149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ljómandi ræðu og mikilvægt innlegg í þetta mál, enda reynslumikill á þessu sviði og þekkir vel til hluta.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þingmanni varðandi áhættumatið. Ég tel að það sé lykillinn, eins og ég hef skilið hann, að því að við náum skilningi og aukinni sátt um það hvert við förum með fiskeldi og um leið hvernig við getum gætt að okkar villta, mikilvæga laxastofni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þriggja spurninga:

Í fyrsta lagi: Sér hv. þingmaður annars vegar fyrir sér að við gerum einhverjar breytingar á áhættumatinu til að styrkja enn frekar eða ýta meira undir hlutverk Hafró og tryggja vísindalega nálgun?

Í öðru lagi: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við getum haldið betur utan um Hafrannsóknastofnun á þessu sviði?

Síðan í þriðja lagi langar mig að forvitnast um hvort skiptar skoðanir séu innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um áhættumatið og hvort það eigi að leggja fram eins og það er í frumvarpinu, þ.e. hvort það eigi að vera bindandi eða ekki fyrir ráðherra að fylgja eftir ráðgjöf Hafró.

Þetta eru þrjár spurningar til hv. þingmanns.