að ná 700.000. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort við Íslendingar viljum vera þátttakendur í því að auka og efla matvælaframleiðslu í heiminum. Höfum líka hugfast að á árinu 2050, að mig minnir, tölurnar eru frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, verða jarðarbúar upp undir 10 milljarðar. Það þýðir að við þurfum að auka matvælaframleiðslu um allt að 50%. Í dag erum við með innan við 5% af matvælaframleiðslu úr hafinu. Eins og Jacques Cousteau sagði á sínum tíma, strax árið 1973, einn af helstu vísindamönnum í haffræði, djúpsjávarfræðum, umhverfissinni og vísindamaður, að vegna aukinnar eftirspurnar mannsins eftir matvælum, meiri fæðu, yrðum við að horfa til hafsins, nýrrar þekkingar og nýrrar tækni.

Viljum við Íslendingar vera þátttakendur í þessu? Eða eigum við að láta bara aðra sjá um þetta? Mér finnst það ekkert sérstaklega ábyrgt ef við sem þjóð sem kunnum að fara vel með náttúruauðlindir ætlum að segja pass við því. En þá verðum við líka að vera með forystu í því að setja strangar reglur, strangari reglur að mínu mati en Norðmenn og Færeyingar hafa gert. Eitt af því sem Færeyingar gerðu og kom þeim áfram á beinu brautina — þeir framleiða núna 75.000 tonn, sem er u.þ.b. það sem áhættumatið hér heima leyfir okkur að gera, sem er 71.000 — var að þeir sögðu: Við ætlum að vera með ströngustu reglurnar, strangari en Norðmenn. Ég held að þetta sé mjög sterkt viðmið og að við eigum að segja: Við ætlum að vera með mun strangari reglur og gera meiri kröfur en bæði Færeyingar og Norðmenn.

Í dag erum við með áhættumat upp á 71.000 tonn, 50.000 fyrir vestan og 21.000 fyrir austan, miðað við áhættumatið sem kom út í fyrra. Eyjafjörðurinn er eftir, það er verið að burðarþolsmeta og áhættumeta hann líka. Þá erum við með ekki nema brotabrot af því sem telst til matvælaframleiðslu í heiminum. Að hverju ætlum við þá að keppa? Auðvitað keppum við þá í gæðum alveg eins og við getum gert með lambakjötið okkar. Við ætlum að keppa í gæðum og því að við erum umhverfisvæn. Gerum strangari kröfur en aðrar þjóðir til lífrænnar framleiðslu, til náttúruverndar og umhverfisverndar. Þar eru okkar sóknarfæri. Þannig getum við fengið enn meira fyrir hvert kíló af laxi í fiskeldi hér en annars staðar. Það er hægt.

Við verðum líka að hafa í huga að við þurfum að auka framleiðni hér á landi. Við þurfum að auka verðmætasköpun. Það er okkar ábyrgð líka, okkar allra sem viljum m.a. sterkara velferðarkerfi, menntakerfi o.s.frv. Við þurfum að skapa verðmæti til að standa undir þeim innviðum sem við viljum öll og höfum metnað til þess að hafa á Íslandi. Þá þurfum við aukna verðmætasköpun. Hún kemur m.a. í gegnum fiskeldið. 100.000 tonn af laxi gefa í verðmætum svipað og 260.000–270.000 tonn af þorski eins og við veiðum í dag. Verðmætið er meira á kíló af laxi úr sjókvíum en villtum þorski, eins skrýtið og það er. Þannig eru markaðirnir og þannig er eftirspurnin. Við sjáum þessa markaði bara rísa. Í Þýskalandi er lax núna úr fiskeldi orðinn þriðji vinsælasti fiskurinn á markaði, þ.e. Seelachs, sem er ufsi, og síld.

