149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég sendi fyrirspurn á dómsmálaráðherra um börn sem vísað hefur verið úr landi til að glöggva mig á því að hvaða leyti Útlendingastofnun, sem er sá aðili sem getur kallað eftir því að börnum eða foreldrum þeirra sé vísað úr landi, fylgir lögum um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Í 1. mgr. 3. gr. er kveðið á um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðilar, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

Þetta eru ráðstafanir sem varða börn. Ég spyr því: Hve mörg börn hafa þurft að yfirgefa Ísland vegna þess að þeim eða foreldrum þeirra hefur verið vísað úr landi frá því að lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna tóku gildi 13. mars 2013?

Í öðru lagi spyr ég: Hvernig var hver brottvísun fyrir sig rökstudd, samanber ákvæði 1. mgr. 3. gr. samningsins þar sem talað er um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar m.a. stjórnvöld, í þessu tilfelli Útlendingastofnun, gera ráðstafanir er varða börn?

Í þriðja lagi spyr ég: Hvaða upplýsingar hafa stjórnvöld eða stofnanir þeirra fengið um afdrif þeirra barna til að meta hvort brottvísun hafi verið barninu fyrir bestu?

Eftir því sem ég hef rannsakað þetta nánar út frá réttindum barnsins sé ég betur að dómstólar vísa, m.a. í dómum sínum, ekki til þess þó að mál hafi verið tekið á dagskrá á grundvelli þess að horfa á réttindi barnsins; ekki nefnt í dómsorðum að Útlendingastofnun eigi að taka ákvarðanir, sem verður að vera viss um réttindi barnsins, um að það hafi verið barninu fyrir bestu að foreldrum þess var vísað úr landi og þar af leiðandi öruggt að barnið fylgdi með, þ.e. að það hafi verið barninu fyrir bestu.

Þegar ég fór að rannsaka þetta sá ég að það er oft þannig að þau lönd sem börn komu með foreldrum sínum til meta það svo að það hafi ekki verið barninu fyrir bestu. (Forseti hringir.) Ég vil fá rökstuðning um hvernig það var rökstutt og hver afdrif barnanna urðu í kjölfarið.