149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég undirstrika að mér finnst áhættumatið vera lykillinn að því að við náum árangri í þessari umræðu og meðferð, bæði stjórnunar á sviði þessarar mikilvægu atvinnugreinar og annarrar auðlindanýtingar.

Gera betur? Ég ætla ekki að hafa faglegar skoðanir á áhættumatinu á þessu stigi og hvernig nefndin ætti að geta gert breytingar á því. En ég vek athygli á því, og það kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, að atriði eins og mótvægisaðgerðir þyrftu að fá meira vægi í áhættumati. Ég tek undir það að mótvægisaðgerðir sem mögulegt er að ráðast í mætti taka betur utan um í áhættumati.

Varðandi aðrar spurningar er snúa að áhættumatinu og samstöðunni um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins ætla ég einungis að segja þetta: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er áfram um að við ljúkum hér vandaðri löggjöf um fiskeldi. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins styður sterklega við að við nýtum þessa atvinnugrein til eflingar byggðum, til eflingar þjóðarhag. Og þannig ætlum við að vinna að framgangi þessa máls.