149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Já, það er sannarlega ástæða til þess ef við ætlum virkilega að vanda okkur núna og geta sagt með góðri samvisku að við höfum í rauninni gert allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við dóm Mannréttindadómstólsins. Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir okkur, löggjafanum í landinu. Það er nokkuð ljóst.

Það er líka hafið yfir vafa að það verður sérstaklega að taka út fyrir sviga þá fjóra dómara sem þáverandi ráðherra dómsmála skipaði á sínum tíma.

En enn og aftur, til að vera nokkuð viss, til þess að geta sagt að það sé hafið yfir allan vafa, finnst ráðherra ekki ástæða til þess a.m.k. að leggja sérstaka áherslu á að kosið verði um hvern og einn dómara í Landsrétti bara alveg upp á nýtt, til að tryggja réttaröryggi í landinu? Alveg upp á nýtt, eins og lög og reglur segja til um?