149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

áhættumat við innflutning gæludýra.

[14:02]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Núverandi reglur gera ráð fyrir fjögurra vikna einangrunarvist þegar gæludýr eru flutt inn til landsins þrátt fyrir að allar bólusetningar liggi fyrir. Þetta er bæði kostnaðarsamt fyrir eigendur og erfitt fyrir dýrin sjálf.

Bara svo það komi fram skil ég vel sérstöðu Íslands sem eylands, en önnur eylönd, t.d. Nýja-Sjáland sem í raun býr við mjög svipaðar aðstæður og við, gerir einungis kröfu um tíu daga einangrunarvist.

Í september 2017 ákvað þáverandi ráðherra málaflokksins að ráðast í nýtt áhættumat, enda orðið ljóst að núgildandi reglur væru að öllum líkindum úreltar og samtímis íþyngjandi og strangar. Ráðuneytið fól óhlutdrægum erlendum sérfræðingi að vinna málið. Hins vegar átti þessi erlendi sérfræðingur að skila af sér niðurstöðum sínum í apríl 2018 og sá tími kom og fór án þess að nokkuð bólaði á áhættumatinu.

Í október 2018 beindi hv. þm. Þorgerður Katrín fyrirspurn til hæstv. ráðherra og spurðist fyrir um stöðu áhættumatsins. Svaraði ráðherra því á þeim tíma að skýrslan ætti að liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2018.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Hundaræktarfélags Íslands í janúar sl. kom fram að orsakir tafa áhættumatsins væru m.a. þær að upplýsingar skorti og að rannsóknarniðurstöður væru einfaldlega ekki til. Það verður að teljast nokkuð merkilegt að slíkar niðurstöður séu ekki til þar sem einangrunvistun sú sem er nú við lýði þar sem dýr eru einangruð í heilar fjórar vikur, verulega íþyngjandi ráðstöfun fyrir dýraeigendur og dýrin sjálf, hefði líklega átt að byggja á einhverjum rannsóknarniðurstöðum en ekki slumpi á nauðsynlegum einangrunartíma.

Nú eru rúmir tveir og hálfur mánuðir síðan skýrslan átti að liggja fyrir og því ítreka ég fyrirspurn okkar í Viðreisn og hundaeigenda almennt: Hvenær megum við búast við þessu áhættumati? Liggur skýrslan kannski nú þegar fyrir? Ef svo er ekki óska ég sömuleiðis eftir útskýringum á þeirri verulegu töf sem hefur orðið á málinu.