149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ísland hefur líklega verið aðili að Mannréttindadómstólnum síðan 1950. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan hvaða áhrif hann hefur haft, m.a. á innlenda löggjöf og innlenda stjórnarskrá. Það er við hæfi að rifja það upp að þær stjórnarskrárbreytingar fóru hér í gegnum Alþingi. Ég gat þess að fyrrverandi þingmaður, Geir H. Haarde, hefði mælt fyrir þeim breytingum og það var undir forsæti Davíðs Oddssonar á þeim tíma. Þessi sáttmáli á sér því að sjálfsögðu víðtækan stuðning þvert á litróf stjórnmálanna og ég tel enga ástæðu til að draga það í efa.

Ég held hins vegar að það sé allt í lagi að ræða það sem kemur fram í téðu minnihlutaáliti, ekki að ég sé orðin einhver sérstakur talsmaður þess álits, mér finnst bara mikilvægt að við vegum það og metum líka í allri þessari umræðu. Þar er einmitt rætt um það hversu langt er við hæfi að ganga gagnvart rétti viðkomandi landa af hálfu Mannréttindadómstólsins. Það er umræðan sem er tekin til skoðunar þar. Mér finnst ekkert að því, og það er það sem ég var að segja í minni ræðu, að við ræðum það. Að því leytinu til telst þessi dómur það sem kallað var framsækinn eða brattur eða hvaða orðalag sem við notum, því að hann gengur lengra í þá átt en áður hefur verið gert eftir því sem mér er sagt af þeim sem gerst til þekkja. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við eigum samtal um það án þess að það snúist um að við séum að snúa frá skuldbindingum okkar því að það erum við ekki að gera, ef hv. þingmaður er að spyrja eftir því.