149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu. Ég tók sérstaklega eftir því að forsætisráðherra talaði um að við þyrftum að vanda okkur. Eðli málsins samkvæmt er það náttúrlega afskaplega mikilvægt því að við munum senda skilaboð út í alþjóðasamfélagið um okkar viðbrögð gagnvart þessum áfellisdómi sem var ekki síst beint að Alþingi og hvernig ákvarðanatakan var hér um skipan í Landsrétt.

Fyrst og síðast er náttúrlega verið að tala um þessa fjóra. Við erum að tala um að fá sérfræðinga til að segja okkur hvernig við eigum að halda áfram skipan í Landsrétt. Eru þessir 11 dómarar sem óumdeilt voru tilnefndir af hæfisnefndinni og Alþingi greiddi atkvæði um í þessum eina pakka, eins og þetta var borið upp á sínum tíma, hafnir yfir allan vafa, er hafið yfir allan vafa að það muni vera gilt? Er hafið yfir allan vafa að með því munum við skapa ákveðið réttaröryggi og það verði í lagi með þá dóma sem verða felldir hér eftir ef slík skipan á að vera á málum?

Eins og ég horfi á það tekur dómur Mannréttindadómstólsins af allan vafa um að hér hafi ekki verið staðið rétt að málum á hinu háa Alþingi. Það hefði átt að greiða atkvæði um hvern og einn fyrir sig. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki eðlilegt, miðað við fallinn dóm, að við tækjum virkilega til hendinni og byrjuðum á því að greiða atkvæði samkvæmt þeim reglum og lögum sem Alþingi á að gera, að við berum upp hvern og einn dómara í Landsrétt alveg upp á nýtt?