149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnum í gær lagði hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fram spurningar til forsætisráðherra og hóf ræðu sína með þessum orðum, ég vitna í hann:

„Virðulegur forseti. Króna á móti krónu skerðing gagnvart öryrkjum er fjárhagslegt ofbeldi …“

Og síðar segir hann:

„Getur hæstv. forsætisráðherra svarað því hvenær þessu ólöglega fjárhagslega ofbeldi verður hætt?“

Við hv. þingmaður erum saman í samráðshópi um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Þann 13. desember sl. var lögð fram bókun í nefndinni til að leysa mál hennar og klára vinnuna. Ég ætla að vitna í bókunina hér með:

„Samkvæmt fjárlögum ársins 2019 verður 2.900 millj. kr. bætt við þann málaflokk sem hér um ræðir. Samráðshópurinn telur mjög áríðandi að þessum fjármunum verði vel varið og að ákvarðanir um ráðstöfun þeirra verði teknar með það í huga að þær styðji við nýtt framfærslukerfi almannatrygginga vegna fólks með skerta starfsgetu

Með framangreint í huga vill samráðshópurinn beina því til ríkisstjórnar Íslands að á árinu 2019 verði svokölluð króna á móti krónu skerðing sérstakrar uppbótar vegna framfærslu … um félagsleg aðstoð, afnumin.“ — Afnumin. — „Gera má ráð fyrir því að í breyttu framfærslukerfi verði þessi bótaflokkur afnuminn með öllu og sameinaður öðrum bótaflokkum, líkt og gert var í tilfelli ellilífeyrisþega í ársbyrjun 2017. Fyrsta skref í þá átt væri að leggja til breytingu þess efnis að í stað þess að miða útreikning á fjárhæð uppbótarinnar við 100% af tekjum lífeyrisþega verði miðað við 50% af tekjum þeirra … og 65% af tekjum þeirra lífeyrisþega sem búa einir …“

Það er skemmst frá því að segja að hv. þingmaður, sem kallar þetta fjárhagslegt ofbeldi, hafnaði þessari tillögu og formaður Öryrkjabandalags Íslands hafnaði líka þessari tillögu. Nú þegar, frá 1. janúar, hefðum við getað verið byrjuð að afnema krónu á móti krónu skerðingu og værum komin vel á veg vegna þess að sú aðgerð hefði kostað 1,4 milljarða. (Forseti hringir.)

Ég vek athygli á því að á sama tíma og Öryrkjabandalagið ætlar að fara í mál við ríkið vegna þessara ömurlegu skerðinga hafnaði Öryrkjabandalagið og þingmaðurinn þessari tillögu.