149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Oft hefur verið vísað í minnihlutaálit Mannréttindadómstóls Evrópu vegna Landsréttarmálsins á undanförnum dögum sem einhvers konar tímamótaplaggs eða því um líkt. Í 9. gr. þessa minnihlutaálits eru taldar upp einar sjö röksemdafærslur fyrir því að sá minni hluti hafi rétt fyrir sér, en eins og sést augljóslega þegar farið er yfir þau rök standast þau enga skoðun.

Fyrsti punkturinn er að ráðherra hafði rétt til að breyta lista hæfisnefndar. Já, en það er háð mörgum skilyrðum.

Það þarf að rökstyðja mál sitt, það er annar punkturinn. Ráðherra rökstuddi tillögur sínar. Já, en það stenst enga skoðun. Það var augljóst að dómarareynsla passaði ekkert við. Dómarar duttu út en aðrir komu inn í staðinn. Reynslumeiri dómarar sem voru neðar á listanum komust ekki inn. Það stóðst ekki skoðun.

Alþingi samþykkti tillögu ráðherra er næsti punktur. Það hvítþvær ekki ráðherra af skyldum sínum eða afsakar að ráðherra leyndi Alþingi upplýsingum.

Næsti punktur er að allt sem ráðherra gerði, atkvæðagreiðslan á þingi og allt ferlið var gert á opinberan og gagnsæjan hátt þar sem þetta var mjög umrætt mál á Íslandi á þeim tíma. Já, nema hvað ráðherra leyndi þingið upplýsingum.

Næsti punktur er að forsetinn undirritaði listann. Aftur segi ég: Upplýsingum var haldið frá þinginu og upplýsingarnar sem forseti fékk frá þinginu um að það væri í lagi að kjósa allan listann í einu voru ekki réttar og ekki samkvæmt þeim ráðleggingum sem forseti Alþingis fékk áður en ákveðið var að kjósa listann í heilu lagi.

Skipun dómara var almenn samkvæmt formlegum reglum samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. Nei, samkvæmt dómsorði Hæstaréttar sjálfs var það ekki. Það var brot á framkvæmdinni.

Að lokum, sagt er að allir umsækjendur sem um er rætt hafi verið hæfir. Já, það er rétt en, nei, þeir voru ekki hæfastir.

Hver einn og einasti punktur sem þetta minnihlutaálit byggist á er auðhrekjanlegur út frá þeim upplýsingum (Forseti hringir.) sem við höfum og fengum. Við vorum leynd upplýsingum, það var brotið á í ferlinu. Þetta hrekur öll rök minnihlutaálitsins.