149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar að opna framtíðargluggann upp á smágátt og minna á það að einn þriðji jarðar er land og 37% af þessu landi eru nýtt til matvælaframleiðslu núna. Þetta hefur valdið gífurlegum umhverfisáhrifum, eyðingu skóga og útrýmingu lífvera. Við vitum það. Það þarf að auka matvælaframleiðslu um 50–80% ef mannkyn nær hámarki sem er talið einhvers staðar í nánd við 9–10 milljarða manna.

Er í þessari sýn ekki komin okkar framtíðarstóriðja? Ég tel einmitt svo vera. Þá er ég að höfða til ylræktar og annars landbúnaðar á Íslandi, til fiskeldis og fiskveiða og meðhöndlunar þessara matvæla og þá vistvæns útflutnings á grunni matvælastóriðju, sem ég kalla þetta.

Þarna þarf auðvitað að vera sjálfbær virkni, það vita allir. Það eru þolmörk lands og samfélags sem þarf að virða. En þetta held ég að sé kjarninn í því að við viljum hafa hér á Íslandi fjölbreytta og sjálfbæra atvinnustefnu. Við erum að tala um hátækniiðnað og þekkingariðnað. Við erum að tala um orkufrekan iðnað sem mun ekki hverfa héðan á næstu fáeinum árum alla vega, jafnvel áratugum. Við erum að tala um matvælaframleiðslu sem ég tel að eigi að bera hitann og þungann af aukningunni og einnig ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu jafnvel, sem er m.a. á grunni ylræktar, og endurhæfingarþjónustu. Við eigum mjög öflugt heilbrigðiskerfi sem getur, ef vel tekst til og við getum fjölgað þar fólki, þjónað fleirum en okkur.

Við þurfum að móta framtíðaratvinnustefnu sem allra fyrst á áþekkum grunni og ég hef útlistað hér og ekki hika við að hefja þá umræðu nú þegar.