149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mér hefur eiginlega þótt skærasta ljósið í rökkrinu í kringum allt þetta mál hvað ég hef greint mikla eindrægni hér í þessari umræðu um að við þurfum að taka höndum saman í viðbrögðum okkar við því. Það er ánægjulegt að heyra það. Fólk getur haft einhvern meiningarmun um nákvæmlega í hvaða átt eigi að stefna, á hvaða sérfræðinga eigi að hlusta, haft jafnvel þær skoðanir að þessu beri að lyfta hærra en hinu, en ég greini ekki annað en mikla eindrægni um að þessi mál verði tekin alvarlega og að viðbrögðin endurspegli það. Það ætti í sjálfu sér heldur ekki að koma neinum á óvart, og alls ekki okkur sem vorum viðstödd umræðuna hér árið 2017. Hún var líka mjög alvöruþrungin þegar greidd voru atkvæði um dómara í nýtt dómstig. Við sem tókum þátt í þeirri atkvæðagreiðslu, og eins margir sem fylgdust með henni, skynjuðum það vel og við töluðum mörg um að þetta væri stór stund sem við ættum eftir að bíta úr nálinni með eins og hefur reynst raunin.

Við töluðum mörg fyrir því þá að við ættum að gefa okkur meiri tíma. Við vildum fresta málinu þannig að það kæmi betri rökstuðningur og að betur væri um málið búið. Því miður varð það ekki ofan á, heldur ákvað þáverandi stjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að fara aðra leið og við erum að ræða hér afleiðingar þeirrar ákvörðunar allrar og málsins eins og það hefur þróast síðan þá. Þess vegna finnst mér mjög gott að upplifa þessa eindrægni í öllum hér núna og ég horfi björtum augum fram á það hvernig við getum tekist á við þessa stöðu.

Mér finnst verkefni okkar einfalt þó að niðurstaðan í því sem við veljum á endanum geti orðið mjög flókin. Verkefni okkar er að bregðast við þessum dómi. Sú umræða hefur einhvern veginn farið að mínu viti út og suður, það sem við höfum áður séð af og til hérna síðan þessi dómur féll, að ræða um Mannréttindadómstólinn í heild sinni, mannréttindasáttmálann og einhver orð sem hafa fallið hér eða þar og einhver hefur þessa skoðun og annar hina. Mér finnst þetta algjört aukaatriði.

Ég get þó sagt hér, hef sagt það áður og hélt að samstaða væri þar um, að Mannréttindadómstóll Evrópu er ein af mikilvægustu stofnunum sem við eigum aðild að. Hingað til lands hafa komið gríðarlega miklar réttarbætur í gegnum aðild okkar þar.

Ég starfaði lengi vel sem blaðamaður. Sú stétt þekkir vel mikilvægi Mannréttindadómstóls Evrópu því að þar á bæ hafa menn oft og tíðum haft nútímalegri og framsæknari viðhorf til blaðamennsku en íslenskir dómstólar hafa stundum haft. Við höfum því sótt mikið í þann rann. Og svo er alvarleiki dómsins okkur öllum skýr, það þarf ekki annað en að hlusta á umræðuna hér. Það er alveg ljóst að þetta er dómur sem snertir allar þrjár greinar ríkisvaldsins. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það hversu alvarlegur slíkur dómur er og hve víðfeðm viðbrögðin við slíkum dómi þurfa að verða. Slíkum vinnubrögðum er ekki hægt að flagga og ekki réttlátt að kalla eftir einn, tveir og þrír um leið og dómurinn er fallinn. Mér fyndust það ófagleg vinnubrögð ef nákvæmlega núna lægi fyrir hvernig ætti að bregðast við niðurstöðu þessa dóms.

Það hefur verið málflutningur okkar í Vinstri grænum alveg frá því að þetta mál kom upp að við eigum að hlusta á sérfræðinga, alveg frá því að þetta mál var rætt á þinginu 2016–2017. Við hefðum átt að hlusta á sérfræðinga varðandi listana þá, og nú eigum við að afla okkur þekkingar og tillagna frá okkar bestu sérfræðingum. Það er akkúrat það sem verið er að gera og hæstv. forsætisráðherra kynnti áðan.

Ráðherra hefur axlað pólitíska ábyrgð, er ekki lengur ráðherra dómsmála.

Ég talaði um einfalt verkefni en um leið hvað það væri flókið því að ekki eru allir sammála um hversu víðtækar ályktanir er hægt að draga af þessum dómi. Það er eitt af því sem þeir sérfræðingar sem ég er svo ánægður með að hafi verið kallaðir til skrafs og ráðagerða eru að setjast yfir. Hvað er hægt að draga víðtækar ályktanir af dómnum? Hvaða viðbrögð þarf að fara í strax? Erum við að tala um fjóra dómara, 11, 15, allt þetta sem við höfum rætt hér? Í þessum málum eigum við að hlusta á okkar færasta fólk. Svo getum við rætt og tekið afstöðu til þeirra því að viðbrögðin hljóta líka að vera í ákveðnum skrefum. Til sumra þarf að grípa fyrr en annarra.

Eitt af því sem verið er að skoða er hvort skjóta eigi þessu máli áfram. Hvaða áhrif myndi það hafa á stöðu Landsréttar? Það þarf að tryggja eðlilegt umhverfi dómstólanna, óháð allri ákvarðanatöku, bæði hvað þetta varðar og annað. Eins og ég nefndi áðan og við höfum svo sem fleiri komið inn á hér snertir þetta allar þrjár greinar ríkisvaldsins þannig að við getum rétt ímyndað okkur hvað viðbrögðin þurfa að vera víðfeðm. Um þau þarf að nást sátt að mínu viti og ekki hefur verið boðað annað en að það sé það sem við erum að vinna að.

Verkefni okkar er að bregðast við þessu og vanda vel til verka. Við þurfum að bregðast við dómnum, grípa til einstakra aðgerða sem hann knýr okkur til að gera, en okkar verkefni er ekki síst það að reisa við traust til dómskerfisins. Það er ekkert smáverkefni, þar skiptir ekkert meira máli en að við vinnum saman að því verkefni. Einstaka uppsláttur og það sem við segjum um eitthvað sem við viljum að verði tekið eftir skiptir engu máli í því samhengi. Þar skiptir máli að vanda til verka og stíga varlega til jarðar.

Fyrr í þessari umræðu var talað um þverpólitíska sátt í þeim efnum. Ég er algjörlega sammála því en ég held að þetta sé ekki einu sinni bara það. Ég held að við þurfum að ná samfélagslegri sátt um hvernig við ætlum að bregðast við þessu. Þetta er verkefni okkar sem samfélags.

Þess vegna hef ég verið mjög ánægður með viðbrögð hæstv. forsætisráðherra í þessu máli. Þau hafa einkennst af því að það hefur verið gripið til þeirra ráðstafana sem hægt er að grípa til strax, kalla fagfólk að borðinu sem best þekkir málin og stunda þau faglegu vinnubrögð sem nauðsynleg eru þegar kemur að jafn stóru máli og þessu.