149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:12]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Málið er ekki einfalt en ekki þess eðlis að við það verði ekki ráðið. Við eigum ekki að búa til örvæntingu eða skapa ringulreið. Málið er að sama skapi stærra en svo að hægt sé að setja það í einhvern flokkspólitískan búning. Við sem hér erum berum þó skyldu til að forðast pólitíska forarpytti eða færa umræðuna niður á enn lægra plan. Við þurfum að geta borið gæfu til að ræða málið af yfirvegun og komast að niðurstöðu um hvernig við viljum og teljum rétt að standa að skipun dómara til framtíðar. Aðeins þannig treystum við undirstöðu dómstóla sem frjálst samfélag þarf að treysta.

Til að setja málið í samhengi er áhugavert að skoða hvað fyrrverandi dómari Mannréttindadómstólsins, Davíð Þór Björgvinsson, skrifaði í grein um Landsréttarmálið sumarið 2018. Hann er nú einn dómara Landsréttar. Í grein sinni rekur Davíð Þór vandlega að skipun allra dómaranna við Landsrétt hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017 og vitnar í dóm Hæstaréttar sem tekið hafði málið fyrir. Þar kom fram að allir dómarar við Landsrétt hefðu fullnægt skilyrðum laga um að hljóta skipun í embætti, m.a. í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar, og að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi. Ég ætla að vitna hér í niðurstöðu fyrrnefndar greinar, með leyfi forseta:

„Í mjög stuttu og einfölduðu máli telur Hæstiréttur að þótt ráðherra hafi í aðdraganda skipunar A brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga væri A engu að síður lögum samkvæmt skipuð dómari við réttinn og hefði verið talin til þess [talin, er ranglega í greininni] hæf vegna reynslu sinnar og lagaþekkingar og bæri í krafti þess skyldur og nyti réttarstöðu sem slík eins og aðrir dómarar.“

Að mati æðsta dómstóls okkar Íslendinga, Hæstaréttar, er ekki hægt að efast um lögmæti Landsréttar eða þeirra dómara sem þar sitja.

Meiri hluti Mannréttindadómstólsins komst síðan að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið rétt staðið að málum við skipun dómara í Landsrétt og að brotin væru talin það veruleg að þau færu gegn 6. gr. sáttmálans. Þó er einnig ljóst að niðurstaða meiri hlutans er frekar óskýr og má draga þá ályktun af umræðu síðustu viku, þar sem fjölmargir hafa tjáð sig um niðurstöðu dómsins með mismunandi hætti, að enn sé talsvert óskýrt hver niðurstaðan er.

Lögfræðingar hafa líka varað við að ekki megi oftúlka niðurstöðuna. Í þessum orðum felst engin gagnrýni á Mannréttindadómstólinn sem stofnun heldur er eðlilegt að öllum steinum sé velt við í svona veigamiklu máli, máli sem mögulega kann að teygja sig til annarra ríkja Evrópu.

Mannréttindadómstóllinn hefur haft mikilvæg áhrif á íslenskt réttarkerfi og við höfum færst áfram veginn vegna hans. Við byggðum m.a. á sáttmálanum við gerð mannréttindakafla stjórnarskrár okkar 1995 og erum aðilar að samningnum af því að við viljum hafa dóma dómstólsins til hliðsjónar og að þeir hafi þýðingu fyrir okkur. Það er samt sem áður svo að hann hefur ekki bein réttaráhrif hér á landi. Og líkt og Davíð Þór Björgvinsson fer yfir í sömu grein, með leyfi forseta, „breytir áfellisdómur, ef svo fer, engu um að dómurinn yfir G stendur óhaggaður, enda er MDE ekki áfrýjunardómstóll sem getur fellt dóma dómstóla ríkja úr gildi. Sá dómur stendur nema mál G verði endurupptekið eftir þeim reglum sem gilda á Íslandi um endurupptöku mála“.

Virðulegi forseti. Sem fyrr segir er mikilvægt að taka á málum sem þessum af yfirvegun og ábyrgð. Það er auðvelt að skríða ofan í pólitískar skotgrafir og vonast til að skora nokkur stig, en það er erfiðara að horfast í augu við verkefnið og taka á málum af yfirvegun og ábyrgð. Áður hefur komið fram að eðlilegt sé að vísa málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins enda dómurinn fordæmalaus og minnihlutaálitið harðort í garð ákvörðunar meiri hlutans. Það gefur okkur ákveðna vísbendingu um þau mismunandi sjónarmið sem vissulega eru uppi í þessu máli.

Aftur er rétt að ítreka að þetta felur heldur ekki í sér gagnrýni á dómstólinn sem stofnun. Á meðan þetta ferli stendur yfir verður áfram leitað lausna og eftir atvikum brugðist við þeim álitaefnum sem blasa við. Það mikilvægasta er að Landsréttur geti starfað og að ekki sé uppi nein réttaróvissa í landinu. Hér reynir enn og aftur á ábyrgð Alþingis og okkar sem hér sitjum að stíga næstu skref af yfirvegun.

Hæstv. forseti. Við þingið berum ábyrgð á þessari stjórnarframkvæmd og við verðum að nýta tækifærið til að skoða hvernig best sé staðið að skipun dómara svo það sé hafið yfir alla gagnrýni, orki ekki tvímælis og valdi ekki deilum. Það er okkar verkefni að koma þessu ferli á þann stað. Ætlum við að láta aðra dómara velja sér starfsfélaga? Á hæfisnefndin að bera ábyrgð? Hvert er hlutverk ráðherrans og Alþingis? Viljum við að hægt sé að líta til fleiri sjónarmiða eins og dómarareynslu og kannski kynjasjónarmiða? Viljum við að ákvörðun og þeim sem hana tekur fylgi ábyrgð?

Allt eru þetta spurningar sem við þurfum að velta upp og svara. En eitt er ljóst: Við verðum að láta fara saman ábyrgð og ákvörðun. Það er lykilatriði.