149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

657. mál
[17:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018. Í ákvörðuninni er mælt fyrir um að fjórar reglugerðir Evrópusambandsins sem varða evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði verði felldar inn í EES-samninginn.

Þar sem lagastoð var ekki fyrir hendi fyrir framangreindum gerðum var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB), nr. 345/2013, hefur að geyma sameiginlegt regluverk um evrópska áhættufjármagnssjóði og rekstraraðila þeirra. Í gerðinni er kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að unnt sé að markaðssetja sjóð sem evrópskan áhættufjármagnssjóð. Tilgangur reglugerðarinnar er að stuðla að vexti og nýsköpun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 346/2013 hefur að geyma sameiginlegt regluverk um evrópska félagslega framtakssjóði og rekstraraðila þeirra. Í gerðinni kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að unnt sé að markaðssetja sjóð sem evrópskan félagslegan framtakssjóð. Tilgangur reglugerðirnar er öðru fremur sá að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið að finna og velja evrópska félagslega framtakssjóði. Jafnframt að auðvelda fyrirtækjum með félagsleg markmið að sækja sér fjármagn á Evrópska efnahagssvæðinu. Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 593/2014 og 594/2014 er síðan kveðið á um nánari útfærslu á tveim fyrrnefndu reglugerðinni. Þar er m.a. mælt fyrir um á hvaða formi tilkynningar eftirlitsstjórnvalds skuli vera.

Innleiðing umræddra fjögurra reglugerða kallar á lagabreytingar hér á landi. Stefnt er að því að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvörp til innleiðingar gerðanna á komandi löggjafarþingi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.