149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:10]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum fiskeldi hér í dag. Ég sit í atvinnuveganefnd sem fór til Noregs í síðustu viku til að kynna sér það. Ég held að sú ferð hafi verið til mikillar fyrirmyndar og við öfluðum gríðarlega mikillar vitneskju í ferðinni sem mun nýtast vel á næstu vikum í vinnu atvinnuveganefndar. Ég tel okkur nokkuð vel nestuð inn í umræðuna miðað við þær góðu upplýsingar sem við fengum. Laxeldi hefur verið stundað í Noregi í um 50 ár en það var fyrst fyrir 40 árum sem það fór virkilega af stað. Norðmenn framleiddu rúmlega 30.000 tonn 1986 en á síðasta ári framleiddu þeir 1.100.000 tonn og svo er regnboginn tæplega 100.000 tonn þannig að samtals framleiða Norðmenn um 1,2 milljónir tonna í sjókvíaeldi í dag, við strendur Noregs.

Ég ætla fyrst og fremst að fara í gegnum nokkra punkta og hvernig málin standa. Í Noregi, sem við horfum til, er verið að tala um sjókvíaeldi eða hvernig standa eigi að fiskeldi í framtíðinni. Þar er helst litið til fjögurra þátta, hins hefðbundna sjókvíaeldis sem er stundað í dag og hefur verið stundað þar síðustu 50 ár. Síðan er verið að vinna að hugmyndum um lokað sjókvíaeldi, í svokölluðum lokuðum kvíum. Það eru mismunandi skoðanir á því í Noregi hvað lokuð sjókví þýðir nákvæmlega. Þar er líka verið að tala um eldi, með leyfi forseta, „off shore“, undan ströndum. Jafnvel er verið að ræða stórar kvíar, mikil mannvirki, sem gætu verið með framleiðslu upp á allt að 25.000 tonn á ári, hver kví. Menn eru komnir í slíkar hugmyndir og mig grunar að þær hugmyndir hafi komið úr olíuiðnaðinum. Gríðarlegur fjöldi verkfræðinga í Noregi var að vinna við olíuna fyrir nokkrum árum en fór yfir í fiskeldi. Það er því margt í gangi. Fjórði kosturinn er síðan landeldi sem hefur líka verið töluvert í umræðu. Það er mjög fróðlegt að fá þetta fram, að ræða við helstu vísindamenn Noregs á þessu sviði um mismunandi eldi og hvernig menn sjá framtíðina í þessu, hvað sé mögulega hægt að gera.

Þar eru menn farnir að horfa alveg fram til 2050, til næstu 30 ára, og í öllu þessu máli eru margar breytur, hvernig menn horfa helst til þessara þátta. Þess vegna er áhugavert að hugsa um hlutina út frá samkeppnishæfni til lengri tíma og velta því upp í stóru myndinni. Í Noregi skipta þeir svæðunum í 13 hluta og þróunin virðist hafa verið „undan ströndum“ á síðustu árum og áratugum. Bestu svæðin eru alltaf norðar og norðar í Noregi þar sem sjávarhiti hefur vaxið mjög syðst og sjórinn hlýnað eftir því sem norðar hefur dregið og svæðin orðið betri og betri þar. Það er svolítið fróðlegt ef maður hugsar til lengri tíma með sjávarhita við Ísland og þau skilyrði. Töluverð umræða var á fundum okkar úti, t.d. um Finnmörku, hvernig þetta væri með tilliti til náttúrulegra aðstæðna. Finnmörk virðist vera að koma betur og betur inn, þ.e. Norður-Noregur, í þessu tilliti.

