149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við munnlega skýrslu forsætisráðherra um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu um skipan dómara við Landsrétt. Við ræðum viðbrögðin, mögulega áfrýjun og valkosti í stöðunni.

Þegar hefur margt verið sagt hér sem ég get tekið undir, svo sem um þörf á vandaðri úrvinnslu, mikilvægi breiðrar sérfræðiráðgjafar, m.a. erlendis frá, og víðtæku samráði innan lands, þvert á stjórnmálin.

Mig langar að horfa til baka til þess tíma þegar við fjölluðum á 145. þingi um frumvarp það sem varð að lögum nr. 50/2016, um dómstóla. Þá var, eins og fram kemur í nefndaráliti, töluvert fjallað um hvort jafnréttislög giltu um dómstólana og mikilvægi þess að dómstólar endurspegluðu samfélagið betur hvað varðar hlutfall kynjanna en þeir gerðu þá. Mér finnst mikilvægt að við ræðum akkúrat það atriði hér, því að þar liggur a.m.k. ein rótin að því verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna.

Stofnun millidómstigs á Íslandi var risastórt og mikilvægt framfaraskref, en því miður náðum við ekki samstöðu, hvorki innan þings né utan, um leiðir til að ákveða í lögum gagnsætt ferli til að gæta jafnréttis við skipun dómara og að þar endurspeglaðist jafnframt ólík reynsla. Þó var kveðið á um jafnt kynjahlutfall í hæfisnefnd. Lá það ekki allan tímann í loftinu að við mat á hæfi væru líkur á að fleiri karlar röðuðust efst á hæfislistana ef viðmiðun um hæfi var ekki endurskilgreint á neinn hátt? Þurfum við ekki gagnsærri hæfisviðmið og markmið?

Einnig langar mig að vitna til vinnu og nefndarálits allsherjar- og menntamálanefndar á 146. þingi þar sem lögum um dómstóla var breytt og fjallað um hæfni dómnefnda. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hafi dómnefnd metið tvo eða fleiri umsækjendur jafn hæfa getur hins vegar reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun ráðherra um skipun dómara og leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Á milli þessara tveggja nefndarálita höfðu farið fram kosningar, eins og við vitum, og kannski varð eitthvert rof í samfellunni í umfjölluninni.

Ég tel mikilvægt að í þeirri vinnu sem nú er fram undan verði lagt mat á hvort hægt sé að tryggja ásættanlegt jafnrétti í hópi dómara til frambúðar í gagnsæju og traustu ferli.

Dómurinn sem við stöndum frammi fyrir er alvarlegur og nú þarf, eins og fram er komið, að vanda til verka, vinna fumlaust og tryggja að skipan dómara verði í framtíðinni hafin yfir allan vafa í samræmi við mannréttindi og lög. Gott er að finna að það kom fram í umræðunni að flestir eru sammála um að við verðum að vinna saman að þeim úrbótum.