149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa yfirferð. Hæstv. ráðherra hvatti þingheim til að standa saman og fara ekki í skotgrafir. Það er föðurleg og góð hvatning í alvarlegu máli. En það er hins vegar áhyggjuefni að það er greinilega áherslumunur innan ríkisstjórnarinnar á túlkun dómsins og viðhorfi til Mannréttindadómstólsins almennt. Það er t.d. ekki samhljómur milli þess sem við höfum heyrt í fjölmiðlum frá hæstv. fjármálaráðherra og síðan hæstv. forsætisráðherra. Þetta er áhyggjuefni á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra hvetur þingheim til að standa saman.

Dómurinn er áfellisdómur yfir störfum Alþingis jafnt sem framkvæmdarvaldsins. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða ályktun hún dragi af þeirri gagnrýni sem kemur fram í dómnum — og dómurinn er skýr — á störf Alþingis, sem felst í því að atkvæði voru greidd um öll dómaraefnin 15 en ekki hvern og einn.