149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

659. mál
[17:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 909/2014, er varðar bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og verðbréfamiðstöðvar, verði felld inn í EES-samninginn.

Umrædd reglugerð, nr. 909/2014, hefur að geyma reglur um bætt verðbréfauppgjör og samræmir kröfur sem gerðar eru til verðbréfamiðstöðva. Kveðið er á um að verðbréf skuli jafnan vera á rafrænu formi og að verðbréfauppgjör skuli fara fram á samræmdan hátt á innri markaðnum.

Þá er kveðið á um auknar skyldur verðbréfamiðstöðva til að tryggja og hafa eftirlit með uppgjörum og að tryggja að uppgjör skili sér. Með reglugerðinni eru einnig samræmdar kröfur verðbréfamiðstöðvar sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Starfandi verðbréfamiðstöðvar munu þurfa að sækja um nýtt starfsleyfi og geta boðið þjónustu sína yfir landamæri innan EES-svæðisins.

Innleiðing reglugerðar nr. 909/2014 kallar á lagabreytingar hér á landi. Fyrirhugað er að fjármála- og efnahagsráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram lagafrumvarp til innleiðingar á gerðinni.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.