149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[18:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og vil taka undir hans almennu viðhorf um mikilvægi gagnsæis og upplýsingagjafar í matvælaframleiðslu.

Hv. þingmaður minntist á að við hefðum verið saman í ferð í Noregi. Það var ekki bara gagnlegt heldur líka ánægjulegt. Við lærðum margt. Eitt af því sem við lærðum var að Norðmenn beita ýmiss konar tækni sem orðið hefur til og mótast í olíuiðnaðinum, m.a. af því tagi sem hv. þingmaður gat um, alls konar vöktun og myndatökur og annað sem auðvitað nýtist mjög vel og er mjög gagnlegt og þýðingarmikið, líka þegar kemur að slysum eins og þegar laxar sleppa af einhverjum ástæðum. Sömuleiðis á það við um að vakta ár í nágrenni eldisins.

Það er annað sem við lærðum þarna og fengum kannski mjög beint í æð, ef ég má leyfa mér að orða það þannig, og það er að Norðmenn spara sig hvergi þegar kemur að rannsóknum í þessari grein og leggja höfuðáherslu á mikilvægi rannsókna sem undirstöðu atvinnugreinarinnar. Þetta er mjög mikilvægt. Þetta á ekki bara við um fiskeldi. Við erum stundum að tala um það hér hversu mikilvægt það er fyrir framvindu ferðaþjónustunnar til að mynda að hún styðjist við traustar upplýsingar og rannsóknir á hverjum tíma. Það er auðvitað leiðin til að fleyta fram atvinnugreinum eins og þessum mikilvægu atvinnugreinum sem hér um ræðir.

Ég ætla bara að ljúka máli mínu með því að segja að ég hlakka til samstarfsins við hv. þingmann og aðra hv. nefndarmenn í atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) um þetta mikilvæga mál.