149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

659. mál
[17:27]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans um þessa tilskipun sem fjallar um fjármálaþjónustu og staðfestir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Eins og svo oft áður þegar utanríkisráðherra kemur hingað í þingsal til að mæla fyrir þingsályktunartillögum sem varða upptöku reglugerða EES-samningsins er um að ræða mjög góð mál og þau varða oft og tíðum fjármálakerfið og efnahagslífið. Það er gott og vel. Hér er um að ræða reglur um bætt verðbréfauppgjör, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, sem samræma kröfur sem gerðar eru til verðbréfamiðstöðva. Einnig er kveðið á um að verðbréf skuli jafnan vera á rafrænu formi og að verðbréfauppgjör skuli fara fram á samræmdan hátt á innri markaðnum. Þá er einnig kveðið á um aukna skyldu verðbréfamiðstöðva til að tryggja og hafa eftirlit með uppgjörum og að tryggja að uppgjör skili sér. Þetta sem kemur fram í 3. kafla greinargerðarinnar og kom fram í máli hæstv. ráðherra sýnir svart á hvítu að með upptöku EES-samningsins og öllu því sem fylgir þeim samningi erum við að gera gríðarlega góðar bætur á lagalegu umhverfi, sér í lagi fjármálakerfisins. Það hefur einmitt hjálpað íslensku samfélagi á fæturna eftir efnahagshrunið 2008/2009.

Mig langar líka að vitna í ræðu hæstv. ráðherra sem hann hélt nýlega á morgunfundi utanríkisráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, um EES-samstarfið. Þar kom fram hjá ráðherra að EES-samningurinn felur í sér nánast óheftan aðgang að einum stærsta markaði heims. Hann felur í sér að íslensk fyrirtæki keppa á jafnræðisgrundvelli við evrópsk fyrirtæki. Hann felur í sér niðurfellingu tolla og afnám tæknilegra viðskiptahindrana og hann felur í sér að Íslendingar geti búið og unnið hvar sem er á EES-svæðinu.

Eins og ég minntist á í upphafi máls míns er um að ræða bætingu á lagalegu umhverfi og sér í lagi kannski síðustu árin þegar við höfum þurft heldur betur að bæta og staga umgjörð fjármálakerfisins. Ég er ekkert svo viss um að við hefðum haft frumkvæði að því sjálf að koma fram með frumvarp um að bæta verðbréfauppgjör og samræma kröfur sem gerðar eru til verðbréfamiðstöðva, verðbréf séu á rafrænu formi o.s.frv. Ekki er ég þar með að gera lítið úr okkur þingmönnum hér þegar kemur að þekkingu og reynslu af verðbréfamiðstöðvum eða innsýn okkar í þann heim eða vilja okkar til að bæta lagaumgjörð fjármálakerfisins og verðbréfamarkaða. En það er fyllilega ljóst að EES-samningurinn hefur gert að verkum að við stöndum jafnfætis á við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Við stöndum jafnfætis þegar kemur að þeim kröfum sem gerðar eru til fjármálakerfisins og við stöndum styrkum fótum þegar reynt hefur á það að styrkja okkar fjármálakerfi, verðbréfamiðstöðvar og umgjörð og lagalegan ramma fjármálakerfisins. Þá höfum við sannarlega notið liðsinnis EES-samningsins í þeirri vinnu.

Þó svo að, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, manni finnist oft eins og það taki svolítinn tíma frá því að reglugerðirnar hafa verið samþykktar og þangað til að við innleiðum þær í okkar lög er þetta nú heldur betur vel af sér vikið hjá okkur. En við þurfum að gera betur. Við þurfum að gera betur í því að leiða inn fleiri reglugerðir, fleiri mál. Eins og við höfum kannski rætt oft og iðulega í þingsal þurfum við líka að gera betur í hagsmunagæslu okkar á fyrri stigum þegar kemur að innleiðingum og reglugerðum sem tengjast EES-samningnum. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er með í liði þegar kemur að því og þetta er af hinu góða. Ég fagna öllum þessum reglugerðum og innleiðingum sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir.