149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hvað er okur? Er það okur að vörukarfa sé 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki? Er eðlilegt að eitt kíló af gulrótum sé 561% dýrara en í öðrum evrópskum borgum eða á Norðurlöndunum? Er eðlilegt að ákveðin tegund af osti sé 252% dýrari? Skinka 240% dýrari? Spagettí 238% dýrara? Kartöflur 215% dýrari?

Það er ekki furða að það sé illmögulegt fyrir þá sem þurfa að lifa á lægstu launum og lífeyri að eiga fyrir mat á Íslandi. Eins og framkvæmdastjóri IKEA benti svo réttilega á er mjög undarlegt að rúnnstykki sem kostar 36 kr. í framleiðslu sé selt á 100–160 kr.

Það sem sló mig þó mest er að það skuli vera hægt, án þess að nokkuð sé að gert, að selja rauðlauk ofan á pítsu á 600 kr., nokkur grömm af rauðlauk.

Hvað segir þetta um það umhverfi sem almenningur á að lifa í? Það er bara útilokað, við verðum að fara að taka á því og maður spyr sig: Er allt siðferði farið? Er ekkert siðferði í gangi? Má okra á neytendum eftirlitslaust?

Þá spyr ég: Hvernig getum við komið í veg fyrir það ef það má ekki?