Þetta er hluti af því sem við eigum að taka þátt í en förum varlega og gefum okkur tíma og látum ekki neina, ekki fiskeldisfyrirtækin, stjórna för. Það erum við sem stjórnum för. Við eigum að veita sýnina í því hvernig við ætlum að byggja upp fiskeldi og við ætlum að gera það á sjálfbæran hátt. Við verðum að gera það á sjálfbæran hátt. Ég held að við séum öll sammála um það. Hvað þýðir sjálfbærni? Hún þýðir að við ætlum að taka tillit til umhverfisverndar, náttúrunnar okkar. Þar erum við með ákveðin viðmið og það er hluti af því sem við þurfum sérstaklega að skoða hér. Við eigum að hlusta á Hafró. Ég held að það sé lykillinn að sáttinni. Ég finn það strax að það er ákveðinn lobbíismi byrjaður, sumir efast um að Hafró eigi að hafa þessi völd. Við skulum bara hlusta á þá vísindamenn sem eru þarna, þeir eru að afla sér betri þekkingar, meiri reynslu, og við skulum treysta þeim í samvinnu við stjórnvöld. Ég er ekki að tala um að pólitíkin eigi að sleppa beislinu. Við veitum stefnuna. En til þess að setja sterka stefnu, sem verður síðan undirstaða að verðmætum afurðum, þurfum við að hafa öfluga vísindamenn með okkur. Sjálfbærni er umhverfisvernd. Hún er líka félagsleg og efnahagsleg. Við viljum efnahagslega sjálfbærni og það er ekki spurning að þetta er eitthvað sem við getum selt. Þetta er ekki eins og hvalurinn sem við fáum ekkert fyrir og bara skaðar okkur, líka efnahagslega. Hér erum við með vöru sem getur styrkt stoðirnar.

Síðan megum ekki gleyma félagslega þættinum. Þetta eru þrír þættir, umhverfislegir, félagslegir og efnahagslegir, og sá félagslegi er mikilvægur. Við getum ekki lokað augunum fyrir því, eins og ýmsir sem hingað hafa komið upp, hvaða áhrif þetta hefur haft á tækifæri og uppbyggingu, m.a. á suðurhluta Vestfjarða. Þá er það líka ábyrgðarhluti hjá okkur sem hér erum að kippa frá þeim þeim stoðum sem hafa verið að byggjast upp á síðustu tíu árum. Hvernig gerum við þetta? Verkefnið er snúið. Öll höfum við metnað til þess að gera þetta vel. Þess vegna legg ég áherslu á að við flýtum okkur hægt, horfumst í augu við að það eru ákveðin tækifæri fyrir okkur öll í þessu, stór og mörg, en við verðum líka að horfa á samfélag okkar hérna heima, hvernig við styrkjum það áfram. Ég trúi því að við viljum halda landinu okkar í byggð. Við erum komin með tæki til þess, atvinnugrein sem hefur styrkt áður veika og brothætta byggð. Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri félagslegu sjálfbærni sem því fylgir.

Ég hef margar spurningar og ég hefði viljað fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra. Ég fæ tækifæri til þess á morgun á fundi nefndarinnar. Ég hefði t.d. viljað heyra hann lýsa því hvernig hann sjái fram á friðlýsingu ákveðinna svæða. Ég held að Fjarðabyggð hafi sett fram mjög mikilvæga stefnumótun varðandi fiskeldi þar sem þau settu m.a. fram þá sýn sína að passa upp á að Viðfjörður og Hellisfjörður, að mig minnir, yrðu friðaðir. Ég velti því upp hvort Jökulfirðirnir ættu ekki að vera friðlýstir þrátt fyrir að þeir tilheyri Vestfjörðum. Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum að hugsa um. Ég hefði viljað heyra þau sjónarmið hæstv. ráðherra og líka hvernig hann sjái fyrir sér uppbyggingu í Eyjafirði. Sér hann fyrir sér uppbyggingu í Eyjafirði eða ætlar hann hugsanlega að friðlýsa Eyjafjörð? Burðarþolið er í gangi. Hvernig sér hann málin þróast á því svæði? Mín reynsla, þann skamma tíma sem ég var ráðherra, var sú að það voru mjög skiptar skoðanir á því svæði hvort fara ætti í uppbyggingu á fiskeldi í Eyjafirði.

Ég undirstrika að margt er fínt í þessu frumvarpi, en ég hefði viljað sjá það heildstæðara. Ég hefði viljað sjá að einhverju leyti metnaðarfyllri umhverfiskröfur um fiskeldi. Ég hefði viljað heyra það frá fleirum en fiskeldisfyrirtækjum að t.d. lokaðar kvíar séu ekki komnar nægilega langt og það þýði ekkert að taka mikið tillit til þeirra. Ég held að þær sé komnar lengra en margir halda. Getum við ýtt enn frekar undir þá hvata til þess að við getum verið í forystu sem þjóð sem m.a. byggir á fiskeldi? Það er áhugavert verk fram undan fyrir atvinnuveganefnd. Við skulum mæta full af metnaði og krafti og þori til að takast á við þetta verkefni sem getur haft mikla þýðingu fyrir byggðir landsins og líka fyrir samfélag okkar sem er Ísland.