149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra skýrslu hennar og tel að hún hafi með orðum sínum slegið góðan tón í umræðunni.

Íslendingar munu ekki víkja sér undan skuldbindingum sem við höfum gengist undir að þjóðarétti. Í vissum skilningi hefur Landsréttur fullnustað dóm Mannréttindadómstólsins með því að ákveða að fjórir dómarar muni að svo stöddu ekki taka þátt í dómstörfum. Með því hefur Landsréttur skapað stjórnvöldum svigrúm til að vinna að úrlausn til frambúðar. Markmiðið hlýtur að vera að skjóta fullnægjandi stoðum undir Landsrétt svo að dómarar geti sinnt störfum sínum og að friður ríki um millidómstigið.

Rétt er að minna á að enginn hefur dregið í efa hæfni dómaranna sem Alþingi staðfesti að tillögu ráðherra. Það hlýtur að verða að kalla til færustu menn, eins og hæstv. forsætisráðherra rakti, og eftir atvikum leita eftir ráðgjöf ráðherranefndar Evrópuráðsins, ef svo ber undir, en hún hefur með höndum eftirlit með því að dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sé framfylgt. Lofsvert er að hæstv. forsætisráðherra boðar samráð milli flokka. Varast ber að hrapa að ákvörðunum, t.d. um að fjölga dómurum Landsréttar áður en allar leiðir í því efni hafa verið kannaðar til hlítar með það að markmiði að skapa Landsrétti viðunandi starfsgrundvöll. Um leið er brýnt að ekki verði ákveðið nema að vandlega athuguðu máli að áfrýja dómi Mannréttindadómstólsins. Fer því fjarri að augljóst sé að það sé vænlegur kostur. Áfrýjun kallar á langvinna óvissu, auk þess sem niðurstaðan er fjarri því að vera gefin fyrir fram.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu klofnaði og skiluðu tveir dómarar séráliti. Athygli vekur hve harðorð gagnrýni á dóm meiri hlutans kemur fram í minnihlutaálitinu. Nægir að nefna tvö atriði í því sambandi, að vikið sé frá viðurkenndri nálægðarreglu og dómurinn taki að einhverju leyti mið af pólitískum sjónarmiðum.

Nálægðarreglan felur í sér að dómstólum aðildarríkja er veitt ákveðið svigrúm sem takmarkast við að þeir fari ekki yfir ákveðin mörk. Slíku er ekki til að dreifa varðandi dóma innlendra dómstóla.

Allir valdþættir íslenska ríkisvaldsins hafa komið að skipun dómaranna við Landsrétt, framkvæmdarvaldið, Alþingi og Hæstiréttur, auk þess sem forseti Íslands undirritaði skipunarbréf þeirra eftir að hafa gert sérstaka rannsókn á málsmeðferð á vettvangi Alþingis. Nú liggur fyrir dómur þar sem vegna tiltekinna formgalla, sem síst skal gert lítið úr, er millidómstigið nánast skilið eftir í uppnámi í aðildarríki Mannréttindadómstólsins sem nýtur viðurkenningar sem lýðræðisríki og réttarríki.

Hitt atriðið sem vekur athygli í gagnrýni minni hluta dómaranna er að dómurinn endurómi pólitísk sjónarmið. Um þetta atriði má segja að vart er hægt að fella þyngri dóm um dóm en að hann litist af pólitískum sjónarmiðum eða stemningu. Málsatvik og lög eiga að ráða niðurstöðu dómstóla eins og allir vita.

Ég leyfi mér að lýsa þeirri skoðun að dóminn megi enn fremur gagnrýna fyrir skort á gagnrýni á vinnubrögðum valnefndar sem meiri hlutinn segir skipaðan sérfræðingum þrátt fyrir að ekki séu allir nefndarmenn lærðir í lögvísindum. Enda þótt reiknaður munur á umsækjendum hafi ekki mælst nema í öðrum eða þriðja aukastaf og að sleppt væri mikilvægum matsþáttum um störf dómara með því að gefa öllum umsækjendum sömu einkunn fyrir þessa þætti afhenti nefndin ráðherra lista með 15 nöfnum, jafn mörgum og skipa átti, og gaf þannig ráðherra ekkert svigrúm til vals milli hæfra umsækjenda. Ef til vill hefði ekki þurft kunnáttu á neinu sviði til að gera sér grein fyrir að skipun 15 dómara þar sem kynjamunur væri tveir þriðju á móti einum þriðja fengi ekki stuðning á Alþingi sem heldur reyndist ekki raunin.

Herra forseti. Ég vil að lokum lýsa því áliti að fullt tilefni er til þess að fyrirkomulag við skipun dómara verði endurskoðað. Hér verður að finna hóflegan meðalveg þar sem þess er gætt að þjóðfélagsvald sé ekki lagt í hendur aðila sem engri ábyrgð verður komið yfir. Meginatriðið fram undan eftir dóm Mannréttindadómstólsins er að leiða fram farsæla niðurstöðu sem samboðin er Íslandi sem lýðræðisríki og réttarríki.