149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Eitt sinn voru það viðtekin sannindi að þegar Sovétríkin vildu hirta Kína agnúuðust þau út í Albaníu. Hér höfum við séð undanfarna daga tjaldbúðir á Austurvelli þar sem fólk, hópur í samfélaginu sem stendur mjög höllum fæti, nýtir sjálfsagðan rétt sinn til að mótmæla. Ansi margir virðast hafa skammast yfir meintum tímabundnum sóðaskap tengdum þeim mótmælum. Það hefur meira að segja heyrst hér í þessum sal.

Ég hvet þau sem þannig tala til að líta í eigin barm og spyrja sig hvað þau séu í raun að meina. Eru þau að agnúast út í gangstéttarhreinsun og meðferð grasflata? Eða finnst þeim í raun að hælisleitendur eigi að steinþegja og bíða eftir að vera vísað úr landi?

Eru þetta áhyggjur yfir sóðaskap eða brýst þarna kannski út ótti, minnimáttarkennd, tortryggni? Rétturinn til að mótmæla, til að krefjast betra lífs, betri aðbúnaðar á að vera okkur öllum sem á hinu háa Alþingi störfum og í þessum sal sitjum heilagari en flest annað.

Ég hef velt því fyrir mér þar sem ég hef fylgst með umræðunni hvort sumum þeirra sem hafa haft hvað hæst um þann meinta sóðaskap og fleira í þá veru og talað um virðingu í því samhengi sé meira annt um virðingu líflausrar styttu en lifandi fólks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)