149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[16:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og snýr þetta að táknmálstúlkum í dómskerfinu. Ég held að þetta sé gríðarlegt réttlætismál fyrir þann hóp sem hér um ræðir. Átta ár eru frá því að lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls voru sett árið 2011. Góðir hlutir gerast hægt og varlega, það er alveg örugglega hægt að segja í þessu máli, komin eru átta ár.

Með setningu þeirra laga stigu stjórnvöld stórt skref í átt að bættri stöðu íslensks táknmáls, en lögin ein og sér duga hins vegar ekki til að breyta og bæta stöðu íslensks táknmáls, heldur kalla lögin á áherslubreytingar víða í þjóðfélaginu eins og þetta frumvarp gerir í raun.

Í frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður greiði þóknun og annan kostnað vegna starfa táknmálstúlks í einkamálum og að ríkissjóður greiði jafnframt kostnað vegna starfa kunnáttumanna sem aðstoða þá sem ekki geta fyllilega haft orðaskipti á mæltu máli eða íslensku táknmáli. Svo eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála er varða skýrslutökur fyrir dómi og um skýrslutöku hjá lögreglu. Breytingarnar eru í samræmi við þær breytingar sem lagt er til að gera á lögum um meðferð einkamála um störf táknmálstúlka og kunnáttumanna og er ætlað að tryggja að ákvæði lagabálkanna tveggja um þetta efni séu sambærileg. Einnig eru lagðar til breytingar sem gera ráð fyrir þeim möguleika að í þeim tilvikum þegar stefndi tekur ekki til varna fyrir Landsrétti eða Hæstarétti Íslands verði mál þrátt fyrir það flutt munnlega.

Ég tek undir orð hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þegar hún talaði um að frumvarpið taki ekki til þess að þessi hópur geti reitt sig á táknmálstúlka fyrr í dómskerfinu við undirbúning á málum. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Ég veit ekki af hverju að þessi endi varð út undan. Ég er svolítið hissa á að þetta hafi ekki verið gert jafnhliða og undrast það reyndar. En í greinargerðinni frá dómsmálaráðuneytinu segir að það sé annars eðlis og nýtt frumvarp þurfi kannski að taka á því. Ég veit ekki af hverju má ekki gera það jafnhliða, því að ég held að það sé jafn mikilvægt, ef ekki jafnvel mikilvægara, að taka á þessu á fyrri stigum.

Talandi um táknmálstúlka, þetta er mjög viðkvæmur og lítill hópur sem snertir þetta mál, en kannski þarf að styrkja undirstöður þessa máls. Við erum að tala um að íslenskt táknmál var í raun bannað fram til 1980 í lögum, þó að ekki hafi kannski verið farið eftir því. En það kom út frá því að 1920 þróaðist raddmálsstefnan í skóla heyrnarlausra og náði hámarki eftir 1944 þegar allar bendingar og fingrastafrófið var bannað í kennslu barna, en sem betur fer höfum við öðlast þá víðsýni að við skiljum það að íslensk börn og aðstandendur þeirra þurfa að læra þetta alveg frá frumbernsku. Það skiptir gríðarlega miklu máli að komið sé að þessu með snemmtækri íhlutun. Talað er um að þessi hópur sé um 300 manns og síðan eru náttúrlega allir aðstandendur og skólar og slíkt sem margfalda þá tölu.

Við höfum líka talað um að táknmálið geti verið gríðarlega mikilvægt fyrir hópa sem missa jafnvel getu til að tala eða missa heyrn, að þeir sem missa heyrn á einhverju stigi á lífsævinni geti tjáð sig áfram með táknmáli. Það eru hópar fólks sem missa þann hæfileika að tala. Ég nefni t.d. MND-sjúklinga eða að talfærin lamist af einhverjum öðrum ástæðum. Þá væri mjög gott að geta leitað í táknmálið. Ég held að það verði alltaf um ókomna tíð þó að tækninni fleygi fram.

Talað er um að tvö heyrnarlaus börn fæðist á ári, en síðan er hægt að laga eða bæta aðstöðu þeirra með kuðungsígræðslu sem gerð er og hefur verið stunduð um árabil í Svíþjóð. Reyndar hefur það verið gert hér á landi líka. En ekki er öllum börnum hjálpað með því, eða öllu fólki sem er heyrnarlaust, en það skiptir þó máli. Það þarf samt að styðja við táknmálið. Táknmálið er talað af fólki víða um heim. Oft er talað um að táknmálið sé sjálfsprottið, einhver hafi sest niður og ákveðið að semja táknmál. En það er náttúrlega ekki svo. Táknmálið er reyndar sjálfsprottið má segja, því að við tölum öll frá fæðingu að vissu leyti táknmál í einhverjum skilningi þess orðs og það er svo aðlagað að þörfum hvers og eins. Hvert mál hefur sína sérstöðu eins og bara tungur heimsins.

Íslenska táknmálið er eina hefðbundna minnihlutamálið hér á landi en er lögbundið sem íslenskt og um 300 manns líta á það sem sitt móðurmál. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að við byggjum undir það í öllu, bæði í þjónustu og réttindum, að réttindi þessa hóps séu undirstrikuð. Ef við tölum um þau lög sem til eru um stöðu íslenskrar tungu þá segir í 8. gr. þeirra laga að þetta sé opinbert mál þessa hóps.

„Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

Þess vegna er þetta frumvarp sem lagt er fram átta árum seinna í beinu framhaldi af þessu. En átta ár langur tími, þannig að ég vona að önnur átta ár þurfi líði ekki áður en fram kemur frumvarp sem segir til um að fólk eigi rétt á táknmálstúlkun fyrr í dómskerfinu.

Í 9. gr. þeirra sömu laga segir, með leyfi forseta:

„Túlkun og táknmálstúlkun hjá stjórnvöldum.

Um rétt til túlkaþjónustu og skyldur dómstóla til að leita aðstoðar túlka og táknmálstúlka fer samkvæmt lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.

Stjórnvöld skulu leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli.“

Ég held því að þetta sé mjög mikilvægt fyrir þennan hóp og við þurfum svolítið að skoða bæði umhverfi okkar og lagasetningu hvað þetta varðar, að tryggja þessi réttindi í lagakerfinu hjá okkur, sérstaklega í opinberum stofnunum á öllum stigum, vegna þess að það er löngu viðurkennt sem íslensk tunga.

En ég kom aðallega hingað upp til að taka undir frumvarpið og vona að málið nái fram að ganga og vona að það verði sem fyrst að hitt komi í kjölfarið.

En að lokum vil ég segja að táknmál skiptir máli og það er töff að tala táknmál.