149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir upplýsingagjöf hennar til þingsins sem beðið hefur verið eftir, þótt vissulega hafi hæstv. forsætisráðherra ekki skorast undan því að svara fjölmiðlum að undanförnu. Ég tek þennan dóm mjög alvarlega rétt eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin gerði. Þess vegna var líka ánægjulegt að heyra að hæstv. forsætisráðherra tók ekki undir orð annarra ráðherra sem fóru í þann leiðangur að tala niður Mannréttindadómstól Evrópu og þær niðurstöður sem þaðan koma. Þessi dómur er algjörlega skýr. Skilaboð dómstólsins eru mjög alvarleg til okkar um að við verðum að tryggja sjálfstæði innlendra dómstóla. Þetta er algjör grundvallarréttur, algjört grundvallaratriði í réttarríkinu.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að ekki mætti fara í vanhugsaðar ráðstafanir en eftir því sem dagarnir líða hrúgast upp óafgreidd mál í Landsrétti og þar erum við oft og tíðum að tala um mjög viðkvæm mál — auðvitað alls konar mál en mörg hver eru mjög viðkvæm. Mig langar því í fyrri spurningu að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur til greina að verða við ákalli dómstólasýslunnar sem borið var fram fyrir helgi og áréttað í morgun um að nú þegar yrði farið í að skipa fjóra dómara til viðbótar í Landsrétt til að koma í veg fyrir að upp safnist mikill málahali með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir börn og aðra íbúa landsins?