149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:34]
Horfa

Gísli Garðarsson (Vg):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að ég hafi ekki enn náð þrítugu kviknaði áhugi minn á íslenskum stjórnmálum líklega af alvöru fyrir rúmum 15 árum. Þá var ég grunnskólanemi í Landakotsskóla hér aðeins ofar í túninu en búsettur uppi í Grafarvogi og tók oftar en ekki strætisvagn heimleiðis frá Lækjartorgi eftir skóla.

Það er tvennt sem mér er helst minnisstætt úr reglulegum göngutúrum mínum frá kaþólsku kirkjunni niður á stoppistöð sem vakti mig til umhugsunar um samfélagið okkar. Annars vegar voru það útigangsmennirnir sem voru á stjákli á þessari gönguleið. Ég fékk aldrei almennilega botn í það hvernig það mætti vera að á landi eins og Íslandi, sem mér var alltaf sagt að væri frábært á alla vegu, væri svona margt fólk sem ætti ekki heima neins staðar, ekki einu sinni í hríðarbyljum, og þyrfti að biðla til annars fólks um pening fyrir mat. Raunar skil ég þetta ekki enn ef út í það er farið.

Hins vegar eru mér minnisstæð plaköt sem héngu hist og her en fyrst og fremst utan á litlu hornhúsi á Suðurgötunni sem ég átti síðar eftir að komast að að væri flokksskrifstofa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þau skörtuðu litlum jakkafataklæddum karli sem kallaði í sífellu eftir fleiri álverum og virtist engum öðrum tillögum taka, hversu skynsamlega sem þær kunnu að hljóma.

Að endingu fór það svo að ég sótti einhvers konar bleðil inn í þetta litla hús og byrjaði að kynna mér hið stóra og flókna orð „Kárahnjúkavirkjun“. Skömmu síðar fékk ég svo að gjöf ágæta bók eftir Ómar Ragnarsson um sama efni sem varð mér sífellt hugleiknara.

Eflaust má segja sem svo að þessi plaköt á vegum Ungra Vinstri grænna hafi verið kveikjan að þeirri atburðarás sem skilaði mér að endingu upp í þetta ræðupúlt. Þess þá heldur er viðeigandi að ég geri efnistök þeirra að mínum, nú þegar hingað er komið.

En af hverju er ég að rifja Kárahnjúkavirkjun upp fyrir þingheimi? Vissulega er það svo að þetta þing sitja fleiri en einn hv. þingmaður sem sátu hér einnig þegar ég var fermingardrengur, jafnvel fleiri en tveir og jafnvel fleiri en þrír. En ástæðan fyrir því að ég rifja upp Kárahnjúkavirkjun er ósköp einföld því að þrátt fyrir hve mikið hefur verið rætt um að frumvarpið og að framkvæmd þess eigi að byggja á vísindalegum grunni virðist stundum hafa farið forgörðum hið fornkveðna meginstef hugvísindamanna, að sá sem ekki geti lært af sögunni sé dæmdur til að endurtaka hana.

Kárahnjúkavirkjun er skólabókardæmi um það hvað gerist þegar náttúruverndarsjónarmið eru látin mæta afgangi þegar ráðist er í stórtæka atvinnuuppbyggingu. Fyrir rúmum 15 árum var lagt af stað í leiðangur með þeim upphrópunum að byggð myndi leggjast af á Austfjörðum nema af Kárahnjúkavirkjun yrði. Áhyggjur samtaka náttúruverndarsinna voru hins vegar að engu hafðar, nema þá til þess að hafa þær að háði og spotti.

Afleiðingin er sú að í dag er Lagarfljótið dautt og draumar mínir um að hitta einhvern tímann Lagarfljótsorminn löngu horfnir.

Þrátt fyrir miklar sveiflur á heimsmarkaðsverði áls síðan álverið á Reyðarfirði var gangsett hefur samfélagið þar alltaf haldið lífi. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða, án þess að ég afneiti efnahagslegum áhrifum álversins, að það sem trekki utanaðkomandi að Austfjörðum í dag séu ekki störfin í álverinu heldur ferðaþjónustan og menningarstarfsemi eins og Eistnaflug og LungA. Hvort tveggja er starfsemi, þetta „eitthvað annað“ sem andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar báðu um fyrir hálfum öðrum áratug, sem dafnar og nýtur góðs af óspilltri náttúru, hvar sem hana er að finna.

Auðvitað er fiskeldisfrumvarpið ekki fullkomlega sambærilegt Kárahnjúkavirkjun en hliðstæðurnar eru til staðar. Ef til vill eru önnur dæmi af innflutningi erlendra dýrategunda til hagnýtingar hérlendis nærtækari. Enginn ætlaði sér að innfluttur minkur myndi sleppa úr loðdýrabúum í íslenska náttúru. Það er engu að síður staðreynd að minkar sluppu úr fjölda búra með þekktum afleiðingum fyrir íslenska náttúru, fækkun stofnstærðar annarra dýrategunda og breytingu á útbreiðslu þeirra.

Það er einnig staðreynd — og ég hygg að hún sé algerlega óumdeild, eins og kemur raunar fram í áliti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, nr. 20/2018, — að það verður ekki hægt að koma í veg fyrir að eldislax sleppi úr sjókvíum. Þetta má ekki einasta sjá á því að slysasleppingar hafa nú þegar ítrekað orðið hérlendis heldur einnig á frumvarpinu sjálfu. Í 17. gr. fyrirliggjandi frumvarps er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun birti upplýsingar um slysasleppingar „þegar“ en ekki „ef“ slíks verður vart. Vega á upp á móti þessu með því sem skilgreint er í 1. gr. fyrirliggjandi frumvarps sem áhættumat erfðablöndunar.

