149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef stuttan tíma í lok þessarar umræðu en vil þó þakka fyrir góða umræðu. Ég tel hv. þingmenn almennt nálgast þetta verkefni nákvæmlega eins og ég hafði óskað mér, þ.e. fólk lítur á það sem stærsta verkefnið að fara vandlega yfir málið, horfa til þess að Alþingi og stjórnvöld vinni saman að því markmiði að tryggja réttaröryggi, eyða óvissu og skapa langtímasátt um það hvernig staðið verður að skipan dómstóla. Ég er mjög jákvæð og bjartsýn eftir þann tón sem ég heyri hjá langflestum hv. þingmönnum í þeirri vinnu.

Ég hlýt hins vegar að gera athugasemd við það að ýmsir hv. þingmenn hafi sérstaklega viljað ræða fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Ég ítreka að hún hefur axlað pólitíska ábyrgð á málinu. Hún hefur vikið úr embætti. Ég hefði sjálf getað dvalið í pontu til að rifja upp atburðarás frá sumrinu 2017 en okkar verkefni núna er að horfa fram á veginn, leysa þann vanda sem við blasir. Eg held að það sé mjög mikilvægt.

Ég vil líka segja að einhverjir hv. þingmenn hafa misst af námskeiðinu í virkri hlustun og tóku ekki eftir því sem kom fram í máli mínu um það hvað var gert til undirbúnings þessum dómi. Það má ekki rugla því saman við það sem ég hef sagt um að dómurinn hafi komið mér á óvart vegna þess að hann sé fordæmalaus. Ekki má rugla því saman við að ekki hafi verið unnið að undirbúningi málsins. Ég veit að oft er erfitt að skilja mælt mál þannig að ég ítreka það einu sinni enn, svo að hv. þingmenn sem greinilega áttuðu sig ekki á því sem ég var að segja taki það inn.

Hér var nefnt að Ísland hefði aldrei vísað máli til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Við skulum átta okkur á því að í fyrsta lagi fara einungis 5% mála þangað og einungis ef yfirdeildin samþykkir, en það er hins vegar ekki óvanalegt að það sé gert. Frakkland hefur gert það á þessu ári, Belgía, Spánn og fleiri ríki. Það er því ekki eins og stríðshanska hafi verið kastað ef sú leið er farin.

Það kom skýrt fram hjá mér og hæstv. dómsmálaráðherra að slík ákvörðun er ekki tekin nema að undangengnu vönduðu mati á því hvað hún þýðir og því hvernig við getum tryggt að hún valdi ekki frekari óvissu hvað varðar almenning sem á sitt undir dómstólunum. Það eru stóru leiðarljósin. Auðvitað tel ég ýmsar spurningar hafa vaknað við yfirferð á dómnum sem lögfræðingar sem ég hef rætt við hafa bent mér á og væri áhugavert að fá endanlega skorið úr í yfirdeildinni. Þarna þurfum við einfaldlega að meta hvernig þeir hagsmunir fara saman og vanda okkur við það.

Ég vil segja að lokum að við munum standa við það (Forseti hringir.) sem við boðuðum í upphafi. Við munum eiga samráð við formenn flokka og upplýsa hver staða málsins er. Ég vænti þess Alþingi (Forseti hringir.) verði upplýst um framgang mála. Ég ítreka að ég fagna þeim tón sem ég heyri hjá langflestum þingmönnum.