149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu hér. Ýmsir þættir í þessu frumvarpi hljóta að koma til ítarlegrar skoðunar. Einn þeirra er að gert er ráð fyrir að eftirlit verði að einhverju leyti lagt í hendur fyrirtækjanna sjálfra. (Sjútvrh.: Ef þau standast kröfur.) — Ef þau standast kröfur, heyrði ég hæstv. ráðherra segja.

Við höfum eilitla reynslu af því á Íslandi að leggja eftirlit í hendur fyrirtækja að einhverju leyti. Við kynntumst því svolítið í umræðunni sem varð í kringum þá sérkennilegu tíma sem enduðu svo með ósköpum haustið 2008, eins og menn þekkja.

Herra forseti. Ég er ekkert að líkja þessu saman, ég nefni þetta bara til að hafa samhengi í umræðunum.

En mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvaða afstöðu hann hefur til þess að leggja eftirlit með þessum hætti í hendur fyrirtækjanna sjálfra, að gefnum þeim skilyrðum sem ráðherra benti á með sínum hætti áðan. Ég leyfi mér að nefna í ræðu minni að á ýmsum stöðum er til að mynda fjallað um stjórnvaldssektir í eftirlitssamhengi. Ég leyfi mér að nefna að Fiskistofa ætti kannski að fá meiri athygli sem hugsanlegur aðili til að sinna eftirliti með þessari atvinnustarfsemi. Ég vil sömuleiðis inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til þeirrar spurningar.