Ef við komum aftur heim finnst mér gríðarlega mikilvægt að við gefum ekki afslátt af umhverfisþáttunum sem snúa að fiskeldinu og þeirri sjálfbærni sem við leitum ávallt að, sem snýr að því að umhverfislegir, samfélagslegir og efnahagslegir þættir séu leiðarstefið í þessari vinnu. Það er líka greinilegt þegar við lítum á þessi stóru framleiðslulönd, eins og Noreg og Chile, að við förum aldrei að keppa við þau í magni, en grundvöllur okkar hlýtur alltaf að vera gæði. Þar virðist árangur vera að nást miðað við upplýsingar sem við höfum fengið. Íslenski laxinn sem hefur verið framleiddur í sjókvíaeldi hefur verið seldur á ágætu verði. Hann hefur verið vottaður og komist á góðan stað í sölu. Í Noregi hefur þetta kannski helst snúist um laxalúsina sem mikil umræða er um og síðan um sjúkdóma. Norðmenn leggja gríðarlega mikla vinnu í rannsóknir til að koma í veg fyrir þessa hluti en að sama skapi, eins og ég kom inn á, hefur hitinn í sjónum verið að breytast og þar með fjölgar laxalús. Ísland virðist að því leyti, ef við tölum um samkeppnishæfnina, vera að færast aðeins í átt til þess að vera samkeppnishæfara með tilliti til þessara þátta. Hér er t.d. minni laxalús en er í Noregi.

Síðan eru þættir sem má fabúlera um eins og stærð seiða. Þau hafa stækkað og stækkað. Menn byrjuðu með 30–40 gramma seiði í Noregi. Síðan eru menn að nálgast 100 grömmin og á Íslandi erum við með 100–150 gramma seiði. Síðan eru miklar hugmyndir og þegar ég tala um samkeppnishæfni hugsar maður til þess að leggja út stórseiði. Í Noregsferðinni var oft talað um SuperSmolt. Norðmenn telja að það geti verið umhverfislega mjög gott fyrir vöxtinn að stytta tímann í sjónum og horfa mjög til þess og líka vegna lífvænleika fisksins ef hann sleppur úr kvíum. Kannski væri mjög áhugavert að fá meiri hugsun á Íslandi sem snýr að möguleikum okkar í jarðhita og miklu og góðu, fersku og köldu vatni í þessa kvóta, hvort það gæti helst gert okkur samkeppnishæf í þessum iðnaði, í fiskeldinu, stór seiði sem við værum þá m.a. að nýta jarðhitann í.

Þegar við ræðum við þá sem stunda fiskeldi, vísindamenn og aðra, úti í Noregi kemur fram að rekstrarkostnaður og fjárfestingarkostnaður í hefðbundnu sjókvíaeldi er miklu lægri í dag, enn sem komið er, en við hina þættina, sérstaklega landeldi og lokaðar kvíar. Þetta er það sem við fengum upplýsingar um og vonandi fáum við enn meiri upplýsingar um þetta á næstu vikum í nefndinni til að meta hversu vænlegir hinir mismunandi þættir eru.

Það sem er sérstakt við umræðuna í atvinnuveganefnd er að þarna er verið að móta lög og stefnu fyrir nýja atvinnugrein á Íslandi til lengri tíma. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að nefndin sinni verkefninu af kostgæfni og fái til sín færustu vísindamenn. Ég hefði líka viljað skoða það að við á Íslandi fengjum jafnvel erlenda vísindamenn fyrir nefndina. Málið er af þeirri stærðargráðu að við gætum vel haft þörf fyrir erlenda sérfræðinga. Það kom mér satt að segja á óvart með NORS, rannsóknamiðstöðina í Noregi, að þar eru 100 vísindamenn sem fyrst og fremst eru í rannsóknum á fiskeldi, tengdum ánum og áhrifum á þær. Hjá norsku hafrannsóknastofnuninni er líka gríðarleg reynsla. Þetta eru tvær stofnanir sem eru með yfir 1.000 starfsmenn hvor og gríðarlega þekkingu á málefnum sem tengjast fiskeldi í Norðurhöfum, í Noregi og víðar.

Norðmenn lentu í miklum vandræðum með sitt fiskeldi. Það gerðu Chile-búar líka. Færeyingar eru þriðja þjóðin sem lenti í miklum vandræðum á sínum tíma með sitt fiskeldi. Í framhaldi af þessum erfiðleikum settu menn öfluga löggjöf og gjörbreyttu rekstri sínum. Við getum þá byggt uppbyggingu okkar á því að líta vel til þessara þátta þar sem lærdómskúrfan hjá þessum þjóðum nær yfir langan tíma og menn hafa þurft að takast á við gríðarlega mikla erfiðleika.

