149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við lifum á tímum sundrungar, tímum þar sem einangrun og þjóðernishyggja stela fyrirsögnum trekk í trekk. Beggja vegna Atlantshafsins hefur popúlismi staðið uppi sem sigurvegari og nú situr fólk uppi með afleiðingarnar, stjórnmálamenn sem töluðu inn í veruleika sem aðrir höfðu litið fram hjá, veruleika ósátts almennings sem fannst hann útilokaður og hafði misst sjónar á ávinningi samvinnu og sameiningar.

Niðurstaðan er uppgangur sundrungar sem ekki sér enn fyrir endann á en við vitum samt sem áður nákvæmlega hvert hún leiðir okkur. Um alla álfuna má sjá minnisvarða hennar, sögu hinnar sundruðu og einangruðu Evrópu. Við reistum meira að segja söfn í útrýmingarbúðum í stað þess að rífa þær niður svo við myndum örugglega aldrei gleyma grýttri slóð fortíðarinnar. En samt eflist þjóðernishyggja. Samt halda ríki áfram að einangrast. Og Ísland er þar ekki undanskilið.

Hér fyrir utan voru haldin friðsamleg mótmæli í nokkra daga, en í stað þess að þingmenn ræddu kröfugerðina sjálfa á efnislegum nótum var varpað fram undarlegum spurningum um hvort mótmælendur mættu nota kirkjuklósett eða ekki. Alþingismenn eiga að vita betur en að gera upp á milli stjórnarskrárvarins réttar fólks eftir því hvort þeir hafi samúð með málstaðnum eða ekki. Rétturinn til að mótmæla stendur ekki og fellur með því hvort okkur líkar málstaðurinn. Rétturinn til að mótmæla stendur og fellur með lýðræðinu sjálfu.

Það eru mörg samfélagsleg vandamál sem þingið þarf að taka á og ræða til hlítar; málefni öryrkja, aldraðra en líka flóttafólks. Við getum rætt öll þessi mál og við eigum að gera það. En við eigum ekki að stilla fólki upp á móti hvert öðru eins og vaninn hefur orðið því að í því hugarfari felst sundrungin. Ef sagan kennir okkur eitthvað er það það að á henni græðir enginn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)