149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil hins vegar segja það, og ítreka það sem ég sagði hér, að ég lít ekki svo á að þeir hæstv. ráðherrar sem hafa tjáð sig um þessi mál og hafa haft uppi sjónarmið um inntak þessa dóms séu með því að tala Mannréttindadómstólinn niður. Ég held einmitt að við þurfum að leyfa okkur að geta átt samtal um það hvaða mat við leggjum á rökstuðning og það er ekkert óeðlilegt við það.

Það var orðað á þann veg við mig í gær að hann væri mjög framsækinn í þeirri merkingu að hann er fordæmalaus, hann fer aðra leið en við höfum áður séð. Þá er mikilvægt að við gefum okkur þetta svigrúm til að eiga það samtal. Erum við sammála þeim röksemdum sem þarna eru undir og er þetta af þeim orsökum mál sem væri eðlilegt að skjóta áfram til efri deildar Mannréttindadómstólsins? Ég held að við eigum að gefa okkur það svigrúm að geta rætt það.

Hvað varðar þessa áskorun dómstólasýslunnar veit ég að henni hefur verið komið á framfæri beint við hæstv. dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra er með það í skoðun. Það liggur fyrir að Landsréttur hefur þegar brugðist við þannig að þessir fjórir dómarar, eins og ég nefndi hér áðan, taka ekki þátt í dómstörfum sem þýðir að dómurinn getur starfað með þeim 11 sem eftir eru. Ég átta mig algjörlega á því vinnuálagi sem hv. þingmaður nefndi þannig að ég veit að þetta mál er í skoðun hjá hæstv. dómsmálaráðherra. Það kemur líka vafalaust fram í máli hennar hér á eftir.