Það er gríðarlega mikilvægt að við missum ekki þessa umræðu í skotgrafirnar heldur að umræða verði almenn og góð þannig að við reynum a.m.k. að ná vandaðri umræðu og nálgumst hana með einhvers konar sátt um málefnið í heild sinni. Í dag er umræðan í skotgröfum, það verður að viðurkennast. Það er gríðarlega mikilvægt að ná eins víðtækri og góðri sátt í þessu stóra máli og mögulegt er og að ráðgjöf vísindamanna sé höfð að leiðarljósi í málinu.

Eins og ég sagði fyrr í ræðunni er mikilvægt til að breikka starf atvinnuveganefndar að við náum að kalla til erlenda sérfræðinga á þessu sviði, kannski í einstökum þáttum. Það á eftir að koma í ljós í vinnu nefndarinnar hvernig menn vilja nálgast það.

Gríðarlegar tæknibreytingar hafa orðið og tækninýjungar komið fram í eldi þessi 50 ár í Noregi. Minn grunur er sá að fjórða iðnbyltingin eigi líka eftir að koma ansi mikið inn í þetta eldi. Þá þurfa menn líka að gera sér grein fyrir því hvernig hún mun koma til og hvernig hægt sé að nýta hana. Ég tel að á komandi árum og áratugum verði mikil áhrif frá fjórðu iðnbyltingunni í fiskeldið.

Það er rétt að bæta við nokkru um veiðiréttarhafana. Í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar áðan kom fram að 69% af afkomu bænda í Borgarfirði koma af tekjum af veiðirétti í ánum. Það eru landsvæði vítt og breitt og þetta er ákveðin byggðafesta í sveitum sem tengist þessu. Þá vil ég ítreka tengt þessu hversu mikilvægt er að sáttin sé sem mest.

Við höfum líka séð hversu mikil áhrif hin gríðarlega fjárfesting á Vestfjörðum og Austurlandi hefur haft, sérstaklega á Vestfjörðunum. Þar fóru menn þrem til fjórum árum fyrr af stað. Þar höfum við séð gríðarlegar breytingar á atvinnuháttum og atvinnusköpun á svæðunum. Á Íslandi er sífellt talað um lífskjör og að mikilvægt sé að byggja upp nýjar atvinnugreinar á sjálfbærum grunni. Árið 2017 var framleitt í fiskeldi í heiminum meira en við veiðum í höfum heimsins. Reiknað er með því að á næstu áratugum verði fyrst og fremst aukning í fiskmeti vegna eldis, að menn séu mögulega komnir að hámarki í veiði í heimshöfunum.

Það kom líka fram varðandi eldi að helmingurinn er fóðurkostnaður og að í Noregi hafa menn áhyggjur af fóðrinu. Í fóðurgerð þarf ákveðin hráefni og vísindamenn létu í ljós áhyggjur af því hvernig menn ætla að ná þeim markmiðum að fimmfalda eldi til 2050, en menn sjá fyrir sér að fara með það upp í 5 milljónir tonna. Það er svo ótal margt í stóru myndinni sem menn þurfa að horfa til.

Ég verð að segja að ferðin til Noregs var til mikillar fyrirmyndar fyrir þingnefnd og þingið. Þetta er eitt það besta sem ég hef orðið vitni að í þinginu, að leggja af stað í nefndarvinnu í svona stóru málefni, grundvallarmálefni, og fá bestu kynningar vísindamanna vítt og breitt í Noregi og alla þá þekkingu sem þeir hafa byggt upp í 50 ár í kringum þessa atvinnugrein. Ég hlakka svo sannarlega til hinnar efnislegu umræðu í 2. umr. um þetta mál. (Forseti hringir.) Ég vona að við náum góðri sátt um málið vegna þess að sáttin er það sem þetta mál snýst að töluvert miklu leyti um og það er gríðarlega mikilvægt að ná henni fram.