Þetta þykir mér allra góðra gjalda vert. Með því að lögfesta slíkt áhættumat er ætlunin að meta hversu mikið magn laxa er óhætt að ala í sjókvíum á hverju svæði svo að ekki hljótist skaði á villtum laxastofnum af slysasleppingum. Þetta mat á svo að liggja til grundvallar leyfisveitingu.

Áhættumatið þarf hins vegar að endurskoða reglulega og ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti, sem er ekki langur tími í vísindalegum skilningi þó að okkur stjórnmálamönnunum kunni að þykja kjörtímabilið ægilega langt. Leyfisveitingar eiga síðan að taka mið af breytingum í áhættumati, eins og eðlilegt hlýtur að teljast.

En spurningin sem blasir við mér er: Hvað ef óhapp verður eftir að raunaðstæður hafa breyst svo að lækka þyrfti lífmassa í sjókví en áður en áhættumat hefur verið endurskoðað og framleiðslumagn lækkað í samræmi við það? Þá hlýtur að verða að grípa til mótvægisaðgerða og e.t.v. er það þá orðið of seint, ef til að mynda ár líður á milli.

Landssamband veiðifélaga og fleiri hafa sömuleiðis réttilega bent á að aðilar sem eiga gífurlega fjárhagslega hagsmuni undir því að áhættumatið sé rúmt eigi, samkvæmt frumvarpinu, að koma að ferlinu að baki ákvörðunum þess. Ég hyggst ekki eyða of miklum tíma í þá umræðu, enda hefur hún fengið skipaðan ágætissess í bæði fjölmiðlum og samráðsgátt stjórnvalda. En þingið hlýtur að sjá að hætt er við að slík ákvörðun kunni að grafa undan trausti á málefnalegum grundvelli áhættumatsins, hvort sem hv. þingmönnum þykir það réttlætanlegt eður ei.

Sá sem hér talar er ekki sjálfur til þess bær að leggja fram tillögur að því hvernig hægt væri að framkvæma áhættumat eða búa til sambærilegan öryggisventil með betri hætti. Hins vegar vil ég að það fari ekki á milli mála í hugum hv. þingmanna að þær varúðarráðstafanir sem lagðar eru til, svo langt sem þær ná, geta ekki fyllilega komið í veg fyrir óafturkræfan skaða. Þó þætti mér sem leikmanni skoðunarinnar vert, ef frumvarpið nær fram að ganga, að hafa í því þannig takmarkanir að aðeins væri notast við geldfisk þar sem hætta væri á erfðablöndun. Slíkt hlyti að fyrirbyggja þau náttúruspjöll sem annars gætu orðið.

En það er svo sem fleira sem ég hef ekki góðan skilning á. Ég skil t.d. ekki af hverju frumvarp sem sagt er byggja fyrst og síðast á vísindalegum grunni setur Hafrannsóknastofnun svo þröng tíma- og varúðarskilyrði um rannsóknir sem lýst er í 17. gr. fyrirliggjandi frumvarps, til að gæta þess, með leyfi forseta, „að tilraunastarfsemi raski ekki eða auki rekstrarlega áhættu þeirrar starfsemi“.

Með slíkum takmörkunum er einmitt verið að forgangsraða afkomu einkafyrirtækja fram yfir betri vísindalegan skilning á, með leyfi forseta „eldi lagardýra, eldisaðferðum, atferli eldisfisks, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði lagardýra“.

Þá liggur einnig fyrir að burðarþolsmælingar fara nú fram í Norðfjarðarflóa og Eyjafirði og að til standi að meta Mjóafjörð eystra. Ég spyr mig hreinlega hvort raunverulega og með góðri samvisku sé hægt að tala um varfærna uppbyggingu þegar haldið er áfram að ýta úr vör undirbúningi að fiskeldi í sífellt fleiri fjörðum áður en komin er teljandi og marktæk reynsla á fyrirkomulagið þar sem það er fyrir. Eða ætlum við að vera búin að koma upp fiskeldi í öðrum hverjum firði landsins ef það kemur upp síðar að við höfum hlaupið á okkur?

Ég tek það fram við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hv. atvinnuveganefnd að ég fagna þeim árangri sem hefur orðið í því að samtvinna umhverfissjónarmið inn í frumvörp til laga um atvinnuuppbyggingu. Það er mjög til bóta.

Það sem truflar mig hins vegar við frumvarpið sem hér liggur fyrir er að frumforsendan í því virðist engu að síður fyrst og fremst vera sú að hér skuli byggja upp atvinnugrein sem fyrirséð er að geti valdið náttúruspjöllum. Þeim annars ágætu náttúruverndarsjónarmiðum er síðan skeytt aftan við þá uppbyggingu til að milda og vega á móti þeim óafturkræfu afleiðingum sem vel geta samt orðið.

Þannig er náttúran því miður eftir sem áður ekki látin njóta vafans heldur efnahagsleg sjónarmið.

Mér þótti ágætt að heyra í máli nefndarmanna í atvinnuveganefnd í fjölmiðlum að þeir hefðu hitt bæði fólk úr vísindasamfélaginu og frá náttúruverndarsamtökum ásamt því að kynna sér fiskeldið sjálft. Norðmenn eru enn sjálfir að læra á fiskeldi sem atvinnugrein og þurfa sífellt að endurskoða reglur í kringum það.

Í huga þess þingmanns sem hér lýkur nú máli á náttúran alltaf að njóta vafans. Ég vona innilega að þau sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við frekari umræðu og vinnu við þetta frumvarp á vegum þingsins.