149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Þetta mál snýst um einfalt en ákaflega mikilvægt grundvallaratriði, að enginn vafi leiki á að skipan dómara sé í samræmi við lög. Þar skipum við okkur í sveit með þeim þjóðum, þeim lýðræðisríkjum, sem vilja að mannréttindi séu virt í hvívetna og aðgreining ríkisvaldsins í hávegum höfð. Þar leikur sjálfstæði dómstóla auðvitað lykilhlutverk. Þrjú dómstig hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið að lögum við skipan Landsréttar. Það var niðurstaða héraðsdóms, það var niðurstaða Hæstaréttar og nú liggur niðurstaða Mannréttindadómstólsins sama efnis fyrir. Þetta er það grundvallaratriði sem málið snýst um.

Dómstóllinn gengur vissulega lengra en Hæstiréttur og kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem ekki hafi verið farið að lögum sé skipan dómara ólögmæt og Ísland hafi þar með gerst brotlegt við 6. gr. mannréttindasáttmálans. Sú niðurstaða þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart í ljósi þess grundvallaratriðis sem er undir, að við skipan dómara sé farið að lögum. Það þarf kannski ekki að koma sérstaklega á óvart, sér í lagi í ljósi þeirrar þróunar sem við sjáum í sumum ríkjum álfunnar, þar sem mjög er sótt að sjálfstæði dómstóla, að Mannréttindadómstóllinn hafi dregið skýra línu í sandinn í þessum efnum. Kannski viljum við að þessi dómur hafi einmitt þetta skýra fordæmisgildi sem hér er svo gjarnan talað um í umræðunni og að við sem lýðræðisríki styðjum það fordæmi sem hann hefur skapað.

Málið snýst á endanum um sjálfstæði dómstóla og að ekki leiki vafi á að í þá sé skipað í samræmi við lög. Þetta eru þær leikreglur sem við höfum skuldbundið okkur til að starfa eftir. Þeir sem á undan okkur hafa setið í þessum sal hafa haft þá framsýni að skipa okkur í sveit með þeim ríkjum sem barist hafa fyrir frelsi og almennum mannréttindum, m.a. með aðildinni að mannréttindasáttmála Evrópu. Ég vona svo sannarlega að enginn vafi leiki á því hér í þessum sal að við hyggjumst áfram fylgja þeirri stefnu af einurð.

Það er vert að hafa í huga það grundvallarhlutverk Mannréttindadómstólsins að vernda hagsmuni borgaranna gegn ágangi ríkisvaldsins og valdníðslu. Síðustu vikuna hefur ítrekað verið talað um að niðurstöður dómstólsins séu tæknilega séð ekki bindandi hérlendis og að það að hlíta þeim feli í sér einhvers konar framsal á fullveldi landsins. Þessi orðræða er verulega varhugaverð, svo að ekki sé meira sagt. Mannréttindadómstóllinn var einmitt stofnaður til að hafa umsjón með mannréttindasáttmála Evrópu og að honum væri fylgt í aðildarríkjunum, að ganga úr skugga um að landslög og ríkisvaldið í aðildarríkjunum brytu ekki gegn mannréttindum þeim sem fram koma í sáttmálanum. Hann var líka settur á fót til að tryggja að mannréttindi væru ekki aðeins í orði heldur líka á borði. Orðræða þess efnis að Mannréttindadómstóllinn eigi enga lögsögu hérlendis og að það eitt að hlíta niðurstöðum þessa alþjóðlega batterís — við höfum, nota bene, verið hluti af því frá stofnun, og við eigum dómara við dómstólinn — sé einhvers konar framsal fullveldisins er auðvitað ekkert annað en bull.

En hvað er það sem verið er að kvarta undan og framsal hvaða réttinda er verið að tala um? Þegar talað er um að verið sé að framselja fullveldi landsins til Mannréttindadómstólsins er í raun verið að kvarta undan því að verið sé að hefta rétt íslenska ríkisins til að brjóta gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum borgara sinna. Á þessum grunni hefur mönnum orðið tíðrætt um að vísa málinu til yfirdóms Mannréttindadómstólsins í ljósi þess hversu fordæmalaust mál sé hér um að ræða. En þær staðhæfingar vekja upp tvær spurningar. Í fyrsta lagi mætti spyrja: Ef málið hefur svona mikið fordæmisgildi fyrir dómstólinn og dómaframkvæmd, af hverju óskaði dómurinn sjálfur ekki eftir því að málið yrði tekið upp í yfirdómi eins og hann hefur heimild til? Mál geta nefnilega endað þar af tveimur ástæðum, annars vegar vegna þess að aðilar máls fari fram á það og hins vegar vegna þess að dómurinn fari fram á það. En dómurinn taldi greinilega ekki þörf á að vísa málinu áfram og það er kannski einmitt vegna spurningar númer tvö — þ.e. ef málið var virkilega svona byltingarkennt, hvernig í ósköpunum tókst meiri hlutanum í málinu að vísa í yfir tíu dómafordæmi í málinu? Ef við tökum þetta tvennt saman, að dómnum tekst að vísa í fleiri dómafordæmi í niðurstöðunni og telur ekki þörf á að vísa málinu til yfirdóms, bendir það kannski til þess að málið sé ekki jafn fordæmisgefandi og af er látið.

Við hljótum því að gaumgæfa vandlega hvort rík ástæða sé til áfrýjunar líkt og haldið hefur verið fram eða hvort ekki sé mikilvægara, með hagsmuni réttarríkisins að leiðarljósi, að við einhendum okkur í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að treysta stöðu Landsréttar á nýjan leik og tryggja að enginn vafi leiki á lögmæti skipunar dómsins. Við þurfum líka að draga víðtæka lærdóma af þessu máli. Við þurfum að ræða hvernig við hyggjumst standa að skipan dómara til framtíðar, hvert skuli vera hlutverk ráðherra, hæfisnefnda og Alþingis við slíka skipan og tryggja að festa ríki í þeim hæfisviðmiðum sem stuðst skuli við hverju sinni en þeim ekki breytt eftir hentugleika.

Ég fagna orðum hæstv. forsætisráðherra þess efnis að ástæða sé til að staldra við og tryggja að næstu skref verði stigin af yfirvegun og vandlega skoðuðu máli. Það hafa verið gerð nægjanlega mikil og alvarleg mistök í þessu máli. Ég treysti því að um það geti skapast gott þverpólitískt samstarf og að allir valkostir verði uppi á borði en ekki gengið að neinni niðurstöðu sem fyrirframgefinni, þar með talið vangaveltum um að skjóta málinu til yfirdóms.