149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:44]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eftir þessa umræðu er ég hjartanlega sammála því sem hefur komið fram í máli langflestra; það er langfarsælast að taka skipan dómara upp úr pólitískum skotgröfum. Eina leiðin til að gera það er að takmarka vald ráðherra og stjórnarflokka og annarra til að skipa dómara pólitískt. Það er eina leiðin til að taka þetta mál upp úr pólitískum skotgröfum.

Þegar reynt er að skipa dómara pólitískt förum við sem erum í pólitík í það að vernda og efla borgararéttindi, þessi grundvallarréttindi borgaranna, í þessu tilfelli að koma fyrir óvilhalla og óháða dómstóla, skipaða að lögum, og þá förum við að sjálfsögðu í skotgrafirnar fyrir réttindi allra borgara.

Því miður hafa skipanir dómara verið flokkspólitískar mjög lengi og eflaust frá upphafi. Ef við horfum til Bandaríkjanna er það alltaf mjög pólitískt atriði hvernig verið er að skipa dómara.

Ráðherrar hafa ítrekað síðustu áratugi skipað dómara pólitískt og allir sem hafa fylgst með þjóðfélagsumræðunni hafa séð þennan bardaga eiga sér stað í samfélaginu. Við höfum að vísu verið á réttri vegferð síðustu ár þó að við séum ekki komin á leiðarenda, þ.e. að með lögum höfum við verið að ramma inn vald ráðherra með meira aðhaldi. Það er hæfisnefnd fyrir framan ráðherra um lausa varnagla, sem er gott. En ráðherra verður að rökstyðja þegar hann breytir og að það sé sá hæfasti sem hann ætlar að setja inn. Það var einmitt það sem við gagnrýndum að ráðherra gerði ekki í þessu tilfelli og hefur verið dæmd í héraðsdómi, Hæstarétti og Mannréttindadómstóli fyrir að hafa brotið lög hvað varðar þá rannsókn. En af því að ráðherra rannsakaði það ekki og rökstyður það ekki getum við ekki vitað að ráðherra hafi farið að lögum við að skipa hæfustu dómarana. Já, þeir voru allir hæfir, en lögin segja að skipa eigi hæfustu dómarana og stjórnarskráin segir að skipa eigi dómara samkvæmt lögum.

En vegferðin er þessi og búið er að ramma þetta inn. Það dugði bara ekki. Hæfisnefndin var þarna fyrir framan, Alþingi fyrir aftan. Það dugði ekki. Öryggisventillinn á Bessastöðum virkaði ekki heldur. Sú lagaumgjörð sem við höfum dugði ekki til að koma í veg fyrir pólitískar skipanir dómara í þetta skiptið. En við erum á réttri vegferð, við skulum vona að við höldum henni áfram.

Sem betur fer var samt sem áður einn öryggisventill eftir, Mannréttindadómstóllinn í Evrópu, sem hefur með dómi sínum núna komið í veg fyrir að ráðherra gæti í þetta skiptið skipað dómara pólitískt, með öllum tilkostnaðinum að sjálfsögðu, sem þýðir að við verðum að setja betri lagaumgjörð um hvaða dómarar séu skipaðir þannig að enginn geti gert það pólitískt, dreifa valdinu víðar, vera með fleiri varnagla, kannski að 2/3 í þinginu þurfi að samþykkja það o.s.frv. Þá getum við komið í veg fyrir svona hluti. Þá getum við komið í veg fyrir að dómarar séu skipaðir pólitískt. Þá getum við tekið skipan dómara upp úr pólitísku skotgröfunum þar sem hún hefur alla tíð verið.

Ég mun vinna áfram að því að skipan dómara verði ekki pólitísk og styð alla viðleitni ríkisstjórnarinnar í því að við getum hafið þetta upp yfir pólitíkina.

Ef nýskipaður dómsmálaráðherra væri í alvöru til í að endurskoða lög um dómstóla til að takmarka möguleikann á því að dómarar séu skipaðir pólitískt færi hún mjög upp úr skotgröfunum strax í dag.