149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

áhættumat við innflutning gæludýra.

[14:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skal í rauninni ekkert segja til um það hvort við getum búist við lagabreytingum á grunni þeirrar vinnu sem við erum að bíða eftir. Ég geri ráð fyrir því að við leggjumst yfir þær niðurstöður sem út úr þessari löngu greiningu koma. Það er hins vegar óumdeilt í mínum huga að við Íslendingar þurfum að kappkosta að fara varlega í að breyta þeim reglum sem við höfum haft um þessi mál. Þau sjónarmið eru alveg tvímælalaust mjög rík hjá okkur. Við erum t.d. með einungis um 20 dýrasjúkdóma hér á landi í okkar búfénaði en við horfum upp á 120 á meginlandinu. Af öllum ástæðum ber okkur að fara varlega en með því er ég ekki að segja að ekki sé hægt að gera einhverjar breytingar á því regluverki sem fyrir er. Þar er langur vegur frá. En grunnurinn að þeim breytingum sem við munum þurfa að ræða og hugsanlega gera verður að vera sú greining sem við erum að bíða eftir og höfum beðið eftir allt of lengi að mínu mati. Ég deili skoðunum með hv. þingmanni í því efni.